Sjúklingar eru frekir iðjuleysingjar en slá þarf skjaldborg um útgerðina

Logo

Sigurður Hólm Gunnarsson

Sigurður Hólm Gunnarsson ritstjóri Skoðunar sem stofnað var þann 23. júní 1999.

26/08/2016

26. 8. 2016

Höfum eitt á hreinu. Framundan er hörð hagsmunabarátta milli þeirra sem eiga og þeirra sem eiga lítið eða ekkert. Milli sérhagsmunaafla og venjulegs fólks. Núverandi stjórnarflokkar stunda grímulausa sérhagsmunabaráttu fyrir hönd stóreignamanna og stórfyrirtækja á kostnað almannahagsmuna. Slagorð þessara afla gæti allt eins verið „Sjúklingar eru frekir iðjuleysingjar en slá þarf skjaldborg um útgerðina“. Byggi […]

Höfum eitt á hreinu. Framundan er hörð hagsmunabarátta milli þeirra sem eiga og þeirra sem eiga lítið eða ekkert. Milli sérhagsmunaafla og venjulegs fólks.

Núverandi stjórnarflokkar stunda grímulausa sérhagsmunabaráttu fyrir hönd stóreignamanna og stórfyrirtækja á kostnað almannahagsmuna. Slagorð þessara afla gæti allt eins verið „Sjúklingar eru frekir iðjuleysingjar en slá þarf skjaldborg um útgerðina“. Byggi ég þetta slagorð á þeirra eigin orðum.

Lýðræði eða auðvaldsstjórn?
Einn stjórnarþingmaður segist blygðunarlaust vera „fulltrúa útgerðarinnar“ á þingi á meðan annar gerir lítið úr sjúklingum í fjárhagsvanda og kallar þá „iðjuleysingja“. Þessi grímulausa sérhagsmunabarátta og vanvirðing er kostuð af sérhagsmunaöflum sem hafa stutt bæði Sjálfstæðisflokk og Framsóknarflokk dyggilega í gegnum tíðina. Þessi áhrif fjármagnsins, meðal annars í gegnum fjölmiðla sem reknir eru með tapi ár eftir ár, eru gríðarlega mikil og setja sjálft lýðræðið í hættu. Þar sem auðmenn og hagsmunaaðilar hafa óeðlileg áhrif á alþingi og á hið opinbera er í raun ekki lýðræði heldur auðvaldsstjórn (e. plutocracy).

Í umræðum sem áttu sér stað á Alþingi í gær um frumvarp um breytingu á lögum um stjórn fiskveiða kom þessi hagsmunabarátta skýrt fram. Oddný Harðardóttir, formaður Samfylkingarinnar, lagði fram ásamt öðrum þingmönnum úr Samfylkingunni, Bjartri framtíð og Pírötum tillögu um uppboð á kvóta. Tillagan gerði einfaldlega ráð fyrir því að viðbótarkvóti þorsk, ef einhver verður, verði boðin út til hæstbjóðanda þannig að þjóðin fái réttan arð af auðlindinni.

Fulltrúar íhaldsins á þingi, og sjálfskipaðir talsmenn frelsisins, lögðust gegn tillögunni enda styðja þeir aðeins frelsið og hinn „frjálsa markað“ ef hann kemur sér vel fyrir fáa útvalda. Hagsmunagæslan er eins og áður segir grímulaus. Alþingi er yfirfullt af fólki sem er háð sterkum fjármálaöflum og er algerlega skeytingarlaust um hag almennings.

Heilbrigðisþjónusta fyrir suma
Í Fréttablaðinu í dag er svo viðtal við unga sjálfstæðiskonu í framboði sem sér ekkert athugavert við það að fólk geti greitt fyrir að fá betri heilbrigðisþjónustu. Hún styður semsagt tvöfalt heilbrigðiskerfi þar sem hinir ríku fá þá þjónustu sem þeir þurfa á meðan við hin fáum þá þjónustu sem við höfum efni á. Hún er alls ekki ein um þessa skoðun. Önnur sjálfstæðiskona hefur dásamað heilbrigðisfrelsið í Albaníu þar sem fólk getur valið, með því að borga, milli „hefðbundna pakkans, silfurpakkans og gullpakkans“ þegar kemur að ákveðinni heilbrigðisþjónustu. Sú segir Albaníu vera „ljósárum“ á undan okkur Íslendingum í heilsu“frelsi“. Er sú fullyrðing sérstaklega áhugaverð í ljósi þess að Albanir hafa sótt um hæli í öðrum löndum vegna þess að þeir hafa ekki aðgang að nauðsynlegri heilbrigðisþjónustu í sínu heimalandi.

Eins og ég hef fjallað um áður (sjá: Geðveikur kostnaður í sjúku heilbrigðiskerfi) þá höfum við ekki öll efni á þeirri heilbrigðisþjónustu sem við nauðsynlega þurfum á að halda. Er þetta ástand sem er í senn óþarfi,  ómannúðlegt og hemskulegt. Óþarfi af því Ísland er eitt auðugasta land í heimi, ómannúðlegt því fjöldi fólks býr við ömurlegar aðstæður að óþörfu og heimskulegt því slæmt aðgengi að heilbrigðisþjónustu kostar samfélagið líklegast meira í beinhörðum peningum þegar til lengri tíma er litið.

Ógeðfelld afstaða íhaldsins
Afstaða sumra sitjandi stjórnarþingmanna til okkar sem ekki erum að drukkna í peningum er vægast sagt ógeðfelld. Fyrir nokkrum dögum sagði Brynjar Níelsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, þetta um tillögur um niðurgreidda sálfræði- og tannlæknaþjónustu:

„Því næst skal kollvarpa arðbærasta sjávarútvegi í heimi, sem helst gæti staðið undir því að við iðjuleysingarnir gætum setið heima við tölvuna á borgaralaunum, legið í sófanum hjá sálfræðingum daginn út og inn og látið hvítta tennurnar, allt í boði skattgreiðenda.“ (Leturbreytingar SHG).

Hér gerir sitjandi þingmaður grín að og lítið úr grafalvarlegum vanda. Samfélagið okkar er nú þegar fullt af fólki sem hefur ekki efni á því að verða sér úti um viðeigandi heilbrigðisþjónustu. Fullt af fólki sem er með kvíða alla daga, ekki bara vegna veikinda sinna, heldur vegna þess að það hefur fjárhagsáhyggjur og það telur sig verða fjárhagsleg byrði á fjölskyldu og vinum.

Samfélag fyrir alla
Hugmyndafræði er ekki dauð. Það skiptir máli hverjir stjórna. Við sem þjóð þurfum að ákveða hvort við viljum búa til mannúðlegt samfélag fyrir alla eða samfélag misskiptingar.

Okkar er valið. Látum ekki talsmenn sérhagsmuna plata okkur. Við getum búið til mannúðlegt samfélag fyrir alla. Bara ef við viljum.

Sigurður Hólm Gunnarsson

Höfundur hefur boðið sig fram í 2. til 3. sæti í prófkjöri Samfylkingarinnar í Reykjavík sem fram fer 8. til 10. september næstkomandi.

Sigurður Hólm Gunnarsson í 2. til 3. sæti í prófkjöri Samfylkingarinnar í Reykjavík

Deildu