Sjö rök gegn sölu áfengis í kjörbúðum

Logo

Sigurður Hólm Gunnarsson

Sigurður Hólm Gunnarsson ritstjóri Skoðunar sem stofnað var þann 23. júní 1999.

28/02/2017

28. 2. 2017

Hér fyrir neðan er umsögn mín um frumvarp til laga um breytingu á lögum um verslun með áfengi og tóbak var send á Nefndarsvið Alþingis í dag. Þar tíunda ég sjö rök gegn því að frumvarpið verði samþykkt. Sent á Nefndarsvið Alþingis Reykjavík, 28. febrúar 2017 Efni: Umsögn um frumvarp til laga um breytingu á […]

Hér fyrir neðan er umsögn mín um frumvarp til laga um breytingu á lögum um verslun með áfengi og tóbak var send á Nefndarsvið Alþingis í dag. Þar tíunda ég sjö rök gegn því að frumvarpið verði samþykkt.

Sent á Nefndarsvið Alþingis
Reykjavík, 28. febrúar 2017

Efni: Umsögn um frumvarp til laga um breytingu á lögum um verslun með áfengi og tóbak, lögum um aukatekjur ríkissjóðs, áfengislögum og lögum um gjald af áfengi og tóbaki, með síðari breytingum (smásala áfengis).

Kæru þingmenn,

Nú hefur verið lagt fram, enn eina ferðina, frumvarp til laga sem heimila á m.a. sölu áfengis í matvörubúðum.

Eins og ykkur er fullkunnugt eru skiptar skoðanir í samfélaginu um þetta frumvarp og virðist mér sem að þingmenn sem og almenningur fjalli um málið útfrá einföldum hugmyndum um frjálslyndi og forræðishyggju.

Ég hafna því alfarið þessar lagabreytingar snúist um frjálslyndi eða forræðishyggju. Málið er ekki svo einfalt. Einfaldir merkimiðar eins og frjálslyndi, forræðishyggja og íhaldssemi og eru ekki sérlega gagnlegir.

Ekki er til að mynda hægt að halda því fram að flutningsmenn frumvarpsins séu alfarið á móti forræðishyggju því í frumvarpinu segir meðal annars að „[a]fgreiðslutími [skuli] ekki vera lengri en frá kl. 9.00 að morgni til kl. 24.00 að kvöldi.“ Enn fremur seigir að óheimilt sé að veita „smásöluleyfi til ísbíla, pylsuvagna og annarra færanlegra veitingavagna og markaðsbása“. Flutningsmenn vilja þannig hafa einhver takmörk á sölu áfengis og virðast í raun ekki líta á áfengi sem almenna vöru.

Ég hef verulegar efasemdir um að það sé samfélaginu til heilla að heimila sölu áfengis í kjörbúðum og leyfa auglýsingar á áfengi.

Um leið tel ég að það sé mikil þörf fyrir yfirvegaða og heimspekilega umræðu um kosti og galla þess að leyfa sölu áfengis í almennum verslunum.

Læt ég hér fylgja nokkur rök sem ég bið ykkur um að íhuga vel og vandlega áður en þið greiðið atkvæði um frumvarpið.

1) Lýðheilsurök
Algjörlega ljóst virðist vera að áfengissala í matvöruverslunum skaði lýðheilsu töluvert.  Vísa ég hér í umsagnir Landlæknis og annarra fagstétta.Í umsögn Landlæknis segir meðal annars:

„Á grundvelli bestu fáanlegra gagna og við skoðun á niðurstöðum rannsókna og ráðlegginga frá m.a. Alþjóðaheilbrigðismálastofnuninni um aðgerðir í áfengismálum er takmarkað aðgengi að áfengi ein skilvirkasta leiðin til að sporna við aukinni áfengisneyslu og um leið að draga úr þeim skaða sem getur hlotist af áfengisneyslu.“

Umsagnir fagstétta, sem vísa í rannsóknir og gögn, ættu í það minnsta að fá ykkur til að staldra við og íhuga málið.

Spurningin sem ég spyr ykkur er þessi. Ef það er ljóst að lagabreytingin muni leiða til verri heilsu almennings er hún þá þess virði?

2) Kurteisisrök
Fólk sem hefur orðið fyrir barðinu á áfengisneyslu og fólk sá á í verulegum vandræðum með áfengisneyslu verður hugsanlega fyrir verulegum óþægindum verði áfengi selt í matvörubúðum. Freistnivandinn eykst. Aukið aðgengi hefur áhrif á marga en þó auðvitað ekki alla.

Að auki má benda á eitt sem sjaldan er rætt og það eru áhrifin sem aukinn sýnileiki áfengis hefur á aðstandendur, þar með talið börn. Fyrir það fyrsta er verið að gefa í skyn að áfengi sé venjuleg neysluvara sé það selt í kjörbúðum innan önnur matvæli. Þar fyrir utan getur aukin sýnileiki haft verulega áhrif á börn (og fullorðna aðstandendur) sem hafa dvalið á heimilum þar sem áfengi er misnotað. Það eitt að sjá bjórdós í kælinum í Bónus getur valdið kvíðaviðbrögðum.

Byggi ég þessa hugleiðing á samtölum við uppvaxin börn alkahólista.Hugsanleg skaðleg áhrif sem aukið aðgengi getur haft á aðra skiptir einhverju máli. Ekki satt?

3) Húsfélagsrök
Samfélagið okkar er eins og stórt húsfélag. Ef meirihluti fólks í húsfélagi er á móti einhverju sem hefur áhrif á alla íbúana er þá sjálfsagt að leyfa það í nafni einstaklingsfrelsi? Nei augljóslega ekki. Kannanir hafa ítrekað sýnt að meirihluti landsmanna er á móti áfengi í matvöruverslunum. Meirihlutarök eru ekki alltaf sterk en þau skipta samt máli. Meirihlutinn vill ekki áfengi í almennar búðir.

4) Sérstöðurök
Áfengi er ekki venjuleg neysluvara og því sjálfsagt og eðlilegt að til séu sér reglur um sölu og kynningu á áfengi. Sama á við um lyf, skotvopn, sölu sprenguvarnings, eiturs o.s.frv.Áfengi og mörg önnur vímuefni hafa alveg sérstaka sérstöðu því það má segja að þau séu hættuleg í sjálfu sér. Það er gjörsamlega galið að tala þannig að áfengi sé bara venjuleg neysluvara. Þeir sem tala þannig eru ekki góðir talsmenn „frjálslyndis“ í þessum efnum

5) Fordæmisrök
Líklegt má telja að í náinni framtíð verði fleiri vímuefni lögleyfð á Íslandi. Bannstefnan í vímuefnamálum er að mínu vita gagnslaus og skaðleg. Þegar og ef önnur vímuefni verða lögleyfð á Íslandi hvernig viljum við hafa fyrirkomulag á sölu þess? Verða önnur vímuefni seld í næstu kjörbúð rétt eins og áfengi? Það væri slæmt fyrirkomulag að mínu mati. Vímuefni, hvort sem þau eru nú lögleg eða ekki, eru ekki venjuleg neysluvara og því eðlilegt að til séu sérverslanir fyrir slíka vöru þar sem hægt er að tryggja öflugt eftirlit með sölu og dreifingu.

6) Sérfræðirök
Nánast öll samtök heilbrigðisstarfsmanna og sérfræðinga eru á móti fyrirhugaðri lagabreytingu. Það hlýtur að skipta einhverju máli? Eigum við að hundsa álit lækna, hjúkrunarfræðinga, félagsráðgjafa og annarra? Sérfræðingar hafa ekki alltaf rétt fyrir sér en það hlýtur að vera eðlilegt að hlusta á ráðleggingar þeirra.

7) Hagsmunarök
Hverjir græða og hverjir tapa? Í öllum málum er mikilvægt að hafa í huga hverjir hafa hagsmuni. Hverjir hafa mestan hag af áfengissölu í matvörubúðum? Hverjir tapa á því eða geta hugsanlega skaðast?Helstu hagsmunaaðilar eru augljóslega verslunarmenn sem vilja græða á sölu áfengis. Það er ekkert ljótt að græða á verslun eða reka ábatasamt fyrirtæki. Alls ekki. En gleymum því ekki að það eru fyrst og fremst verslunareigendur sem græða.

Vissulega „græða“ almennir neytendur (þar á meðal ég sjálfur) sem vilja nálgast áfengi auðveldlega í matvörubúðum líka.Á móti eru það svo hagsmunir samfélagsins og fólks sem verður fyrir barðinu á auknum áfengisvanda. Það geta verið fjölskyldur, einstaklingar (með fíknivanda), aðstandendur og samfélagið í heild sem ber fjárhagslegan og félagslegan kostnað af aukinni neyslu og vandamálum tengdum neyslunni.

Niðurstaða:

Ég byggi afstöðu mína á heimspekilegri ígrundun meðal annars með ofangreind rök í huga.

Frelsi einstaklingsins er ekki stórkostlega skert með núverandi fyrirkomulagi. Það er enginn vandi fyrir almenning að nálgast áfengi í næstu Vínbúð. Að sama skapi virðist ljóst að aukið aðgengi veldur aukinni eymd að óþörfu.

Því er fátt sem mælir með því að færa sölu áfengis úr sérverslunum inn í matvöruverslanir eða aðrar búðir. Helst yrðu það kaupmennirnir sem myndu græða á því. Þá er lýðheilsa mikilvægari að mínu mati.

Ég ítreka að það á sér engin hræðileg frelsisskerðing með því fyrirkomulagi sem nú er við líði. Enginn er að leggja til að áfengi verði bannað. Aðeins er bent á að áfengi er ekki venjuleg neysluvara og því má og verður að haga lagaumgjörð um sölu og dreifingu hennar samkvæmt því.

Ég mæli því eindregið gegn því að ofangreint frumvarp til breytingar á lögum um verslun með áfengi og tóbak verði samþykkt.

Með vinsemd og virðingu,
Sigurður Hólm Gunnarsson

Deildu