Hvers eiga börnin að gjalda?

Logo

Sigurður Hólm Gunnarsson

Sigurður Hólm Gunnarsson ritstjóri Skoðunar sem stofnað var þann 23. júní 1999.

24/02/2000

24. 2. 2000

Kynferðisafbrot gegn börnum eru með alvarlegri glæpum sem fyrirfinnast í okkar samfélagi. Því miður eru þessir glæpir algengari en margir halda og á ári hverju lendir fjöldi barna í því að vera misnotaður kynferðislega. Erfitt er fyrir þann sem ekki hefur orðið fyrir kynferðismisnotkun að ímynda sér þær sálarkvalir sem þau börn líða sem verða […]

Kynferðisafbrot gegn börnum eru með alvarlegri glæpum sem fyrirfinnast í okkar samfélagi. Því miður eru þessir glæpir algengari en margir halda og á ári hverju lendir fjöldi barna í því að vera misnotaður kynferðislega. Erfitt er fyrir þann sem ekki hefur orðið fyrir kynferðismisnotkun að ímynda sér þær sálarkvalir sem þau börn líða sem verða fyrir þessum hræðilega glæp. Jafn erfitt getur reynst að skilja af hverju stjórnvöld samþykkja lög sem sérfræðingar eru sammála um að munu auka á þessar sálarkvalir.


Barnahúsið – stórt skref fram á við í velferð barna
Sumarið 1997 var lögð fram tillaga um stofnun svokallaðs Barnahúss. Hugmyndin að baki Barnahúsinu er sú að stofnanir samfélagsins aðlagi sig að þörfum barna en ekki öfugt. Barnahúsið er sérhannað til þess að auðvelda börnum það álag sem því fylgir að rifja upp þá sársaukafullu lífsreynslu sem kynferðismisnotkun er.

Fyrir tíma Barnahússins þurftu börn í sumum tilvikum að gangast undir skýrslutöku hjá mörgum mismunandi aðilum. Þar á meðal lögreglu, barnaverndarnefnd, saksóknara, réttargæslumanni, verjanda og dómara. Í Barnahúsinu er tekin skýrsla af barninu, í sérstöku barnavænu herbergi, af sérþjálfuðum starfsmanni sem hefur þekkingu á tjáningarhæfni, hugtakanotkun og minnisþroska barna. Í öðru herbergi er svo aðstaða fyrir fulltrúa ofangreindra aðila þar sem þeir geta fylgst með skýrslutöku og komið á framfæri spurningum án þess að barnið verði vart við. Í Barnahúsinu er einnig góð aðstaða til læknisskoðunar. Í staðinn fyrir að barnið þurfi að fara út um allan bæ í skýrslutökur og læknisskoðun hjá fjölda embættismanna er þetta allt gert í Barnahúsinu af sérþjálfuðum starfsmönnum og í barnvinsamlegu umhverfi.

Barnahúsið er fyrirmynd í málefnum barnaverndar
Niðurstöður erlendra rannsókna benda til þess að það geti haft hræðileg áhrif á andlegt ástand barna að þurfa að segja aftur og aftur frá þolraun sinni og þarf enginn að undrast þær niðurstöður. Því hefur Barnahúsið fengið mikið lof frá sérfræðingum um barnaverdarmál bæði hér á landi og erlendis. Erlendis hefur Barnahúsið raunar vakið svo mikla athygli að það er orðið eins konar fyrirmynd í málefnum barnaverndar í Evrópu.

Barnahúsið lagt niður?
Nú er komin upp sú undarlega og jafnframt sorglega staða að Barnahúsið, sem hefur verið talið eitt mesta framfaraskref í barnaverndi í allri Evrópu, verður líklegast lagt niður. Vegna breytinga á lögum um meðferð opinberra mála, sem tóku gildi 1. maí síðastliðinn, færðist ábyrgðin á framkvæmd á skýrslutökum af börnum sem lent hafa í kynferðisofbeldi frá lögreglu yfir til héraðsdómara. Síðan þá hefur verið tekin í notkun sérstök aðstaða til að taka skýrslur af börnum í Héraðsdómi Reykjavíkur. Þetta hefur svo haft það í för með sér að starfsemi Barnahússins hefur nánast lagst niður.

Hvers eiga börnin að gjalda?
Allir þeir sérfræðingar og starfsmenn sem þekkja til málefna barnaverndar eru sammála um að það sé stórt skref afturábak ef Barnahúsið neyðist til að hætta starfsemi. Enn fremur virðist enginn vera opinberlega hlynntur því að leggja Barnahúsið niður, enda engin haldbær rök fyrir því að svo verði gert. Hér hljóta því að hafa átt sér stað alvarleg mistök sem eru að ógna velferð barna hér á landi. Umhyggja fyrir velferð barna er að mínu viti þverpólitísk og því hvet ég stjórnarliða sem stjórnarandstæðinga á þingi til að taka höndum saman og koma í veg fyrir það stórslys sem hér er að eiga sér stað. Tryggjum velferð barna, tryggjum áframhaldandi rekstargrundvöll Barnahússins.

Deildu