Misskilin misskilningur

Logo

Sigurður Hólm Gunnarsson

Sigurður Hólm Gunnarsson ritstjóri Skoðunar sem stofnað var þann 23. júní 1999.

28/04/2004

28. 4. 2004

Eru þeir sem gagnrýna útlendingafrumvarp dómsmálaráðherra einfaldlega að misskilja frumvarpið? Eru athugasemdir Mannréttindaskrifstofu, Fjölmenningarráðs, W.O.M.E.N. og fjölmargra annarra byggðar á misskilningi? Þetta er það sem þeir sem styðja frumvarpið halda blygðunarlaust fram. Georg Lárusson forstjóri Útlendingastofunnar, Björn Bjarnason dómsmálaráðherra og nú síðast Friðjón R. Friðjónsson varaformaður SUS og starfsmaður dómsmálaráðuneytisins hafa allir sakað gagnrýnendur frumvarpsins […]

Eru þeir sem gagnrýna útlendingafrumvarp dómsmálaráðherra einfaldlega að misskilja frumvarpið? Eru athugasemdir Mannréttindaskrifstofu, Fjölmenningarráðs, W.O.M.E.N. og fjölmargra annarra byggðar á misskilningi? Þetta er það sem þeir sem styðja frumvarpið halda blygðunarlaust fram. Georg Lárusson forstjóri Útlendingastofunnar, Björn Bjarnason dómsmálaráðherra og nú síðast Friðjón R. Friðjónsson varaformaður SUS og starfsmaður dómsmálaráðuneytisins hafa allir sakað gagnrýnendur frumvarpsins um að misskilja frumvarpið. Þetta er hins vegar misskilningur hjá þessum ágætu mönnum.


Misskilningur leiðréttur

1) Hjúskapur og 24 ára aldur
Georg Lárusson hefur haldið því fram í fjölmiðlum að þeir sem gagnrýna frumvarpið haldi að útlendingar megi ekki giftast Íslendingum fyrr en þeir séu orðnir 24 ára gamlir. Björn Bjarnason hefur einnig gefið í skyn að um þennan misskilning sé að ræða.

Þetta er rangt. Þó að einhverjir kunni að hafa misskilið frumvarpið þannig þá hafa þeir sem stóðu að undirskriftarsöfnuninni ekki haldið þessu fram. Undirskriftarsöfnunin var sett á laggirnar til stuðnings umsagnar Fjölmenningarráðs og Félags kvenna af erlendum uppruna (W.O.M.E.N.). Hvergi í þeirri umsögn er þessum rangfærslum haldið fram.

Í umsögn Fjölmenningarráðs og W.O.M.E.N. um 24 ára regluna segir:

„Frumvarpið gerir að skilyrði fyrir veitingu dvalarleyfis á grundvelli hjónabands, sambúðar eða samvistar að erlendur maki, sambúðar- eða samvistarmaki hafi náð 24 ára aldri. Íslensk hjúskaparlög heimila fólki að ganga í hjónaband við 18 ára aldur. Hér er fólki af erlendum uppruna því greinilega mismunað á grundvelli uppruna.“

Í umsögn Mannréttindaskrifstofu Íslands segir:

„1. Að því er viðkemur skilyrði frumvarpsins um að maki, sambúðarmaki eða samvistarmaki skuli vera eldri en 24 ára til þess að falla undir skilgreiningu á “nánustu aðstandendum” ber að athuga, að hjúskaparaldur samkvæmt íslenskum lögum er 18 ár og er því verið að mismuna útlendingum með þessum nýju aldursmörkum frumvarpsins. Rétturinn til að stofna til hjúskapar er verndaður í 12. gr. Mannréttindasáttmála Evrópu (hér eftir MSE), sem lögfestur hefur verið á Íslandi, sbr. lög nr. 62/1994, en þar segir að karlar og konur á hjúskaparaldri eigi rétt á að ganga í hjónaband og stofna fjölskyldu í samræmi við landslög um þessi réttindi. Í 1. gr. MSE er sú skylda lögð á aðildarríkin, að þau tryggi hverjum þeim, sem innan yfirráðasvæðis þeirra dvelst, réttindi þau og frelsi sem sáttmálinn verndar og 14. gr. MSE kveður á um bann við mismunun gagnvart þeim réttindum sem sáttmálinn verndar.“

2) Húsleit án dómsúrskurðar?
Bæði Björn Bjarnason og Friðjón R. Friðjónsson, starfsmaður Björns, hafa haldið því fram að þeir sem stóðu að undirskriftarsöfnuninni haldi að með frumvarpinu sé lögreglu heimilt að ráðast inn á heimili fólks án dómsúrskurðar til að kanna hvort íbúar séu í „málamyndahjónabandi“.

Þetta er að hálfu leiti rangt og að öllu leiti aukaatriði. Það er rétt að sumir hafa talið, eftir að hafa ráðfært sig við lögfæðinga, að frumvarpið feli í sér slíka heimild lögreglu án dómsúrskurðar. Aðrir hafa ekki talið að svo sé. Allir eru þó sammála um að vegna þess hve óskýrt frumvarpið er orðað sé auðvelt að misskilja það. En það er einmitt þetta óskýra orðalag sem hvað mest hefur verið gagnrýnt.

Jafnvel þó að það þurfi alltaf að fá dómsúrskurð til að ráðast inn á heimili fólks þá er ljóst að verði umrætt frumvarp samþykkt þarf ekki mikinn rökstuðning til að fá slíkan úrskurð. Í frumvarpinu stendur: „… má lögregla leita á útlendingnum, á heimili hans, herbergi eða hirslum samkvæmt reglum laga um meðferð opinbera mála, eftir því sem við á.“

Eins og þeir félagar, Björn, George og Friðjón ættu allir að vita þá er það einmitt þetta loðna orðalag sem er gagnrýnt. Hvað þýðir þetta „eftir því sem við á“?

Í umsögn Fjölmenningarráðs og W.O.M.E.N um þetta atriði segir orðrétt:

„Ekki er að okkar mati óeðlilegt að lögregla hafi heimild til húsleitar ef um er að ræða grun um refsivert brot. Hinsvegar segir í ákvæðinu “… má lögregla leita á útlendingnum, á heimili hans, herbergi eða hirslum samkvæmt reglum laga um meðferð opinbera mála, eftir því sem við á.”

Hér er orðalagið “eftir því sem við á” gagnrýnt. Lög um meðferð opinbera mála eiga að gilda undantekningarlaust enda eru þau sett til að tryggja borgarana gagnvart rannsóknar- og ákæruvaldi. Jafn teygjanlegt orðalag býður upp á mismunun gagnvart útlendingum í túlkun laganna.“

3) Mótmælin pólitísk aðför?
Dómsmálaráðherra, starfsmaður hans og fleiri hafa verið duglegir að gefa það í skyn að undirskriftarsöfnunin gegn útlendingafrumvarpinu hafi haft þann eina tilgang að koma höggi á dómsmálaráðherra og ríkisstjórnina. Þetta er enn einn misskilningurinn eða afar ódýr leið til að afgreiða gagnrýni.

Eftir ótal fundi, bréfaskrif og samtöl sem ég hef átt við aðra aðstandendur undirskriftarsöfnunarinnar er ég sannfærður um að í þeim hóp hafa allir miklar áhyggjur af efni frumvarpsins og hugsanlegum afleiðingum þess. Algerlega óháð afstöðu þeirra til dómsmálaráðherra eða ríkisstjórnar landsins. Það er áhyggjuefni að skerða eigi möguleika ástvina til að búa saman með 24 ára reglunni og það er ekki síður áhyggjuefni að setja eigi lög sem heimila húsleitir með svo óljósum heimildarákvæðum. Það var því, og er enn, full ástæða til að mótmæla harðlega frumvarpinu eins og það var lagt fram.

Í umræðum um þetta mál hér á vefnum hef ég meðal annars sagt: „Vegurinn til glötunar er varðaður góðum áformum. Vitanlega gengur þeim sem leggja fram þetta frumvarp gott eitt til, eða það vona ég í það minnsta.“ Ég vona það enn! Mörg okkar sem stóðum að undirskriftarsöfnuninni höfum sagt að umræddir gallar frumvarpsins hljóti að vera mannleg mistök. Mistök sem má leiðrétta.

Það að afgreiða gagnrýnisraddir með ásökunum um pólitíska aðför er afar ódýrt svo ekki sé meira sagt. Gagnrýni á frumvarpið kemur úr öllum áttum. Frá hægrimönnum, miðjumönnum, vinstrimönnum, anarkistum, kommum og frjálshyggjumönnum svo ekki sé minnst á ungliðahreyfingum allra flokka. Vel getur verið að einhverjir sem gagnrýnt hafa frumvarpið hafi sérstakan hag af því að sparka í dómsmálaráðherra. Þó svo sé breytir það því ekki að rökin gegn frumvarpinu eru góð og gild.

Til umhugsunar
Fleiri greinar frumvarpsins en ég hef fjallað um hér hafa verið gagnrýndar. Til að mynda er gagnrýnt harðlega að orðið „málamyndahjónaband“ er hvergi skilgreint. Hvað er átt við með þessu orði? Hver skilgreinir það og hvernig er þessi undarlega tegund hjónabanda rannsökuð? Ég bendi áhugasömum á að lesa Umsögn Fjölmenningarráðs og W.O.M.E.N til að kynna sér málið betur.

Fyrir utan gagnrýni á einstakar greinar frumvarpsins hafa margir réttilega gagnrýnt „anda“ lagana. Eins og lögin eru orðuð má draga þá ályktun að innflytjendur séu sérstaklega hættulegt og óheiðarlegt fólk. Innflytjendur eru í það minnsta gerðir afar tortryggilegir. Lögin eru íþyngjandi og koma illa við fjöldann allan af saklausum innflytjendum og íslenskum ástvinum þeirra og ættingjum. Persónulega tel ég svona lög bera vott um ákveðna fordóma sem um leið ýta undir frekari fordóma. Rétt eins og á við um velflesta Íslendinga þá eru flestir innflytjendur strangheiðarlegt og gott fólk sem eiga ekki skilið að fá svona meðferð.

Ég hvet því dómsmálaráðherra og aðra þá sem hafa með þetta frumvarp að gera að endurskoða efni frumvarpsins með hliðsjón að ofangreindum athugasemdum.

 

Deildu