Fordómar eða umburðalyndi?

Logo

Sigurður Hólm Gunnarsson

Sigurður Hólm Gunnarsson ritstjóri Skoðunar sem stofnað var þann 23. júní 1999.

16/09/1999

16. 9. 1999

Barátta samkynhneigðra fyrir almennum mannréttindum hefur gengið misjafnlega vel í heiminum enda fáfræði og fordómar misjafnlega útbreidd eftir löndum og heimssvæðum. Þótt lagaleg staða samkynhneigðra sé nokkuð góð hér á landi miðað við hvað gengur og gerist annars staðar, njóta þeir enn ekki fullra mannréttinda. Enn er það svo að samkynhneigðum pörum hér á landi […]

Barátta samkynhneigðra fyrir almennum mannréttindum hefur gengið misjafnlega vel í heiminum enda fáfræði og fordómar misjafnlega útbreidd eftir löndum og heimssvæðum. Þótt lagaleg staða samkynhneigðra sé nokkuð góð hér á landi miðað við hvað gengur og gerist annars staðar, njóta þeir enn ekki fullra mannréttinda. Enn er það svo að samkynhneigðum pörum hér á landi er bannað af ríkisvaldinu að ættleiða börn. Ástæðan er líklegast blanda af fordómum og misskilningi.


Með hag barnanna fyrir brjósti
Ein algengasta röksemd gegn því að leyfa samkynhneigðum að ættleiða börn er sú að slíkt sé einfaldlega ekki væntanlegum börnum þeirra fyrir bestu. Ættleiddum börnum samkynhneigðra yrði strítt af jafnöldrum sínum fyrir að eiga tvo pabba eða tvær mömmur. Þessi röksemdafærsla er augljóslega byggð á misskilningi þar sem hugsanleg stríðni er ekki tilkomin vegna kynhneigðar foreldra barnanna heldur vegna fordóma og skorts á umburðalyndi. Með sömu rökum ætti að banna foreldrum að senda börn sín í tannréttingar vegna þess börnunum gæti verið strítt af því að vera með spangir. Hér verður því að ráðast gegn fordómum með því að kenna börnum (og fullorðnum) umburðalyndi en ekki með því að banna samkynhneigðum að ættleiða börn.

Önnur þekkt rök eru þau að samkynhneigð sé ættgeng, þ.e. að börn samkynhneigðra séu líklegri til þess að verða samkynhneigð sjálf en þau börn sem alast upp hjá „normal“ foreldrum. Þessi rök ganga nokkurn veginn út á það að samkynhneigðir foreldrar kenni börnum sínum, meðvitað eða ómeðvitað, að vera samkynhneigð en ekki gagnkynhneigð. Þessi kenning er byggð á tilfinningum fremur en skynsamlegum rökum. Mun líklegra er að samkynhneigðir séu mun umburðalyndari gagnvart kynhneigð barna sinna heldur en aðrir foreldrar þar sem þeir vita öðrum fremur hve alvarlegar afleiðingar fordómar geta haft. Skyld kenning er sú að strákar sem búa bara hjá móður sinni séu líklegri til þess að verða hommar en aðrir. Þeir sem taka þessa kenningu alvarlega vilja líklegast banna einstæðar mæður!

Kirkjuleg forsjá
Eina helstu ástæðuna fyrir fordómum gegn samkynhneigðum hér á landi sem og annars staðar er að finna í þeirri menningar- og trúarlegu innrætingu að hið eina rétta fjölskyldumynstur sé maður og kona. Þjónar kirkjunnar hafa verið duglegir í gegnum tíðina við að gagnrýna samkynhneigð og lýsa henni í versta falli sem dauðasynd en í besta falli sem sjúkdómi. Nýlegt dæmi um þetta er grein sem birtist í Morgunblaðinu, síðastliðinn þriðjudag, eftir Ragnar Fjalar Lárusson prest. Þar þvertekur hann fyrir hjónavígslu samkynhneigðra, enda telur hann að samkynhneigð sé sjúkdómur! Máli sínu til stuðnings vitnar Ragnar Fjalar í Matteusarguðspjall sem hann kallar „orð Jesú Krists“. Það er mikill ábyrgðahluti að halda fram einhverju sem valdið getur fordómum og hatri. Því er það mikið ábyrgðarleysi af Ragnari Fjalari og öðrum „sanntrúuðum“ að halda því fram að samkynhneigð sé synd. Allir þeir sem hafa kynnt sér málin vita t.a.m. að Matteusarguðpjall er hvorki „orð Jesú Krists“ né skrifað af Matteusi. Matteusarguðpjall var skrifað a.m.k. 50 árum eftir meinta krossfestingu Jesú og höfundur þess er með öllu óþekktur. Þetta er söguleg staðreynd sem ekki er deilt um.

Mér er það fyrir löngu ljóst að samkynhneigð er hvorki sjúkdómur né synd. Fordómar og umburðarlyndisskortur eru hins vegar sjúkdómar sem eru sprottnir af fáfræði. Eina þekkta mótefnið er þekking og því er gagnrýnin umræða lífsnauðsynleg ef skynsamleg niðurstaða á að fást. Það eru sjálfsögð og eðlileg mannréttindi að samkynhneigðir fái að ættleiða börn að uppfylltum sömu skilyrðum og aðrir. Þegar búið er að draga frá allan þann misskilning og alla þá fordóma sem oft hafa einkennt umræðuna um samkynhneigð og leyfi samkynhneigðra til að ættleiða stendur ekkert eftir sem mælir gegn slíkum ættleiðingum. Nema kannski óþægileg hræðsla margra við breytta heimsmynd þar sem pabbi og mamma þurfa ekki endilega að vera karl og kona.

Ítarefni:
Hróbjartur Guðsteinsson svaraði þessum pistli mínum í grein sem hann nefndi
,,Formaður ungra jafnaðarmanna segir ósatt“

Deildu