Áskorun þjóðkirkjupresta svarað

Logo

Sigurður Hólm Gunnarsson

Sigurður Hólm Gunnarsson ritstjóri Skoðunar sem stofnað var þann 23. júní 1999.

26/10/2015

26. 10. 2015

Prestarnir Kristín Þórunn Tómasdóttir og Árni Svanur Daníelsson skrifa grein í Kjarnann þar sem þau skora á ritstjórn Kjarnans að útskýra betur hvað felst í aðskilnaði ríkis og kirkju. Ég ákvað að svara þó ég tengist Kjarnanum ekki neitt og trúi því í raun ekki að prestarnir viti ekki hvað almennt er átt við þegar […]

Kirkja og moskaPrestarnir Kristín Þórunn Tómasdóttir og Árni Svanur Daníelsson skrifa grein í Kjarnann þar sem þau skora á ritstjórn Kjarnans að útskýra betur hvað felst í aðskilnaði ríkis og kirkju.

Ég ákvað að svara þó ég tengist Kjarnanum ekki neitt og trúi því í raun ekki að prestarnir viti ekki hvað almennt er átt við þegar talað er um aðskilnað ríkis og kirkju.

Hér er áskorun:

Við hvetjum Kjarnann til að skoða ólíka fleti á sambandi ríkis og kirkju. Í því gæti falist að skoða hvaða áhrif þjóðkirkjuákvæðið hefur í stjórnarskránni, hvað þjóðkirkjan leggur til samfélagsins, hvað fælist í aðskilnaði annað en brottnám ákvæðisins í stjórnarskránni, hvað fólk eigi við þegar það segist vilja aðskilnað, og hvaða breytingar á kirkjuskipan og trúmálarétti aðskilnaður hefði í för með sér. Þetta eru spurningar sem mætti fást við í fréttaskýringum. Hér þarf vandaða vinnu og dýpt í umfjöllun.

Hvaða áhrif hefur þjóðkirkjuákvæði í stjórnarskrá?
a. Þjóðkirkjuákvæðið stríðir gegn meginmarkmiði stjórnarkráa almennt. Það er að tryggja almannahagsmuni en ekki sérhagsmuni. Sérstakur stuðningur við eina kirkjudeild í stjórnarskrá er sérhagsmunagæsla og á því ekki heima þar.

b. Þjóðkirkjuákvæðið er reglulega notað til að réttlæta mismunun. Nánast alltaf þegar rætt er um önnur atriði sem tengjast fullum aðskilnaði ríkis og kirkju og trúfrelsi á Íslandi er þjóðkirkjuákvæðið notað sem hringrök í málinu:
„Það er þjóðkirkja á Íslandi samkvæmt stjórnarskrá, þú verður að virða það!“ og þar með á umræðunni að vera lokið. Síðan er því oft bætt við að „við séum Kristin þjóð“ og þá aftur vísað í stjórnarskránna því til staðfestingar. Þjóðkirkjuprestar nota þessi hringrök mjög oft.

Hvað leggur þjóðkirkjan til samfélagsins?
a. Þjóðkirkjan er fyrst og fremst trúarsöfnuður sem á að sinna sínum sóknarbörnum. Hin evangelíska kirkja getur vel haldið því áfram verði hún aðskilin frá ríkinu.

b. Gefið er í skyn að þjóðkirkjan leggi meira til samfélagsins en aðrir trúarsöfnuðir eða lífsskoðunarfélög. Stundum er gefið í skyn að þjóðkirkjan sinni öllum og hún sé fyrir alla. Þetta er rangt eins og marg oft hefur verið bent á. Prestar gefa ekki saman samkynhneigð pör ef þeir vilja það ekki (hið svokallaða „samviskufrelsi“) og það er stranglega bannað að nota þjóðkirkjubyggingar landsins undir veraldlegar athafnir. Þjóðkirkjan mismunar fólki eftir því hvaða trúarskoðun það hefur og út frá kynhneigð.

c. Þjóðkirkjan býður reyndar upp á ókeypis félagsráðgjöf og sálfræðiþjónustu í gegnum Hjálparstarf kirkjunnar og Fjölskylduhjálp kirkjunnar. Það er frábært. Ætlar einhver að segja mér að sú góðmennska kirkjunnar sé háð því að hún sé vernduð í stjórnarskrá og samofin ríkinu? Það dettur mér ekki í hug þó formælendur kirkjunnar gefið það stundum í skyn.

d. Starfsmenn þjóðkirkjunnar taka reglulega þátt í samfélagsumræðunni. Stundum til að boða eitthvað gott en allt of oft til þess að brjóta á réttindum annarra. Í áratugi hef ég fjallað um trúfrelsi, umburðarlyndi í trúmálum og um réttindi samkynhneigðra. Oft, allt of oft, hafa andmælendur mínir verið starfsmenn þjóðkirkjunnar. Því miður er framlag þjóðkirkjunnar til samfélagsins stundum fordómar og misrétti.

Hvað fælist í aðskilnaði annað en brottnám ákvæðisins í stjórnarskránni, hvað fólk eigi við þegar það segist vilja aðskilnað?

Mér finnst nú ólíklegt að prestar sem hafa tekið lengi þátt í samfélagsumræðunni viti í raun ekki hvað átt er við með aðskilnaði ríkis og kirkju. Með spurningu sinni gefa þeir í skyn að það sé eitthvað óljóst, sem það er ekki. Í stuttu máli snýst aðskilnaður ríki og kirkju um að hið opinbera einbeiti sér að því að vernda rétt okkar til að trúa eða aðhyllast veraldlega lífsskoðun en sé ekki að skipta sér af því hvaða trú eða lífsskoðun við höfum.

Aðskilnaður ríkis og kirkju getur þannig m.a. falið í sér að:

  1. ein trúardeild sé ekki sérstaklega vernduð í stjórnarskrá eða öðrum lögum.
  2. fólki sé ekki mismunað vegna trúar- eða lífsskoðana.
  3. hið opinbera verndi rétt allra til að hafa sína lífsskoðun en stundi ekki áróður eða trúboð í nafni eins trúfélags. Með öðrum orðum eiga opinberar stofnanir (skólar, sjúkrahús, ráðuneyti o.s.frv.) að vera trúarhlutlausar eða það sem í daglegu tali er kallað veraldlegar.
  4. alþingi Íslendinga hefjist ekki kristilegri trúarmessu. Alþingi á að sjálfsögðu að vera veraldleg stofnun.
  5. fólki sé ekki bannað að vinna, dansa eða spila bingó á helgidögum annarra.
  6. börn séu ekki skráð af hinu opinbera sjálfkrafa í trúfélag foreldra (áður voru börn skráð sjálkrafa í trúfélag móður).
  7. hið opinbera sé ekki að skipta sér af skráningu fólks í frjáls trúar- eða lífsskoðunarfélög. Ekki frekar en hið opinbera sjái um skráningu fólks í stjórnmálasamtök.
  8. ekki séu lög í landinu sem banna fólki að gagnrýna trúarbrögð (sem betur fer er búið að afnema guðlastarlögin).

Ýmislegt fleira má auðvitað nefna en almennt er krafan sú að Ísland sé veraldlegt samfélag.

Að lokum spyrja prestarnir „hvaða breytingar á kirkjuskipan og trúmálarétti aðskilnaður hefði í för með sér?“

Ég verð að viðurkenna að ég skil ekki þessa spurningu.  Almennt er mér slétt sama um hvernig frjáls trúfélög haga sínum innri málum.

Grundvallaratriðið er einfaldlega þetta:

Hið opinbera á að vernda frelsi manna til að stunda þá lífsskoðun sem þeir sjálfir kjósa svo lengi sem þeir ganga ekki á hlut annarra. Að sama skapi á hið opinbera ekki að taka afstöðu í trúmálum og vernda eða styðja sérstaklega eina trúardeild umfram aðrar lífsskoðanir.

Deildu