Sitt lítið af hverju

Logo

Brynjólfur Þór Guðmundsson

Brynjólfur Þór Guðmundsson sat í ritstjórn Skoðunar frá júlí 1999 til júní 2001.

24/04/2000

24. 4. 2000

Svona í ljósi þess að ég er ekki í stuði til þess að skrifa um eitthvert ákveðið mál eða málaflokk ætla ég að leyfa mér að bulla í stuttu máli um hitt og þetta sem vekur áhuga minn eða fer í taugarnar á mér. Ég vona að lesendur fyrirgefi mér. Nýi Samfylkingarvefurinn Nútímalegi jafnaðarmannaflokkurinn, sem […]

Svona í ljósi þess að ég er ekki í stuði til þess að skrifa um eitthvert ákveðið mál eða málaflokk ætla ég að leyfa mér að bulla í stuttu máli um hitt og þetta sem vekur áhuga minn eða fer í taugarnar á mér. Ég vona að lesendur fyrirgefi mér.


Nýi Samfylkingarvefurinn
Nútímalegi jafnaðarmannaflokkurinn, sem stendur jafn vel til að velji sér almennilegt nafn á stofnfundinum eftir tæpar tvær vikur, hefur loksins vakið heimasíðu sína úr dái og lofar hún góðu. Sérstaklega hafði ég gaman af umræðusvæðinu þar sem almenningi gefst tækifæri til að koma skoðunum sínum á framfæri (vel að merkja undir eigin nafni sem kemur vonandi í veg fyrir barnalegan dónaskap sem er að finna á mörgum svona síðum). Ég myndi segja gott framtak en svona átti auðvitað að vera komið upp á fyrsta degi. Hins vegar er auðvelt að gagnrýna hluti án þess að þurfa að gera nokkuð í þeim. Heimasíðan er góð og ber höfundum sínum góðan vitnisburð.

Fríhafnir
Fríhafnir eru frábært fyrirbæri. Þannig getur maður við það eitt að ferðast til útlanda sloppið við ýmsa skatta og skyldur og stórlækkað innkaupaverðið. Samt finnst mér dálítið vafasamt að vera að fella niður skatta á innkaupum fólks af þeirri ástæðu einni að það sé að ferðast til útlanda. Ekki það að ég sé á móti því að lækka skatta en spurning hvort það sé rétta leiðin að lækka þá aðeins á þeim sem fara til útlanda og því mest til þeirra sem gera mest af því…og hafa þá væntanlega meira milli handanna en þeir sem njóta þess síður. Ekki það að ég berjist harkalega fyrir því að fríhafnir verði lagðar niður áður en ég fer næst til útlanda. Kannski ekki dæmi um að vera sjálfum sér samkvæmur…en hei, ég er ekki í framboði. Hmm.

Að bora göt í fjöll
Það fer vart milli mála eftir lestur fyrirsagnarinnar að ég er ekki sáttur við næstu skref í samgöngumálum okkar Íslendinga (eða samgöngumálum okkar Íslendinga sem ekki búa á höfuðborgarsvæðinu eins og félagi minn er farinn að nefna það). Mér er það óskiljanlegt hversu miklu auðveldara það virðist að fá jarðgöng í lítil sveitarfélög úti á landsbyggðinni heldur en umbætur í gatnamálum á suðvesturhorninu. En þetta er víst kosturinn við að eiga „góða“ kjördæmapotara í stað vanmáttugra þingmanna suðvesturhornsins (í þessum málum vel að merkja, margir koma vel út í öðrum málaflokkum…sumir reyndar ekki).

Fæðingarorlof feðra
Ég hef margoft sagt að núverandi ríkisstjórn hefur verið að gera marga ágætis hluti. Fæðingarorlof feðra er eitt þeirra mála sem mun halda uppi nafni ríkisstjórnarinnar. Það er réttlætismál fyrir feður að fá sömu tækifæri og mæður að umgangast börn sín eftir fæðingu auk þess sem málið er til þess fallið að auka raunverulegt jafnrétti kynjanna. Svo er um að gera fyrir ríkisstjórnina að koma á raunverulegu jafnrétti milli trúfélaga og lífsskoðunarhópa með því að aðskilja ríki og kirkju (mér tekst alltaf að koma þessu að).

Deildu