Eineltisfrásögn 4: Ég mætti ekki í eitt einasta afmælisboð jafnaldra

Höfundur:

15. 8. 2002

Sæll. Þarft framtak af ykkar hálfu þessi síða um einelti. Mig langaði að koma á framfæri við þig nokkrum orðum um mína reynslu í þessum efnum, en hún er sennilega á svipuðum nótum og flestra. Fjölskylda mín átti heima út á landi þegar ég var lítill. Flutti þangað þegar ég var að byrja í grunnskólanum. […]

Sæll.

Þarft framtak af ykkar hálfu þessi síða um einelti. Mig langaði að koma á framfæri við þig nokkrum orðum um mína reynslu í þessum efnum, en hún er sennilega á svipuðum nótum og flestra. Fjölskylda mín átti heima út á landi þegar ég var lítill. Flutti þangað þegar ég var að byrja í grunnskólanum. Eineltið byrjaði fljótlega eftir að við fluttum. Nokkrir strákar í sama bekk og ég byrjuðu á að kalla mig gælunafni, eftir líkamshlut sem stakk í stúf við aðra. Þegar maður sýndi lítil viðbrögð, þróaðist hegðun þeirra í þá átt að beita líkamlegu ofbeldi. Setið var fyrir manni á leið heim úr skóla. Mjög oft var steinum skotið með teygjum á mann (steinarnir lentu hvar sem er á líkamanum). Oft var reynt að koma í veg fyrir að kæmist heim, með því að elta mig, láta mig hlaupa í burtu og oftast þannig að ég kæmist ekki heim. Þau eru ótöluleg atvikin sem áttu sér stað á þessum árum. Dæmi um þessi atvik eru t.d. nestinu stolið úr töskunni (sem gerðist oft í viku), útiskónum hent upp á þak skólans, stríðniorð (í tengslum við líkamshluta) kölluð hátt og snjallt í frímínútum, til að vekja athygli sem flestra á mér.

Ástandið þróaðist síðan smátt og smátt í útilokun. Á 10 aldursári mætti ég ekki í eitt einasta afmælisboð jafnaldra. Fjöldi kunningja voru 2, en mér hafði aldrei verið boðið í afmæli til þeirra og aldrei í heimsókn til annars þeirra. Á vinskap við annan þeirra reyndi eitt sinn, þegar okkur varð sundurorða. Hann brást þannig við að kalla mig „gælunafninu“ nógu hátt þannig að það heyrðist um alla götuna þar sem hann bjó. Eftir það hætti hann að umgangast mig sem kunningja. Sá eini sem stóð eftir, vildi lítið umgangast mig áfram, því hann var sá eini sem stóð eftir og mér fannst honum líða illa yfir því að vera sá eini sem umgengst mig í skólanum. Mér hafði aldrei verið boðið heim til hans. Á ellefta ári var ég því algerlega vinalaus, skilinn útundan í öllu sem fram fór utan skóla. Frá því ég var 10 ára og þar til ég var 16 ára, hafði ég aldrei komið heim til eins einasta skólafélaga minna.

Þar sem ég var algerlega útilokaður af hálfu jafnaldra á þessum árum, hélt útilokunin áfram þegar kom að unglingsárum. Ég var í sama bekk með þessum krökkum í heil 8 ár. Þegar kom að síðustu árum grunnskólans, voru sumir af þessum strákum orðnir þrælsterkir. Einn þeirra tók sér fyrir hendur að skaða mig mjög alvarlega, í frímínútum. Ég var frá skóla í nokkrar vikur. Sá læknir sem annaðist mig, furðaði sig á því að þessi hegðun skyldi vera látin viðgangast innan skólans.

Þegar kom að framhaldsskólaárum, var ég orðinn mjög tortrygginn á jafnaldra mína, óöruggur, með ekkert sjálfsálit og kveið hverjum skóladegi, því maður óttaðist að sama ástand myndi koma þar upp líka. Það gerði það ekki, en ég missti af þeim jákvæðu hlutum sem einkenna þessi ár, því ég var algerlega ófær um að eignast vini og ófær um að umgangast jafnaldra mína á eðlilegan og venjulegan máta, því ég hafði aldrei kynnst því sem barn og unglingur. Á þessum fjórum árum í framhaldsskóla, kom ég tvisvar í heimsókn inn á heimili bekkjarfélaga minna.

Fullorðinsár mín hafa ekki reynst þau hamingjuríku ár sem ég hélt að þau yrðu, þar sem ég væri loksins laus við skólagöngu. Mér hefur ekki gengið að eignast vini og hef aldrei komist í alvöru samband við konu. Maður hefur frétt af því hvernig lífið þróaðist hjá þessum strákum (og einni eða tveimur stelpum sem tóku þátt í þessum eineltisaðgerðum). Þetta fólk hefur meikað það nokkuð vel í lífinu, bæði eignast maka og börn. Þetta fólk hefur sennilega ekki hugmynd um það í dag, hvernig hegðun þess sem barn og unglingur, skaðaði mitt líf, hugsanlega allt mitt líf.

Kveðja

Deildu