Skoðanamyndandi skoðanakannanir

Logo

Sigurður Hólm Gunnarsson

Sigurður Hólm Gunnarsson ritstjóri Skoðunar sem stofnað var þann 23. júní 1999.

21/09/2004

21. 9. 2004

Ásgeir nokkur Eiríksson var gestur í útvarpsþættinum Reykjavík síðdegis á Bylgjunni í gær og fékk hann þar að boða fordóma sína og ranghugmyndir gagnvart innflytjendum gagnrýnislaust. Rökvillurnar og fordómarnir sem þessi maður lét frá sér svo margar og augljósar að hálf vandræðalegt var að hlusta á hann. Byggði hann ofsakenndan málflutning sinn meðal annars á […]

Ásgeir nokkur Eiríksson var gestur í útvarpsþættinum Reykjavík síðdegis á Bylgjunni í gær og fékk hann þar að boða fordóma sína og ranghugmyndir gagnvart innflytjendum gagnrýnislaust. Rökvillurnar og fordómarnir sem þessi maður lét frá sér svo margar og augljósar að hálf vandræðalegt var að hlusta á hann. Byggði hann ofsakenndan málflutning sinn meðal annars á marklausri skoðanakönnun sem Bylgjan stóð fyrir.


Tilefni umræðunnar í Reykjavík síðdegis var meðal annars “skoðanakönnun” sem framkvæmd var á vefsíðu Bylgjunnar (www.bylgjan.is). Spurt var: “Ertu fylgjandi fjölmenningarsamfélagi á Íslandi?”.

Niðurstöður könnunarinnar voru nokkuð sláandi því 64% þátttakenda sagðist vera á móti slíku samfélagi. Merkileg niðurstaða? Nei hreint ekki. Þeir sem vita eitthvað um vísindaleg vinnubrögð vita að skoðanakannanir sem þessar eru í meira lagi óvísindalegar og ekkert mark er takandi á þeim. Ástæðurnar eru margar en helst má nefna að úrtakið er sjálfvalið. Þátttakendur eru ekki valdir af handahófi heldur taka þeir þátt sem nenna og hafa áhuga. Rasistum, sem sofa varla á næturnar út af áhyggjum af “útlendingum og asíukellingum”, er mikið í mun að tjá sig í könnunum sem þessum á meðan aðrir þeir sem ekki hafa fundið fyrir útlendingaótta hafa litla þörf fyrir að kíkja á www.bylgjan.is og kjósa. Þar að auki geta allir þeir sem hafa aðgang að tölvu kosið í svona könnunum og er ómögulegt að vita hversu oft hver maður kýs. Í stuttu máli eru skoðanakannanir sem þessar gagnslausar. Að byggja umræðu um mikilvæg og viðkvæm málefni á niðurstöðum slíkra kannanna er því vægast sagt vafasamt.

Jafnvel þó kannanir sem þessar séu rétt framkvæmdar hvað varðar úrtak, fjölda þátttakenda og svo framvegis segja þær oft lítið um skoðanir þátttakenda. Skoðanakannanir eru oft mun meira skoðanamyndandi en nokkuð annað. Hvað þýðir til dæmis spurningin “Ertu fylgjandi fjölmenningarsamfélagi á Íslandi?”? Rasistar leggja aðra meiningu í spurninguna en fjölmenningarsinnar og venjulegt fólk sem lítið hefur hugsað um málefnið túlkar spurninguna afar misjafnt.

Rasistar heyra: “Viltu að landið þitt fyllist af villitrúandi og ofbeldisfullum útlendingum sem taka af þér vinnuna?” Fjölmenningarsinnar skilja spurninguna einhvern veginn svona: “Finnst þér í lagi að fólk frá öðrum löndum setjist hér að og taki þátt í íslensku samfélagi svo lengi sem það virðir lög og lýðræðishefð landsins?” Því er ljóst að ef spurningin “Ertu fylgjandi fjölmenningarsamfélagi á Íslandi?” er ekki betur skilgreind er öll túlkun á svörum þátttakenda marklaus.

Deildu