Gleymd grunnskólaár

Logo

Sigurður Hólm Gunnarsson

Sigurður Hólm Gunnarsson ritstjóri Skoðunar sem stofnað var þann 23. júní 1999.

27/04/2002

27. 4. 2002

Ég fór í bæinn í gær, eins og kemur örsjaldan fyrir að ég geri um helgar, og hitti þar ónafngreinda stelpu sem heilsaði mér. Hún þekkti mig en ég hafði ekki hugmynd um hver hún var. Eftir að hafa lýst því yfir hve móðguð hún var að ég skyldi ekki muna eftir henni kom í […]

Ég fór í bæinn í gær, eins og kemur örsjaldan fyrir að ég geri um helgar, og hitti þar ónafngreinda stelpu sem heilsaði mér. Hún þekkti mig en ég hafði ekki hugmynd um hver hún var. Eftir að hafa lýst því yfir hve móðguð hún var að ég skyldi ekki muna eftir henni kom í ljós að þetta var stelpa sem ég var með í grunnskóla. Nánar tiltekið Hólabrekkuskóla. Hún mundi eftir mér og kunningjum mínum á meðan ég mundi nánast ekki neitt. Sannleikurinn er sá að ég man voða lítið frá grunnskólaárum mínum. Minningarnar eru í það minnsta mjög brotakenndar og einskorðast við ákveðin atvik. Einu tæru minningarnar sem ég á frá grunnskóla eru mjög vondar minningar.

Nánast alla mína grunnskólagöngu var ég lagður í mikið einelti. Frá því ég man eftir mér var ég kallaður ,,Siggi slef“ og ég var líklegast laminn eða pyntaður í hverri viku. Skólavistin var Helvíti, það er það eina sem ég man.

Þessa dagana er ég að vinna að gerð heimildarþáttar um einelti í grunnskólum og hefur sú vinna vakið upp margar óþægilegar minningar. Það kemur kannski mörgum þeim sem þekkja mig í dag á óvart að heyra að fyrir örfáum árum var ég alger veggjalús. Ég fílaði mig sem algjöran lúða og nobody, enda ekkert skrítið eftir að hafa verið uppnefndur ,,lúði“ og ,,Siggi slef“ nánast sleitulaust í 10 ár. Síðustu daga hef ég verið að ræða við fórnarlömb eineltis, sálfræðinga, heimspekinga og aðstandendur og fengið að heyra hvaða hræðilegu afleiðingar einelti getur haft á viðkvæma einstaklinga. Ég hef talað við fólk sem hefur reynt að taka eigið líf vegna eineltis og ég veit um tilvik þar sem menn hafa ekki aðeins reynt heldur einnig tekist að svipta sig lífi vegna eineltis. Mér finnst erfitt að hlusta á þessar sögur, því ég þekki þessar tilfinningar af eigin raun…

Ég er 26 ára og fæ enn martraðir þar sem ég endurupplifi grunnskólaár mín og enn kemur fyrir að ég vakna upp við eigin grát. Það er þá þegar ég man hvað ég lofaði sjálfum mér þegar ég var í grunnskóla. Ég lofaði mér því að ég myndi gera eitthvað varðandi einelti í skólum þegar ég ,,yrði stór“. Ég ætlar mér að standa við það loforð…

Deildu