Spurt og svarað um yfirlýsingu Þjóðarhreyfingarinnar

Logo

Sigurður Hólm Gunnarsson

Sigurður Hólm Gunnarsson ritstjóri Skoðunar sem stofnað var þann 23. júní 1999.

14/12/2004

14. 12. 2004

Þjóðarhreyfingin hóf fyrir nokkrum dögum söfnun til að fjármagna birtingu yfirlýsingar í New York Times til að kynna þá staðreynd að stuðningur íslenskra stjórnvalda við innrásina í Írak endurspeglar ekki vilja íslensku þjóðarinnar. Strax eftir að átak Þjóðarhreyfingarinnar var kynnt hófst afskaplega ómálefnaleg umræða um átakið. Þeir sem standa að átakinu eru sakaðir um að […]

Þjóðarhreyfingin hóf fyrir nokkrum dögum söfnun til að fjármagna birtingu yfirlýsingar í New York Times til að kynna þá staðreynd að stuðningur íslenskra stjórnvalda við innrásina í Írak endurspeglar ekki vilja íslensku þjóðarinnar. Strax eftir að átak Þjóðarhreyfingarinnar var kynnt hófst afskaplega ómálefnaleg umræða um átakið. Þeir sem standa að átakinu eru sakaðir um að tala í “nafni allra Íslendinga”, og hafa það eina markmið að “kynna sjálfan sig”. Þeir sem eru á móti stríðinu eru víst allir “kommar”, “kommatittar” og “sósíalistar”. Svo hefur það farið fyrir brjóstið á íslenskum haukum að almenningur mótmæli gjörðum ríkisstjórnar sem “var kosin lýðræðislegri kosningu og hefur því fullt umboð til að gera sem henni sýnist”. Í þessum pistli verður algengum áróðri og rökvillum svarað.

“Þjóðarhreyfingin talar í nafni allra Íslendinga”

Þetta þvaður hefur verið endurtekið aftur og aftur í fjölmiðlum undanfarna daga. Fyrst um sinn var fullyrt að “íslenska þjóðin” væri skrifuð fyrir yfirlýsingunni sem birta á í New York Times. Nú hafa áróðursmeistarar dregið aðeins í land en fullyrða þó enn að Þjóðarhreyfingin tali í nafni allra Íslendinga.

Ástæðan er sú að í yfirlýsingunni segir meðal annars:

“Við, Íslendingar, mótmælum eindregið yfirlýsingu íslenskra stjórnvalda um stuðning við innrás Bandaríkjanna og ,,viljugra“ bandamanna þeirra í Írak í mars 2003. Með þeirri yfirlýsingu voru brotin íslensk lög, alþjóðalög – og íslensk lýðræðishefð.”

Eins heimskulega og það nú hljómar halda íslenskir haukar því fram að með þessum orðum sé átt við alla Íslendinga. Þegar sagt er “Við, Íslendingar” er vitaskuld átt við þá sem standa að yfirlýsingunni (við erum jú Íslendingar). Hvert einasta fullþroska mannsbarn veit að ekki er hægt að lýsa einhverju yfir í nafni hvers einasta Íslendings (nema allir Íslendingar taki þátt í söfnuninni) og því er þetta vægast sagt langsóttur útúrsnúningur. Hins vegar eru Íslendingar almennt á móti þátttöku Íslands í stríðinu í Írak og veru landsins á lista “hinna viljugu”. Samkvæmt skoðanakönnunum hafa 80% Íslendinga sagst vera á móti því að Ísland sé á lista “hinna viljugu”. Þegar Bush forseti og fjölmiðlar víðs vegar um heiminn fjalla um þátttöku Íslendinga koma þessar staðreyndir hvergi fram.

“Íslendingar vinna gull í Evrópukeppni”, “Íslendingar eru bjartsýnir”, “Íslendingar eru einsleitir” “Íslendingar eru vinnusöm þjóð”. Af einhverjum ástæðum eru setningar sem þessar algengar í fjölmiðlum án þess nokkur maður haldi að um sé að ræða alla Íslendinga.

“Já en með orðalaginu er Þjóðarhreyfingin að reyna að blekkja fólk.”

Þetta er önnur vitleysa sem heyrst alltaf þegar búið er að hrekja þá fullyrðingu að Þjóðarhreyfingin sé að tala fyrir hönd allrar þjóðarinnar. Sannleikurinn er sá að markmiðið með yfirlýsingunni er að útskýra það fyrir heimsbyggðinni að þó íslensk stjórnvöld setji Ísland á lista “hinna viljugu” þýðir það ekki að allir Íslendingar hafi stutt eða styðji stríðið í Írak. Verið er að benda á að þó að Ísland sé á umræddum lista eru langflestir Íslendingar (þeir sem byggja landið Ísland) á móti stríðinu. Hvernig er hægt að vera á móti því að benda á staðreyndir?

Markmiðið með yfirlýsingunni er að breiða út sannleikann um afstöðu Íslendinga til stríðsins, ekki að breiða yfir sannleikann. Það þarf enginn sem styður átak Þjóðarhreyfingarinnar að óttast umræðu um hver stuðningur Íslendinga við innrásina í Írak var og er. Allar þær kannanir sem gerðar hafa verið sýna það glögglega að mikil meirihluti Íslendinga var og er á móti innrásinni í Írak og veru landsins á lista “hinna viljugu”. Í kjölfar þess að yfirlýsingin birtist í NYT verður umræða um hana í fjölmiðlum víðs vegar um heim þar sem afstaða Íslendinga verður rædd. Það er því engin hætta á því fjöldi fólks haldi að allir Íslendingar vilji fara af lista “hinna viljugu”.

“Já en íslensk stjórnvöld hafa verið kosin lýðræðislegri kosningu. Ef menn eru ósáttir við gjörðir stjórnvalda eiga þeir einfaldlega að sýna það í næstu kosningum. Hvað er Þjóðarhreyfingin að skipta sér af því sem lýðræðislega kjörin stjórnvöld hafa ákveðið? Þjóðarhreyfingin hefur ekkert umboð til að skipta sér að gjörðum íslenskra stjórnvalda.”

Lýðræði snýst um meira en að kjósa á fjögurra ára fresti. Það er reynda skylda þeirra sem vilja verja lýðræðið og tjáningarfrelsið að láta í sér heyra. Þjóðarhreyfingin telur sig ekki hafa vald til að breyta lögum eða einstökum stjórnvaldsaðgerðum. Enginn talsmaður þeirra hefur haldið slíku fram svo best sem ég veit. Með yfirlýsingunni er aðeins verið að benda umheiminum á það að Íslendingar voru og eru almennt á móti innrás Bandaríkjanna inn í Írak. Það er ekki verið að breyta lögum. Það er ekki verið að breyta stjórnavaldsaðgerðum. Það er ekki einu sinni verið að ljúga. Það er einfaldlega verið að benda á staðreyndir. Langflestir Íslendingar eru á móti því að Ísland sé á lista “hinna viljugu”. Það eru margar leiðir til að taka þátt í lýðræðissamfélagi. Ein er að kjósa, önnur er að láta rödd sína heyrast. Ljóst er að núverandi stjórnarflokkar voru ekki kosnir vegna stuðnings flokksforystunnar við stríðið í Írak heldur þrátt fyrir hann.

“Í Þjóðarhreyfingunni eru ekkert nema sósíalistar.”

Þetta eru vitaskuld ekki rök heldur afbrigði af klassískri rökvillu. Verið er að ráðast að og gera lítið úr þeim sem standa að átaki Þjóðarhreyfingarinnar en ekki verið að gagnrýna sjálft málefnið. Þetta er algeng aðferð þeirra sem eru rökþrota.

Þeir sem styðja átak Þjóðarhreyfingarinnar eru hins vegar ekki sósíalistar. Reyndar geta fæstir þeir sem ég þekki til talist sósíalistar. Ekki veit ég betur en að ýmsir þeir sem hafa talað fyrir hönd Þjóðarhreyfingarinnar hafi verið virkir meðlimir í Sjálfstæðisflokknum og jafnvel verið á þingi fyrir þann ágæta flokk.

“Hvers vegna kaupir ekki Þjóðarhreyfingin auglýsingu í Íröskum fjölmiðli frekar en í New York Times? Er ekki markmiðið að biðja írösku þjóðina afsökunar?”

Eitt af markmiðum yfirlýsingarinnar er að biðja írösku þjóðina afsökunar. Mikilvægasta markmiðið er hins vegar að vekja athygli sem flestra á raunverulegri afstöðu Íslendinga. Ein af ástæðum þess að ákveðið varð að birta yfirlýsinguna í NYT en í írösku dagblaði var sú að menn telja almennt að yfirlýsingin eigi meiri möguleika á umfjöllun í heimspressunni ef hún birtist í einu virtasta blaði Bandaríkjanna.

Önnur ástæða er sú að átak Þjóðarhreyfingarinnar er gert af norskri fyrirmynd en Norðmenn birtu sambærilega yfirlýsingu í Washington Post þann 12. október síðastliðinn („A letter from the concerned citizens and organizations of Norway“) sem vakti mikla athygli í heimspressunni.

Menn geta svosem gagnrýnt hvar Þjóðarhreyfingin ákvað að kaupa auglýsingapláss. Kannski var til betri leið til að ná til umheimsins. Ég er ekki markaðs- eða auglýsingafræðingur. Ef menn vita um aðrar góðar leiðir til að koma skilaboðunum áleiðis hvet ég þá til að láta Þjóðarhreyfinguna vita. Hver veit nema sum okkar séum til í að borga fyrir aðra yfirlýsingu í meira áberandi fjölmiðli?

“Af hverju eru peningarnir frekar notaði til mannúðarmála?”

Í fyrsta lagi kemur fjárfesting í yfirlýsingu ekki í veg fyrir að menn styðji mannúðarmál. Sömu spurningu er hægt að spyrja alla þá sem styðja fjárhagslega hvers kyns íþróttafélög, listir, stjórnmálafélög eða í raun hvað sem er. Það er alltaf hægt að sleppa því að fjárfesta í einhverju og gefa líknarfélagi peninginn. Svo geta menn líka gert bæði. Sjálfur sleppti ég því að kaupa pítsu í matinn einu sinni til að styrkja þetta þarfa átak.

Í öðru lagi er yfirlýsing Þjóðarhreyfingarinnar mannúðarmál. Það skiptir mannréttindi í heiminum miklu máli að friðelskandi og lýðræðislega þenkjandi fólk láti í sér heyra þegar það á við. Eru ekki meiri líkur á því, vegna háværra mótmæla Íslendinga, að íslensk stjórnvöld hugsi sig tvisvar um næst þegar þeir íhuga að styðja sambærilegt stríð og nú á sér stað í Írak?

Ég leyfi mér að ljúka þessum pistli með því að vitna í þjóðfélagsgagnrýnandann Voltaire sem sagði víst eitt sinn þessi fleygu orð:

“All it requires for the forces of evil, bigotry, superstition and ignorance to keep their grip on the minds of the people is that good men and women continue to do nothing.”

Er þetta ekki kjarni málsins?

Hringið í síma 90 20000 og leggið þannig fram 1.000 kr. (eitt þúsund krónur) til að kosta birtingu yfirlýsingarinnar.
Einnig má leggja frjáls framlög á bankareikning 1150-26-833 í SPRON (Þjóðarhreyfingin: kt. 640604-2390).

Verði afgangur af söfnunarfénu, rennur hann óskiptur til Rauða kross Íslands til hjálpar stríðshrjáðum borgurum í Írak.

Deildu