Réttlæti í dómum Hæstaréttar

Skoðun-Logo
Logo

Sigurður Hólm Gunnarsson

Sigurður Hólm Gunnarsson ritstjóri Skoðunar sem stofnað var þann 23. júní 1999.

11/11/1999

11. 11. 1999

Skiljanleg en um leið nokkuð afvegaleidd umræða hefur átt sér stað undanfarna daga um réttlæti í nýlegum dómum Hæstaréttar. Í reiði sinni með niðurstöður Hæstaréttar hafa menn gengið svo langt að efast um siðferði verjenda og dómara í umræddum málum. Hér er ég í fyrsta lagi að tala um mál Alexanders Kio Briggs sem Hæstiréttur […]

Skiljanleg en um leið nokkuð afvegaleidd umræða hefur átt sér stað undanfarna daga um réttlæti í nýlegum dómum Hæstaréttar. Í reiði sinni með niðurstöður Hæstaréttar hafa menn gengið svo langt að efast um siðferði verjenda og dómara í umræddum málum.


Hér er ég í fyrsta lagi að tala um mál Alexanders Kio Briggs sem Hæstiréttur sýknaði af ákæru um að hafa smyglað eiturlyfjum til landsins og í öðru lagi um annað nýlegt mál þar sem Hæstiréttur sýknaði föður nokkurn af þeirri ákæru að hafa misnotað dóttur sína kynferðislega.

Óréttlátir dómar?
Eins og þeir sem hafa fylgst með fréttum hafa eflaust tekið eftir þá hefur sakleysi þessara manna verið dregið stórlega í efa af almenningi af ýmsum skiljanlegum ástæðum. Briggs var handtekinn í Danmörku á sunnudag með um 800 e-töflur í farteskinu og afstaða dómara í máli hins meinta barnaníðings hefur verið margklofinn allt frá Héraði upp í Hæstarétt.

Þegar að ég hugsa til þess að menn skuli komast hjá því að svara til saka fyrir svo alvarlega glæpi sem kynferðisleg misnotkun og eiturlyfjainnflutningur eru verð ég svo reiður að orð fá því varla lýst. Þetta eru tilfinningar sem ég deili líklegast með flestum. Ég hlýt hins vegar að mótmæla þeim sem fullyrða að fyrrgreindar niðurstöður Hæstaréttar séu óréttlátar og að verjendur sakborninga séu siðlausir og/eða lausir við réttlætiskennd.

Í hverju felst réttlæti?
Þó að fyrrgreindir glæpir séu vægast sagt ógeðslegir og að þeir sem fremja þá séu vitaskuld siðlausir og/eða sjúkir einstaklingar þá megum við ekki láta reiði okkar eða aðrar tilfinningar hafa áhrif á réttlætiskennd okkar og heilbrigða skynsemi. Samkvæmt lögum eru menn saklausir þar til sekt þeirra hefur verið sönnuð og í umræddum dómum töldu meirihluti dómara sekt ekki vera sannaða. Niðurstöður dómaranna segja að sjálfsögðu ekkert til um hvort mennirnir séu sekir eða saklausir í raun og veru. Dómararnir geta aðeins byggt niðurstöður sínar á fyrirliggjandi sönnunargögnum og er það sjálfsögð skylda verjenda að benda á öll þau gögn sem geta hjálpað skjólstæðingum þeirra.

Ef niðurstöður dómaranna eru byggðar á fyrirliggjandi sönnunargögnum þá hefur réttlætið vissulega sigrað í réttarsalnum, þvert á það sem sumir halda fram. Því ef dómarar fara að láta aðra þætti eins og eigin tilfinningar eða utanaðkomandi þrýsting hafa áhrif á niðurstöður sínar þurfum við fyrst að hafa áhyggjur af íslenskum dómsstólum. Við verðum að muna að það er mun betra að sýkna sekan mann en að dæma saklausan.

Deildu