Menntamálaráðherra, trú og kennsla

Logo

Sigurður Hólm Gunnarsson

Sigurður Hólm Gunnarsson ritstjóri Skoðunar sem stofnað var þann 23. júní 1999.

01/09/1999

1. 9. 1999

Það kemur mér sífellt á óvart hve menntamálaráðherrann okkar, hann Björn Bjarnarson, er með úreltar hugmyndir um menntun. Við lestur á viðtali við Björn í Morgunblaðinu í gær, þar sem hann ræddi um nýja aðalnámskrá fyrir grunn-og framhaldsskóla, hjó ég sérstaklega eftir tveim atriðum í máli hans sem ég vill gera athugasemdir við. Í fyrsta […]

Það kemur mér sífellt á óvart hve menntamálaráðherrann okkar, hann Björn Bjarnarson, er með úreltar hugmyndir um menntun. Við lestur á viðtali við Björn í Morgunblaðinu í gær, þar sem hann ræddi um nýja aðalnámskrá fyrir grunn-og framhaldsskóla, hjó ég sérstaklega eftir tveim atriðum í máli hans sem ég vill gera athugasemdir við. Í fyrsta lagi telur Björn að Kennaraháskóli Íslands (KHÍ) einblíni um of á uppeldis- og kennslufræði. Undirritaður telur þvert á móti að ekki sé nægileg áhersla lögð á að kenna væntalegum kennurum hvernig vænlegast sé að koma fram við nemendur og koma námsefninu til skila. Í öðru lagi lýsir menntamálaráðherra því yfir að áfram skuli kenna ómótuðum börnunum kristinfræðslu í stað heimspeki og siðfræði.


Kennarar þurfa að kunna að kenna
Menntamálaráðherra vor telur að uppeldis- og kennslufræðin taki of mikinn tíma frá einstökum fögum og því beri að draga úr henni. Framtíðarmarkmið Bjarnar virðist því vera það að útskrifa kennara úr KHÍ sem eru sérfræðingar í stærðfræði, íslensku, dönsku o.s.frv. en um leið vita gagnslausir kennarar. Það er hinn mesti misskilningur hjá Birni að góð menntun í viðkomandi fögum geri menn að góðum kennurum. Góður kennari þarf, í meginatriðum, að hafa tvo kosti. Í fyrsta lagi þarf hann að kunna námsefnið sæmilega og í öðru lagi þarf kennarinn að kunna að kenna.

Allir eru til dæmis sammála því að óhæft er að láta mann kenna stærðfræði sem kann ekki að reikna. Eitt er það sem virðst vefjast fyrir sumum, og þar á meðal menntamálaráðherra, að það er ekki síður óhæft að láta mann kenna stærðfræði sem kann ekki að kenna. Einkar mikilvægt er að kennarar séu menntaðir í mannlegum samskiptum og kunni að koma þekkingu sinni frá sér á skilmerkilegan máta. Þetta er einmitt það sem skilur að stærðfræðing og stærðfræðikennara. Annar þarf bara að kunna stærðfræði hinn þarf bæði að kunna stærðfræði og geta komið þekkingu sinni til skila. Hér kemur uppeldis- og kennslufræðin til sögunar.

Það er mitt mat að í raun sé of lítil áhersla lögð á að rækta hæfileika kennara til mannlegra samskipta. Mikilvægustu þættirnir í starfi kennara eru að vekja áhuga nemenda sinna á náminu, halda uppi aga í kennslustofunni og hámarka árangur hvers nemenda. Til þess að tilætlaður árangur náist þarf bæði hæfileika til mannlegra samskipta og þekkingu á mannlegu atferli. Kennarar ættu því að fá góða þjálfun í tjáningu auk þess sem það er mín skoðun að allir kennarar ættu að fá góða kennslu í atferlismótun.

Heimspeki og siðfræði í stað trúarítroðslu
Þegar menntamálaráðherra var spurður, í fyrrnefndu viðtali, hvort ekki sé eðlilegra að segja nemendum frá öllum helstu trúarbrögðum heims í stað þeirrar einhliða kristinfræðslu sem nú er, lét hann hafa eftirfarandi eftir sér: „ég er sannfærður um það að því meiri fræðslu sem menn fá um önnur trúarbrögð, því hrifnari verði þeir af kristinni trú.“ Það er mitt mat að þetta svar Björns geri hann óhæfan til þess að vera menntamálaráðherra. Björn lætur persónulegar trúarskoðanir sínar skyggja á nauðsynlegt hlutleysi sitt sem menntamálaráðherra.

Það er margítrekuð skoðun mín að heimspeki, siðfræði og tjáning eigi að skipa stóran sess í grunnskólakennslu en að sama skapi eigi einhliða trúarfræðsla ekki heima í skólum. Enda er það mín skoðun að menntun eigi að móta rökfasta, sjálfstæða og umburðalynda einstaklinga. En Björn er mér víst ósammála, hann vill einhliða trúboð og kennara sem kunna ekki að kenna. Ég mótmæli.

Deildu