Lausnin er veraldlegt samfélag

Logo

Sigurður Hólm Gunnarsson

Sigurður Hólm Gunnarsson ritstjóri Skoðunar sem stofnað var þann 23. júní 1999.

26/05/2014

26. 5. 2014

Hefur þú áhyggjur af ofstækisfullum trúarhópum? Ertu á móti því að borgin gefi múslímum lóð undir mosku? Telur þú tjáningarfrelsið mikilvægt? Viltu tryggja jafnrétti og mannréttindi allra? Fara fordómar í taugarnar á þér? Viltu berjast gegn kúgun kvenna og minnihlutahópa? Óttast þú ágreining milli trúarhópa og vaxandi útlendingaandúð? Þá er lausnin að styðja veraldlegt samfélag […]

Ríki og kirkjaHefur þú áhyggjur af ofstækisfullum trúarhópum? Ertu á móti því að borgin gefi múslímum lóð undir mosku? Telur þú tjáningarfrelsið mikilvægt? Viltu tryggja jafnrétti og mannréttindi allra? Fara fordómar í taugarnar á þér? Viltu berjast gegn kúgun kvenna og minnihlutahópa? Óttast þú ágreining milli trúarhópa og vaxandi útlendingaandúð?

Þá er lausnin að styðja veraldlegt samfélag en ekki að banna ákveðna trúarhópa eða mismuna þeim.

Hvað er veraldlegt samfélag?
Í veraldlegu samfélagi einbeitir ríkisvaldið sér að því að vernda rétt allra til að aðhyllast ólíkar trúar- og lífsskoðanir svo lengi sem iðkun þeirra skaðar ekki aðra með beinum hætti. Að sama skapi styrkir hið opinbera engin trúfélög sérstaklega. Hvorki fjárhagslega né lagalega.

Í veraldlegu samfélagi er tryggt að opinberar stofnanir séu ekki grundvallaðar á ákveðinni trú eða lífsskoðun. Í veraldlegu samfélagi fer ekki fram boðun á ákveðinni trú eða lífsskoðun á vegum hins opinbera eða í opinberu rými. Í opinberum skólum fer fram fagleg fræðsla um ýmislegt. Þar á meðal um trúarbrögð og lífsskoðanir en ekki boðun.

Í veraldlegu samfélagi er tryggt að allir geti tjáð sig óhikað um trúarbrögð. Tryggt er það sé í lagi að gagnrýna trúarbrögð rétt eins og stjórnmálaskoðanir eða aðrar skoðanir.

Ótti og fáfræði skapar fordóma
Fordómar og andúð fólks gagnvart einstaka trúarhópum, eins og múslímum, byggir á fáfræði og ótta. Óttinn er skiljanlegur vegna þess að ofstækisfólk notar stundum trú til að breiða út fordóma og skerða réttindi annarra með alvarlegum afleiðingum. Eðlilega veit fólk ekki alltaf hvernig á að bregðast við slíkum öfgum.

Hrætt fólk heldur að lausnin sé að banna ákveðin trúarbrögð eða mismuna fólki eftir því hvaða trúarskoðun það hefur. Slík viðbrögð eru þó engu skárri en ofstæki sumra trúarleiðtoga. Með því að mismuna trúarhópum er verið að berjast gegn mannréttindabrotum með mannréttindabrotum. Það er verið að vernda tjáningarfrelsið með ritskoðun. Vernda frelsið með fjötrum.

Athyglisvert er að það er oft sama fólkið sem vill annars vegar banna múslímum að byggja mosku á Íslandi en styður hins vegar þjóðkirkjufyrirkomulagið, að Ísland sé „kristin þjóð“ og að ákveðin trúarsöfnuður sé sérstaklega verndaður í stjórnarskrá. Þeir sem óttast mest önnur trúarbrögð eða trúleysi eru þeir hinir sömu og styðja umfangsmikil opinber afskipti af trúarlífi einstaklinga.

Í slíkir afstöðu felst ákveðinn vandi. Það er ekki hægt að krefjast þess að hið opinbera bæði styðji ákveðin trúarbrögð sérstaklega en mismuni síðan öðrum. Stuðningur við kristni og þjóðkirkju skapar þvert á móti hættulegt fordæmi.  Það er ekki tækt að í frjálsu lýðræðisríki styðji hið opinbera sumar lífsskoðanir en ekki aðrar. Þannig er ekki hægt að afhenda kristnum trúarsöfnuðum ókeypis lóðir án þess að múslímar fái sömu meðferð, svo dæmi sé tekið.

Veraldlegt samfélag – réttlátt samfélag
Eina raunhæfa leiðin til að búa til réttlátt og umburðarlynt samfélag er því að tryggja veraldlegar stoðir þess. Virðing fyrir tjáningarfrelsinu, aðskilnaður ríkis og kirkju og fullt trúfrelsi er eina færa leiðin til að tryggja réttlæti og berjast gegn ofstæki.

Sjá nánar:

Deildu