Siðavendni og forsjárhyggja

Logo

Brynjólfur Þór Guðmundsson

Brynjólfur Þór Guðmundsson sat í ritstjórn Skoðunar frá júlí 1999 til júní 2001.

18/07/1999

18. 7. 1999

Mikið galdrafár hefur geisað að undanförnu. Í því hafa prúðir siðgæðispostular kvartað sáran yfir þeirri óáran sem fær að spretta eins og illgresi í borginni okkar fögru við sundið. Til að bæta gráu ofan á svart gera yfirvöld lítið til að draga úr hættunni. Þetta illgresi eru nektardansstaðirnir sjö sem starfræktir eru í Reykjavík og […]

Mikið galdrafár hefur geisað að undanförnu. Í því hafa prúðir siðgæðispostular kvartað sáran yfir þeirri óáran sem fær að spretta eins og illgresi í borginni okkar fögru við sundið. Til að bæta gráu ofan á svart gera yfirvöld lítið til að draga úr hættunni.


Þetta illgresi eru nektardansstaðirnir sjö sem starfræktir eru í Reykjavík og eru hluti af skemmtistaðaflóru höfuðborgarinnar. Sjálfskipaðir siðgæðispostular ríða nú hver á fætur öðrum fram völlinn og vara við þeim hættum sem stafa af starfsemi staðanna.

Nektardansstaðir eru gróðrarstíur alls kyns glæpsamlegs athæfis svo sem fíkniefnasölu og neyslu að ógleymdu vændinu. Þá eru þessir staðir hættulegir fyrir siðferði borgaranna. Ekki má svo gleyma því að blásaklausar og sárafátækar erlendar stúlkur hrekjast í störf nektardansara til að sjá sér framfæri og eiga jafnvel möguleika á að efnast á siðleysinu sem þær ýta svo undir.

Sú er allavega myndin sem andstæðingar nektardansstaða draga fram. Fíkniefnasmygl hefur tengst einhverjum staðanna og því ber að leggja þá niður. Einhverjir dansaranna kunna að stunda vændi og því ber að banna þeim öllum að koma til landsins. Viðskiptavinir staðanna fara svo út og fróa sér í nærliggjandi görðum (þeir hafa væntanlega ekki fengið alla þá þjónustu sem þeir vilja) og því ber að loka stöðunum.

Forsjárhyggja
En þetta er þó bara eitt dæmið um þá forsjárhyggju sem er svo áberandi í íslensku þjóðfélagi (eins og reyndar öðrum). Fólk er óánægt með þá þjónustu sem er í boði og finnst því að það eigi að banna hana. Þannig fer fólkið ekki aðeins að krefjast þess að fá að lifa lífi sínu eins og það vill heldur einnig þess að aðrir einstaklingar lifi eftir sömu reglum. Ef mér líkar það ekki þá mega aðrir ekki fá það.

Annað dæmi um forsjárhyggju er ný reglugerð um kattahald sem Reykjavíkurlistanum hefur þóknast að setja (ég er reyndar ekki viss um að það sé endanlega búið að samþykkja reglugerðina). Þannig eru settar ýmsar reglur skiljanlegar, aðrar skrýtnari. Til dæmis veltir maður því fyrir sér hvernig menn komast að þeirri niðurstöðu að mönnum sé það óhollt að eiga fleiri en tvo ketti.

Fleiri dæmi mætti taka þó svo ég geri það ekki að svo stöddu.

Hættum þessum barnalegu fordómum og forsjárhyggju. Látum okkur nægja að spyrja hvað það er sem gerir okkur færari um að stjórna lífi annarra. Látum okkur nægja að stjórna eigin lífi.

Deildu