Formaður Félags ungra jafnaðarmanna segir satt

Logo

Sigurður Hólm Gunnarsson

Sigurður Hólm Gunnarsson ritstjóri Skoðunar sem stofnað var þann 23. júní 1999.

04/11/1999

4. 11. 1999

Þann 29. október síðastliðinn birtist grein eftir Hróbjart Guðsteinsson, „Formaður Félags ungra jafnaðarmanna segir ósatt”, þar sem hann sakar mig um ósannindi og sögufölsun. Tilefnið er grein sem ég sendi í Morgunblaðið og var birt 14. október. Í þeirri grein (Fordómar eða umburðalyndi?), sem fjallar um mannréttindi samkynhneigðra, gagnrýni ég meðal annars þá sem kalla […]

Þann 29. október síðastliðinn birtist grein eftir Hróbjart Guðsteinsson, „Formaður Félags ungra jafnaðarmanna segir ósatt”, þar sem hann sakar mig um ósannindi og sögufölsun. Tilefnið er grein sem ég sendi í Morgunblaðið og var birt 14. október. Í þeirri grein (Fordómar eða umburðalyndi?), sem fjallar um mannréttindi samkynhneigðra, gagnrýni ég meðal annars þá sem kalla samkynhneigð synd eða sjúkdóm og vitna í hina ýmsu kafla Biblíunnar máli sínu til stuðnings. Sérstaklega tók ég dæmi af Ragnari Fjalari presti sem vitnar í Matteusarguðspjall sem hann kallar orð Jesú Krists.


Í grein minni benti ég í fyrsta lagi á þá staðreynd að Matteusarguðspjall var líklegast ekki skrifað fyrr en um 50 árum eftir meinta krossfestingu Jesú eða um 80 árum eftir fæðingu hans. Í öðru lagi benti ég á að enginn veit með vissu hver skrifaði Matteusarguðspjall og því mjög vafasamt að kalla það orð Jesú Krists. Hér vill Hróbjartur meina að ég sé að ljúga! Samt notast ég aðeins við sagnfræðilegar heimildir máli mínu til stuðnings. Ef það er eitthvað sem mér leiðist þá eru það lygarar og sárnar mér því þegar ég er sakaður um lygar. Ég bendi því hér með á nokkrar staðreyndir og heimildir máli mínu til stuðnings:

Nokkrar gildar ástæður fyrir því að efast um að guðspjöllin eru orð Jesú Krists:

1) Það var ekki fyrr en á kirkjuþinginu sem haldið var í Karþagó árið 397 sem Nýja Testamentið eins og við þekkjum það í dag varð til. Á þessu kirkjuþingi var meðal annars ákveðið hvaða fjögur guðspjöll ættu að vera í Biblíunni. Fyrir þennan tíma voru fjölmörg „guðspjöll“ í umferð sem við þekkjum því miður ekki í dag. Ágústínus, Jerome og aðrir kirkjufeður sem voru á þessu þingi völdu þau fjögur guðspjöll sem nú eru í Biblíunni og ákváðu að þau ein væru orð Guðs. Öll hin guðspjöllin voru hins vegar bönnuð og hafa síðan týnst eða verið eyðilögð.

2) Þau guðspjöll sem við þekkjum í dag eru kölluð Matteusar-, Markúsar-, Lúkasar- og Jóhannesarguðspjall. Markúsarguðspjall er elsta ritið, en talið er að það hafi verið skrifað milli áranna 60 og 70. Jóhannesarguðspjall sem er líklegast yngst var hins vegar ekki skrifað fyrr en í fyrsta lagi um 90 árum eftir meinta fæðingu Jesú.

3) Matteusar-, Markúsar- og Lúkasarguðspjall eru kölluð samstofna guðspjöll í öllum helstu sagnfræðiritum þar sem að sagnfræðingar telja að öll séu þau runnin upp af sameiginlegri rót. Þessi sameiginlega rót hefur ýmist verið talin Markúsarguðspjall eða rit sem hefur verið kallað Q (sem er stytting á þýska orðinu Quelle og þýðir uppspretta eða heimild). Þeir sem aðhyllast seinni kenninguna telja að fyrrnefnd þrjú guðspjöll séu byggð á Q. Þetta rit hefur hins vegar aldrei fundist.

Hvernig sem við lítum á málið þá eru flestir fræðimenn sammála um það að Matteusar-, Markúsar- og Lúkasarguðspjall séu upprunin úr sama riti og því er augljóslega ekki hægt að segja að Matteus, Markús og Lúkas séu raunverulegir höfundar þeirra. Með öðrum orðum: við höfum ekki hugmynd um hver skrifaði guðspjöllin.

Jafnvel þó að við gerum ráð fyrir því að Matteus, Markús, Lúkas og Jóhannes hafi skrifað guðspjöllin þá myndi það þýða að Markús hafi verið að minnsta kosti 70 ára en Jóhannes um 110 ára gamall þegar þeir skrifuðu guðspjöllin. Þessi aldur verður fáránlegur sérstaklega í ljósi þess að meðalaldur manna á þessum tíma var um 30 ár. Hér geri ég reyndar ráð fyrir því að postularnir hafi verið jafnaldrar Jesú. En þessi staðreynd skiptir ekki máli þar sem að ekkert bendir til þess að postularnir hafi skrifað guðspjöllin.

Hver fremur sögufölsun?
Upplýsingar um hin samstofna guðspjöll er að finna í öllum helstu sögubókum sem fjalla um þessi mál. Ég bendi lesendum t.d. á Hugmyndasögu (sem er m.a. kennd í framhaldsskólum) eftir Ólaf Jens Pétursson í því samhengi. Í þeirri bók kemur einnig skýrt fram hvenær guðspjöllin voru skrifuð.

Það er engan veginn frá mér komið að höfundar guðspjallana séu óþekktir. Þetta stendur einfaldlega í sagnfræðiritum. Hróbjartur sakar mig um lygar og sögufalsanir eins og ég hafi samið þessar upplýsingar. Hróbjarti væri nær að saka höfunda allra helstu sagnfræðirita um lygar og sögufalsanir ef hann telur sig vita betur en þeir. Hróbjarti væri enn fremur nær að líta í eiginn barm því hann er tilbúinn að fullyrða að Matteusarguðspjall hafi verið skrifað af Matteusi postula án þess að geta rökstutt það á nokkurn hátt.

Vafasamar heimildir
Þær heimildir sem Hróbjartur minnist á og eiga að sýna fram á sögufölsunaráráttu mína eru ansi undarlegar. Í fyrsta lagi nefnir hann alfræðiorðabók frá Erni og Örlygi þar sem segir að Mattesusarguðpjall hafi verið ritað af Matteusi postula skv. fornum heimildum. Ég spyr: hvaða heimildum og hvernig geta þær útskýrt hin samstofna guðspjöll? Ég get á móti bent á að í alfræðiritinu Encarta stendur t.a.m.: „[Fræðimenn] efast um að Matteus postuli hafi skrifað [Matteusarguðspjall]“.

Hróbjartur minnist einnig á sagnfræðinginn Jósefus Flavíus (f.37-d.101?) og bendir á að það sem stendur í ritum hans sé í samræmi við það sem stendur í guðspjöllunum. Hér á Hróbjartur líklega við texta um Jesú sem er að finna í ritinu Jewish Antiquities (eða Fornleifar Gyðinga) og er eftir fyrrnefndan Flavíus. Ef svo er þá er þetta vægast sagt undarleg heimild til þess að vitna í ef maður er að saka aðra um sögufölsun. Sérstaklega í ljósi þess að stór hluti fræðimanna hefur álitið þann texta vera seinni tíma innskot eða fölsun!

Að lokum
Nú kann að vera að Hróbjartur hafi ekki lesið mikið af sagnfræðiritum og hafi því ekki vitað um þær staðreyndir sem ég hef nú bent á. Vanþekking hans á sagnfræði réttlætir þó engan veginn ásakanir hans í minn garð. Það að saka fólk um lygar er mjög alvarlegt mál. Því vonast ég til að Hróbjartur leggi meiri metnað í leit sinni að sannleikanum í framtíðinni þannig að hann geti komist hjá fölskum ásökunum.

Nokkrar áhugaverðar heimildir:

“The Age of Reason” – Paine, Thomas

“The Psychic Stream” og “The Curse of Ignorance” – Findlay, Arthur

“Hugmyndasaga” – Ólafur Jens Pétursson

Tölvuritið “Microsoft Encarta”

“The History of the Decline and Fall of the Roman Empire” – Gibbon, Edward

Deildu