Þegar Ísland breyttist í alræðisríki: Li Peng, Jiang Zemin og Falun Gong

Logo

Sigurður Hólm Gunnarsson

Sigurður Hólm Gunnarsson ritstjóri Skoðunar sem stofnað var þann 23. júní 1999.

12/04/2012

12. 4. 2012

Nú þegar von er á því Wen Jiabao, forsætisráðherra Kína, komi til landsins er ekki úr vegi að rifja upp heimsóknir kínverskra ráðamanna til Íslands. Jóhanna Sigurðardóttir, forsætisráðherra hefur reyndar gefið út eftirfarandi: „Stjórnvöld munu ekki gera neinar tilraunir til þess að koma í veg fyrir mótmæli þegar Wen Jiabao, forsætisráðherra Kína, kemur til landsins.“ […]

Nú þegar von er á því Wen Jiabao, forsætisráðherra Kína, komi til landsins er ekki úr vegi að rifja upp heimsóknir kínverskra ráðamanna til Íslands. Jóhanna Sigurðardóttir, forsætisráðherra hefur reyndar gefið út eftirfarandi: „Stjórnvöld munu ekki gera neinar tilraunir til þess að koma í veg fyrir mótmæli þegar Wen Jiabao, forsætisráðherra Kína, kemur til landsins.“

Reynsla mína af heimsóknum kínverskra ráðamanna er ekki góð og því nauðsynlegt að minna fólk á hvernig Ísland breyttist í alræðisríki bæði árið 2000 og 2002.

Li Peng
Þegar kínverski leiðtoginn Li Peng kom til landsins í september 2000 breytist landið okkar skyndilega í alþýðulýðveldið Ísland og yfirvöld virtust taka upp stjórnarhætti Kínverja, svona til að þóknast gestinum.

Sem dæmi girti lögreglan af heila íbúðarblokk í Fellahverfinu í Breiðholti svo að Li Peng gæti heimsótt það sem hann kallaði „venjulega“ íslenska fjölskyldu. Til þess að það væri hægt þurfti reyndar að setja alla aðra íbúa sem bjuggu í sama stigagangi í stofufangelsi á meðan. Þeir fengu ekki að fara heim til sín, fengu ekki að hitta Li Peng og það sem alvarlegast var þá gátu íbúarnir ekki flúið eigið heimili á meðan heimsókninni stóð.

Nánar um teboð Li Pengs í Breiðholtinu hér:  Lærdómsríkt ferðalag

Jiang Zemin
Í júní 2002 kom Jiang Zemin, þáverandi leiðtogi Alþýðuveldisins Kína og yfirmaður Li Peng, í ekki síður skrautlega heimsókn. Í þetta sinn kom einnig töluverður fjöldi iðkenda úr sértrúarhreyfingunni Falun Gong til landsins til að mótmæla því að hreyfingin er bönnuð í Kína. Yfirvöld í Kína, og skósveinar þeirra hér á Íslandi, nánast sturluðust af ótta við fyrirhuguð friðsæl mótmæli. Reynt var að koma í veg fyrir að Falun Gong meðlimir kæmust til landsins með ýmsum hætti. Lögregla send á flugvelli til að fylgjast með ferðum þeirra. Svokallaður svartur listi útbúinn með nöfnum mótmælenda sem flugfélögin áttu að stoppa og ýmislegt fleira var gert sem tíðkast í einræðisríkjum. Sem dæmi þá voru þeir 75 Falun Gong meðlimir sem þó komust til landsins vistaðir í nauðungarbúðum í Njarðvíkurskóla. (Ágæt umfjöllun um þessa sögu er að finna á Eyjunni: Falun Gong-málið rifjað upp)

Sem betur fer blöskraði flestum Íslendingum þessi meðferð og fjölmargir (þar á meðal ég) lögðu leið sína til Njarðvíkur þar sem þess var krafist að  fólkinu yrði sleppt.

Mótmælin við Perluna

Margir tóku sig saman og mótmæltu friðsamlega á Austurvelli, við Arnarhólinn, við stjórnarráðið, við kínverska sendiráðið og einnig við Perluna.

Jiang Zemin var boðaður til hátíðarkvöldverðar í Perluna og þótti mörgum tilvalið sýna Falun Gong meðlimum stuðning með því að mæta þangað og mótmæla. Nokkrir mótmælendur (um 10 manns) komust að því hvenær Jiang Zemin ætlaði að mæta í veisluna og voru því mættir fyrir utan með skilti. 22 lögreglumenn voru þá á staðnum og gerðu allt til að koma í veg fyrir að einræðisherrann yrði svo lítið sem vitni að mótmælunum. Allt var gert til að beinlínis fela okkur.  Ég var með spjald sem á stóð „Aðgát skal höfð í nærveru sálar“ og mynd af Tiananmen manninum.

Ljóst var frá upphafi að Zemin mátti alls ekki sjá þetta spjald. Þegar lögreglan gat ekki myndað nægjanlega góða skjaldborg í kringum okkur var fyrst lagður jeppi fyrir framan okkur til að við sæjumst ekki. Þegar það gekk ekki upp var fengin heil rúta.  Að lokum elti lögreglumaður (geri ég ráð fyrir) mig á bíl á meðan ég gekk fram og til baka með skiltið mitt fram hjá öllum fyrirstöðunum. Það endaði nánast með ósköpum þegar maðurinn keyrði á annan mótmælanda (engin slasaðist sem betur fer).

Mótmælin voru að öllu leyti friðsamleg. Engin læti. Það var einfaldlega ljóst að leiðtogi Alþýðuveldisins mátti alls ekki sjá að neinn var að mótmæla. Tjáningarfrelsið á Íslandi var fótum troðið þessa daga.

Nánar um mótmælin við Perluna:  Yfirlýsing vegna aðgerða lögreglu við Perluna þann 14. júlí 2002

Að lokum
Lagt hefur verið til að Falun Gong verði beðið opinberlega afsökunar á framferði íslenskra stjórnvalda og styð ég það heilshugar. Framganga yfirvalda var til háborinnar skammar.

Skal tekið fram að fjöldamargir íslenskir borgarar báðu Falun Gong sérstaklega afsökunar fyrir hönd ríkisins.

—–

TENGLAR
Nánar um Falun Gong mótmælin og Jiang Zemins  (skodun.is):
Yfirlýsing vegna aðgerða lögreglu við Perluna þann 14. júlí 2002
Sögulegur dagur í máli og myndum
Voru aðgerðir lögreglu löglegar? 

Myndir sem ég tók af mótmælunum

Þegar Li Peng kom í heimsókn (skodun.is):
Lærdómsríkt ferðalag

Umfjöllun á kínversku og myndir frá mótmælunum:
http://www.aboluowang.com/news/data/2008/1012/article_61056.html

Eyjan.is:
Falun Gong-málið rifjað upp: Stjórnvöld fóru í einu og öllu eftir skipunum Kínverja – Margt óupplýst

Visir.is:
Stjórnvöld munu ekki koma í veg fyrir mótmæli

Mbl.is
Iðkendur Falun Gong verði beðnir afsökunar

Við biðjumst afsökunar!
(Smellið til að sjá stærri mynd)

 

Deildu