Ræða á stofnfundi Aðstandendafélags aldraðra (AFA)

Logo

Sigurður Hólm Gunnarsson

Sigurður Hólm Gunnarsson ritstjóri Skoðunar sem stofnað var þann 23. júní 1999.

26/03/2006

26. 3. 2006

Sunnudaginn 26. mars 2006 Kæru fundargestir Ég vil byrja á að þakka fyrir þennan fund og lýsa yfir ánægju minni með að nú sé búið að stofna Aðstandendafélag aldraðra. Það var kominn tími til! Það er einlæg von mín að með þessum fundi verði til hreyfing sem muni vekja athygli á aðstæðum aldraðra og að […]

Sunnudaginn 26. mars 2006

Kæru fundargestir

Ég vil byrja á að þakka fyrir þennan fund og lýsa yfir ánægju minni með að nú sé búið að stofna Aðstandendafélag aldraðra. Það var kominn tími til!

Það er einlæg von mín að með þessum fundi verði til hreyfing sem muni vekja athygli á aðstæðum aldraðra og að um leið verði til öflugur þrýstihópur sem muni hvetja stjórnvöld áfram við að tryggja öldruðum sem áhyggjuminnst og ekki síst skemmtilegt ævikvöld. Við eigum auðvitað öll að hlakka til ellinnar ekki kvíða henni.

Við búum almennt í mjög góðu samfélagi og við getum fullyrt að Íslendingar hafa sjaldan eða aldrei haft það eins og gott og nú. Við skulum ekki gleyma því. Það breytir því ekki að það er margt í okkar samfélagi sem betur mætti fara. Þar á meðal hvernig við hugsum um þá sem eldri eru. Þá sem hafa byggt þetta góða samfélag.

Okkur er sagt að við búum í samfélagi allsnægta og fréttatímar eru fullir af fréttum af velgengni íslenskra fyrirtækja og hækkandi kaupmætti. Það hlýtur því að skjóta skökku við að á sama tíma berast okkur fréttir um slæman aðbúnað eldri borgara. Nýlega voru til að mynda fluttar fréttir af því að nálægt 100 aldraðir einstaklingar neyðast til búa á öldrunar- og bráðadeildum Landsspítalans löngu eftir að meðferð þeirra er lokið vegna þess að það eru ekki til hjúkrunarrými eða önnur úrræði. Þetta fólk hefur ekkert fyrir stafni, ekkert einkalíf og lifir í óvissu um framtíð sína.

Fyrir stuttu var tekið viðtal í Læknablaðinu við sérfræðilækni sem vinnur á bráðadeild. Hann lýsti aðstæðum sjúklinga sinna þannig:

„Á bráðadeildinni minni er engin setustofa, enginn matsalur og eina dægradvölin er sjónvarp og útvarp. Heimsóknargestir standa uppi við vegg þar sem aðeins einn stóll fylgir hverju rúmstæði. Tíð skipti eru á herbergisfélögum. Þeir eru oftast mjög veikir og þeim fylgir ónæði af ýmsum toga.“

Góðir fundargestir. Þetta ástand er ólíðandi.

Ástæðan fyrir því að ég er að ræða við ykkur um þessi mál í dag er sú að ég hef verið að reyna, ásamt fjölskyldu minni, að vekja athygli á óþolandi aðstæðum sem amma mín og afi búa við á sínum efri árum. Aðstæðum sem ég hélt satt að segja að væru ekki til á Íslandi. Ég skrifaði fyrir stuttu grein í Morgunblaðið sem bar titilinn “Eiga amma og afi þetta skilið?

Í greininni segi ég frá því afi minn hefur ekki getað búið heima hjá sér í tvö ár vegna veikinda og býr nú á hjúkrunarheimili. Amma mín býr hins vegar enn heima þrátt fyrir að vera orðin brothætt á bæði líkama og sál.

Eins og eðlilegt er langar þau mest af öllu að fá að búa saman, þótt ekki væri nema undir sama þaki. En í okkar góða samfélagi er það ekki hægt. Það er víst ekki til pláss og amma, er samkvæmt einhverju mati, ekki orðin „nógu veik“ til að komast neins staðar inn.

Við í fjölskyldunni höfum upplifað það að amma mín og afi eru bæði þunglynd og gráta sitt í hvoru lagi yfir einmanaleika og söknuði vegna þess að þau geta ekki verið saman síðustu ár ævi sinnar.

Svona á engum að líða í íslensku samfélagi.

Eftir að þessi grein birtist í Morgunblaðinu hafa fjölmargir haft samband við mig og sagt mér frá sambærilegum aðstæðum ættingja sinna. Allir eru sammála því að það þurfi að taka verulega til hendinni í málefnum aldraðra. Ég býst við að margir þeirra séu komnir á þennan fund hér í dag.

Af ömmu minni og afa er það að frétta að amma mín liggur nú inn á sjúkrahúsi eftir að hún datt, ein heima, og slasaði sig. Þetta er ekki í fyrsta skiptið sem hún dettur þegar hún er ein heima og slasar sig. Og reyndar ekki í annað skiptið. Hún hefur ekki enn komist inn á hjúkrunarheimili, og nú þegar hún er slösuð getur hún ekki einu sinni heimsótt afa minn á hverjum degi eins og hún hefur hingað til reynt að gera.

Þykir einhverjum þetta ástand eðlilegt?

Í umræddi grein benti ég einnig á að engin skýr svör fást um það hvenær eða hvort amma mín og afi geti fengið að búa saman á ný. Mér og fjölskyldu minni hefur verið sagt að um 200 manns séu á undan á biðlista. Það þýðir í raun og veru að 200 manns þurfa að deyja áður en amma mín og afi geta búið saman á ný. Það kann að vera einhverjum þyki þetta hart orðalag en svona blasir harður raunveruleikinn við mér.

Í svörum heilbrigðisráðherra á Alþingi við fyrirspurnum Ástu Ragnheiðar, og annarra þingmanna, hefur komið fram að ástandið er jafnvel verra en ég hélt fram í minni grein. Í svörunum kemur fram að auk þeirra tæplega hundrað manns sem sitja fastir inn á Landspítalanum bíða um 350 manns í brýnni þörf eftir hjúkrunarplássi. 950 eða næstum þúsund manns þurfa að deila herbergjum með öðrum. Með fólki sem það þekkir lítið sem ekkert og á jafnvel ekkert sameiginlegt með.

Það vantar því um 1300 hjúkrunarpláss bara til þess að leysa vanda þessa fólks. 1300 hjúkrunarpláss! Samkvæmt svörum ráðherra er hins vegar gert ráð fyrir 200 nýjum hjúkrunarrýmum á næstu tveim árum. 200, ekki 1300. Þetta eru úrræðin þrátt fyrir þá kunnu staðreynd að öldruðum mun fjölga ört á næstu árum og áratugum.

Ég segi það hiklaust að ég skammast mín fyrir að búa í samfélagi sem getur ekki tryggt gamla fólkinu, foreldrum okkar, ömmum okkar og öfum, ánægjulegri ævidaga en nú er gert.

Ég skammast mín ekki síst vegna þess að í ríku samfélagi eins og Íslandi veit ég að það er háð vilja stjórnvalda en ekki getu að tryggja öldruðum sæmilegt ævikvöld. Vilja en ekki getu. Það eru nægir peningar til.

Hér er peningum skattgreiðenda meðal annars varið í tónlistarhús, íþróttahallir og fjöldamörg önnur verkefni sem ég get varla kallað annað en snobbverkefni á meðan önnur mikilvæg mál liggja á hakanum. Á dagskránni er síðan að byggja rándýrt hátæknisjúkrahús sem óljós þörf er fyrir.

Nú ætla ég ekki hér að leggja dóm á mikilvægi ólíkra verkefna á vegum hins opinbera en ljóst er af upptalningunni að nóg er til af peningum. Það er hins vegar vandasamt verkefni þeirra sem stýra ríki og sveitarfélögum hverju sinni að forgangsraða verkefnum eftir mikilvægi.

Ef ráðamenn vilja ekki forgangsraða verkefnum gætu þeir líka sleppt því að lækka skatta. Ef ákveðið yrði að lækka skatta um næstu áramót um 1% í staðinn fyrir 2% eins og áætlað er, fengjust fjármunir sem dygðu til þess að greiða allan kostnað við rekstur hjúkrunarrýma fyrir þá 1300 einstaklinga sem eru í brýnustu þörf.

Það er háð vilja en ekki getu að bæta hag aldraðra.

Það á því að vera markmið okkar, ungra sem aldna, að hvetja stjórnvöld til að forgangsraða í þágu aldraðra. Við eigum að krefja stjórnmálamenn svara um hvað þeir ætla að gera. Hvernig og hvenær?

Það eru allir sammála því að það sé lágmark að vel sé búið að öldruðum í íslensku samfélagi. Ég hef í það minnsta ekki heyrt í neinum sem er því ósammála. Meira að segja þeir stjórnmálamenn sem oftast eru gagnrýndir fyrir andvaraleysi í málefnum aldraðra eru sammála um að það er hægt að gera betur.

Það er því ekki nóg að krefja stjórnmálamenn um einfalda afstöðu til málsins. Við eigum að krefjast svara um hvað á að gera, hvernig og hvenær og við eigum ekki að sætta okkur við annað en skýr svör.

Ef það er skortur á fjármunum þá er hægt að fresta allskyns verkefnum án þess að það skaði nokkurn lifandi mann. Það er hins vegar ekki hægt að fresta umbótum á aðbúnaði aldraðra. Aldraðir þurfa aðgerðir hér og nú, og þeir eiga það skilið að brugðist sé hratt við óskum þeirra.

Ég vona að þessi fundur verði til þess að vekja ráðamenn og þjóðina alla til umhugsunar. Ég vona að þessi fundur verði til þess að ráðamenn bregðist við. Og það strax!

Ég þakka gott hljóð!

Deildu