Smámunasemi og útúrsnúningar

Logo

Brynjólfur Þór Guðmundsson

Brynjólfur Þór Guðmundsson sat í ritstjórn Skoðunar frá júlí 1999 til júní 2001.

21/02/2000

21. 2. 2000

Andstæðingar auðlindagjalds tönnlast í sí og æ á því að þjóð getur ekkert átt. Þar af leiðandi geti auðlindir hafsins ekki verið sameign íslensku þjóðarinnar. Hvort sem þetta ber vott um skort á ímyndunarafli eða einfaldlega villandi málflutning verð ég að viðurkenna að þetta fer í taugarnar á mér. Reyndar verð ég að viðurkenna að […]

Andstæðingar auðlindagjalds tönnlast í sí og æ á því að þjóð getur ekkert átt. Þar af leiðandi geti auðlindir hafsins ekki verið sameign íslensku þjóðarinnar. Hvort sem þetta ber vott um skort á ímyndunarafli eða einfaldlega villandi málflutning verð ég að viðurkenna að þetta fer í taugarnar á mér.


Reyndar verð ég að viðurkenna að mest öll umræðan um auðlindagjald er farin að fara í taugarnar á mér. Sem andstæðingi ríkisstyrkja til fyrirtækja og atvinnugreina finnst mér fáránlegt að heyra fólk sem kennir sig við markaðshyggju tala fyrir því að úthluta kvóta endurgjaldslaust. Ef greinin verður ómarkviss og sundurslitin bið ég lesendur mína afsökunar áður en lengra er gengið.

Úthlutun veiðiheimilda
Þegar kvótakerfinu var komið á var aðgangur að fiskimiðunum í kringum landið, sem löngum hafði verið frjáls öllum Íslendingum, takmarkaður og bundinn við þá sem fyrir voru í sjávarútvegi. Nú ætla ég ekki að mótmæla því að það hafi verið þörf á því að takmarka aðgang. Ég ætla heldur ekki að neita því að kvótakerfið sé gott kerfi. Reyndar er ég sannfærður um að það hafi um flest verið gæfuskref að koma kvótakerfinu á. Ég er hins vegar jafn sannfærður um að það hafi verið mistök af löggjafans hálfu að samþykkja þær úthlutunarreglur sem hagsmunaaðilar í sjávarútvegi lögðu til (fari það á milli mála var það Fiskiþing en ekki Alþingi eða sjávarútvegsráðuneytið sem hannaði kvótakerfið). Þær úthlutunarreglur tóku, eins og gefur að skilja, mið af hagsmunum útgerðarinnar frekar en öðrum sjónarmiðum. Það að úthluta gæðum með þeim hætti sem þar var ákveðinn er auðvitað ekkert annað en ríkisstyrkir til sjávarútvegsins. Það vill útgerðum og talsmönnum gjafakvótakerfisins hins vegar til happs að þessir styrkir koma hvergi fram á prenti. Nema ef til vill þegar menn selja fyrirtæki sín og verður þá iðulega allt vitlaust.

Þess vegna hef ég viljað sjá tekið upp kerfi þar sem úthlutun veiðiheimilda ræðst á uppboðum. Þeir sem bjóða hæst fá heimildirnar. Auðvitað má setja ýmis markmið inn í uppboðsfyrirkomulagið, svo sem að setja hámarksaflahlutdeild og auka byggðakvóta (sem ég reyndar tel hvoru tveggja óæskilegt).

Þjóðin og eignarrétturinn
Skrifin hér að undan eru ef til vill óþarfur útúrdúr að því sem nú kemur. Það er þetta “snilldarbragð” ýmissa andmælenda auðlindagjalds að klifa á því daginn út og inn að þjóðin geti ekki átt neitt þar sem hún er ekki lögaðili. Sérstaklega hafa ýmsir ungir Sjálfstæðismenn (sjá Frelsi.is 14. feb) verið duglegir við að halda þessu fram. Það sem þeir horfa hins vegar fram á að ríkið er, ef svo má að orði komast og ýmsir munu eflaust mótmæla því, er félag þjóðarinnar. Svona svipað og Heimdallur er félag ungra Sjálfstæðismanna. Auðvitað er hverjum og einum frjálst að ganga í og segja sig úr Heimdalli meðan það er næsta ómögulegt að segja sig úr þjóðinni, nema með því að flytja af landi brott og vera þá neyddur í aðra þjóð, svo framarlega sem viðkomandi sest ekki að á Rockall. Þess vegna bendi ég á orð Þorgeirs Örlygssonar í samantektinni Um auðlindir samkvæmt íslenskum rétti sem birtist í áfangaskýrslu auðlindanefndar fyrir rétt tæpu ári síðan.

Þetta þýðir m.ö.o. það, að almenningur, þjóðin eða þjóðarheildin, getur ekki verið eigandi í hefðbundnum lögfræðilegum skilningi þess hugtaks, enda hefur þjóðin engar þær almennu heimildir, sem einstaklingsrétti fylgja. Hins vegar getur ríkið verið aðili eigarréttinda…

Þorvaldur Örlygsson, Um auðlindir samkvæmt íslenskum rétti. Auðlindanefnd, áfangaskýrsla með fylgiskjölum bls. 32-33. Þrátt fyrir að sumir kunni að neita því er ríkið ekkert annað en þjóðin. Vissulega hafa sumir meiri áhrif en aðrir, hvort sem er vegna efnahags, stöðu eða áhuga. En eftir sem áður stendur að flest græðum við meira en við töpum á þessu félagi okkar þjóðinni og helstu stofnun þess ríkinu. Og þar sem þjóðin er ríkið og ríkið getur átt auðlindirnar í hafinu kringum landið stendur eftir sú staðreynd að þjóðin getur átt eitthvað. Svo framarlega sem menn tapa sér ekki í kjánalegum orðaleikjum.

Deildu