Gömul sár…

Logo

Sigurður Hólm Gunnarsson

Sigurður Hólm Gunnarsson ritstjóri Skoðunar sem stofnað var þann 23. júní 1999.

15/09/2002

15. 9. 2002

Fjölmiðlaumræðan um einelti síðustu daga hefur haft töluverð áhrif á mig. Meiri en ég bjóst við. Gamlar tilfinningar og óleystir hnútar í maganum hafa, ásamt öðru, komið mér í undarlegt andlegt ástand. Það fylgir því ákveðið álag að vera í mikið fjölmiðlum og ég hef komist að því að ég er ekki eins sterkur og […]

Fjölmiðlaumræðan um einelti síðustu daga hefur haft töluverð áhrif á mig. Meiri en ég bjóst við. Gamlar tilfinningar og óleystir hnútar í maganum hafa, ásamt öðru, komið mér í undarlegt andlegt ástand. Það fylgir því ákveðið álag að vera í mikið fjölmiðlum og ég hef komist að því að ég er ekki eins sterkur og ég hef haldið.

Síðustu þrjá daga er ég búinn að fá þó nokkrar símhringingar og fleiri tölvupósta frá fórnarlömbum eineltis og aðstandendum þeirra. Sögurnar sem þetta fólk segir mér eru margar hræðilegar og minna mig um of á eigin reynslu. Hér eru nokkur dæmi:

,,En hvað með þá sem hafa lent í þessu og bíða þess kannski ekki bætur,hvað geta þau gert? Þetta situr í manni alltaf og þetta er t.d. búið að hafa svo mikil áhrif á mitt líf og þegar ég lít til baka þá hefur þetta algjörlega mótað mig og ég væri örugglega ekki í þessum sporum sem ég er núna, ef það hefði verið komið fram við mig eins og manneskju á þessum árum. Og þá hefði ég kannski trúað að ég væri manneskja en ég hef víst alltaf haldið að ég væri eitthvað annað.“

,,Á ellefta ári var ég því algerlega vinalaus, skilinn útundan í öllu sem fram fór utan skóla. Frá því ég var 10 ára og þar til ég var 16 ára, hafði ég aldrei komið heim til eins einasta skólafélaga minna.,,

,,Dag einn kom systir mín hlaupandi heim af rólóvellinum, í endanum á götunni, hágrátandi og sagði mömmu að krakkarnir voru að stríða mér. Mamma hljóp út á róló og mætti mér á leiðinni, hágrátandi, með mikinn hluta af hárinu mínu í höndunum og með buxurnar á hælunum. Mamma og pabbi sem kom líka hlupu krakkana uppi og náðu þeim fyrir framan útidyrnar hjá nágranna okkar, sem kom út og sagði: „nei, börnin mín gera ekki svona“. Eftir þetta átti ég lengi erfitt að halda virðingunni fyrir framan litlu systur mína, sem hafði lengi áhrif á samband okkar.“

,,Ég tel mig reyndar nokkuð vel á mig komna þó ég hafi verið uppfull af kvíðaköstum og þunglyndi. Ég hef einhvernvegin klöngrast í gegnum þetta allt saman.“

Þegar ég les eða heyri sögu þessa fólks verð ég bæði sár og reiður. Ekki út í neinn einstakling eða einstaklinga heldur út í þær aðstæður sem valda því að einelti á sér stað og þrífst.

Fólk er mjög misjafnt tilfinningalega og ég viðurkenni að ég er mjög viðkvæmur maður. Hef alltaf verið það, get ekkert gert við því og ég skammast mín ekki fyrir það. Maður er bara það sem maður er.

Þó að ég reyni stundum að ljúga því að mér að eineltið hafi ekki haft nein langvarandi áhrif á mig, veit ég innst inni að það er ekki satt. Vissulega er það satt að flesta daga hefur þessi reynsla ekki teljandi áhrif á mig en það er ljóst að sárin sem mynduðust í æsku hafa aldrei fyllilega gróið.

Fyrir nokkrum árum man ég að ég var farþegi í bíl þáverandi kærustu minnar og við vorum að hlusta á útvarpsfréttir. Ein fréttin fjallaði um að einhver nefnd á vegum menntamálaráðuneytisins hefði ákveðið að gera átak í eineltismálum. Við það eitt að heyra þessa frétt brotnaði ég niður og fór að hágráta. Kærasta mín, sem vissi auðvitað ekki hvað í ósköpunum var í gangi stöðvaði bílinn við fyrsta tækifæri og huggaði mig.

Ekki geri ég mér sjálfur fyllilega grein fyrir því af hverju þetta gerðist. Ég var í góðu skapi og allt hafði gengið vel þennan dag.

Margir viðmælenda minna tala um að þeir þjáist af þunglyndi og öðrum tilfinningalegum kvillum og er það eitthvað sem ég kannast við. Þunglyndi er skelfilegt fyrirbrigði. Það getur lamað einstaklinga og gert þá ófæra um að lifa lífinu. Það sem verra er þá hrekur það fólk í burtu. Þetta þekkja flestir sem hafa fundið til þunglyndis í lengri tíma.

Deildu