Trúarmiðstýringu fagnað

Logo

Sigurður Hólm Gunnarsson

Sigurður Hólm Gunnarsson ritstjóri Skoðunar sem stofnað var þann 23. júní 1999.

18/08/1999

18. 8. 1999

Síðastliðinn sunnudag hófst hin svokallaða kristnitökuhátíð með guðsþjónustu á Laugardagsvellinum. Undirritaður vonar að almenningur gleymi ekki, í öllum fagnaðarlátunum, að íhuga hverju er verið að fagna og hvers vegna. Þegar grannt er skoðað kemur í ljós að ekki er mikil ástæða til kostnaðarsamra fagnaðarláta. Þúsund ár eru vissulega liðin frá því að kristni var lögfest […]

Síðastliðinn sunnudag hófst hin svokallaða kristnitökuhátíð með guðsþjónustu á Laugardagsvellinum. Undirritaður vonar að almenningur gleymi ekki, í öllum fagnaðarlátunum, að íhuga hverju er verið að fagna og hvers vegna. Þegar grannt er skoðað kemur í ljós að ekki er mikil ástæða til kostnaðarsamra fagnaðarláta.

Þúsund ár eru vissulega liðin frá því að kristni var lögfest hér á landi en hvort það er tilefni til hátíðarhalda er annað mál. Það var ekki vegna háværra kröfu almennings um að þeir yrðu skírðir til kristni sem olli því að kristnitaka Íslendinga átti sér stað. Ástæðan var einfaldlega skipun frá Ólafi Tryggvasyni Noregskonungi. Ólafur konungur* hafði áður hafist handa við að „kristna“ heimamenn sína en ákvað stuttu síðar að „kristna“ Íslendinga einnig. Aðferð Ólafar var einföld, annað hvort skildu menn taka upp kristni eða sæta pyntingum og/eða vera drepnir. Það var því vegna ótta við ofbeldi og ófrið að ákveðið var að allir Íslendingar skyldu játa kristna trú, hvort sem þeim langaði það eða ekki. Ef mönnum finnast þessir atburðir tilefni til hátíðarhalda þá er það þeirra mál.

Ekki ber heldur að gleyma að með lögum um skyldukristni Íslendinga frá 999 var trúfrelsi um leið afnumið á Íslandi. Það var ekki fyrr en með stjórnarskránni frá 1874, sem Kristján níundi Danakonungur færði Íslendingum, að trúfrelsi var aftur viðurkennt. Með sömu stjórnarskrá var hins vegar ákveðið að hin lúthersk-evangelíska kirkja yrði þjóðkirkja Íslands.

Enn erum við því miður með þjóðkirkju á Íslandi þótt menn vita að slík trúarmiðstýring kemur í veg fyrir raunverulegt trúfrelsi og eðlilega trúariðkun. Trú er einstaklingsbundinn og því eiga einstaklingarnir sjálfir að reka trúfélög sín en ekki ríkið. Einstaklingsbundin trú og ríkisrekstur eiga því að sjálfögðu að vera fullkomlega aðskilin. Karl Sigurbjörnsson biskup er á öðru máli, því hann vill auka kristinfræðslu í skólum á kostnað skattgreiðenda. Einhliða trúarfræðsla þar sem ein trúarbrögð eru kennd sem þau væru heilagur sannleikur eiga að sjálfsögðu ekki heima í lýðræðisþjóðfélagi. Hins vegar er ég fylgjandi því að í skólum séu nemendur fræddir á hreinskilinn máta um uppruna og sögu trúarbragða.

*Ólafur komst til valda árið 995.

Deildu