Framsókn og Evrópusambandið

Logo

Brynjólfur Þór Guðmundsson

Brynjólfur Þór Guðmundsson sat í ritstjórn Skoðunar frá júlí 1999 til júní 2001.

26/06/2000

26. 6. 2000

Fyrir gamlan krata er ánægjulegt að sjá hvernig Framsóknarmenn hafa tekið Evrópumálin upp á arma sína. Formaður flokksins hefur lengi verið sá stjórnmálamaður sem hefur helst haldið málinu á floti og ungir Framsóknarmenn virðast sífellt vera að sækja í sig veðrið. Þögnin á enda Sú þögn sem einkennt hefur Evrópumálin frá því formaður Sjálfstæðisflokksins sagði […]

Fyrir gamlan krata er ánægjulegt að sjá hvernig Framsóknarmenn hafa tekið Evrópumálin upp á arma sína. Formaður flokksins hefur lengi verið sá stjórnmálamaður sem hefur helst haldið málinu á floti og ungir Framsóknarmenn virðast sífellt vera að sækja í sig veðrið.


Þögnin á enda
Sú þögn sem einkennt hefur Evrópumálin frá því formaður Sjálfstæðisflokksins sagði málið ekki vera á dagskrá virðist loksins vera á enda.

Þrátt fyrir að ungir Framsóknarmenn hafi ekki gengið svo langt að lýsa því yfir að sækja beri um aðild að Evrópusambandinu er sú yfirlýsing þeirra að skilgreina beri samningsmarkmið og vinna að málinu skref lengra en flestum hefði dottið í hug fyrir örfáum árum. Þegar Framsóknarflokkurinn barðist gegn þátttökunni í evrópska efnahagssvæðinu töldu flestir forystumenn flokksins Evrópusamstarfinu flest til foráttu. Síðan þá hafa kynslóðaskipti að mestu gengið yfir í flokknum og ljóst að þeir sem nú eru í forystu flokksins hafa meiri skilning á Evrópusamstarfinu en margir forverar þeirra.

Á sama tíma og Framsóknarmenn láta sífellt meira til sín taka í Evrópuumræðunni virðist oft sem Samfylkingin sé að missa málið úr höndunum á sér. Samfylkingin sem byggir um margt á starfi Alþýðuflokksins, hins gamla fánabera Evrópuumræðunnar á Íslandi, treysti sér ekki til að lýsa yfir stuðningi við aðildarumsókn á stofnfundi sínum og ræða hins nýkjörna formanns flokksins varð mörgum Evrópusinnanum vonbrigði. Þess er þó að gæta að Samfylkingin mun standa fyrir málþingi um Ísland og Evrópusambandið í haust og því möguleiki að hún sýni þann kjark sem svo marga virðist hafa skort að lýsa því yfir að sækja beri um aðild að Evrópusambandinu.

Hvað er eftir?
Vinstrihreyfingin – grænt framboð ber þess hins vegar að hafa tekið Jón Sigurðsson sér til fyrirmyndar en misskilið hann, mottó þeirra er Vér mótmælum öllu. Þar á meðal Evrópusambandinu og, ef marka má yfirlýsingar helstu forystumanna VG, markaðshagkerfi.

Forysta Sjálfstæðisflokksins virðist neita að taka Evrópumálin til umræðu, í það minnsta opinberlega, og lætur sér nægja innihaldslausar yfirlýsingar um að það sé ekki í samræmi við hagsmuni Íslendinga að sækja um aðild án þess að útskýra það nánar. Því er þó ekki að neita að innan Sjálfstæðisflokksins er mikill fjöldi fólks sem telur hagsmunum Íslands best borgið með aðild að Evrópusambandinu. Það er því ekki ólíklegt að innan skamms hefjist opnari umræða um þessi mál en forystan hefur talið heppilega enda ljóst að þar verður hart tekist á.

Eins og áður segir er umræðan loksins að komast í gang á nýjan leik Það er væntanlega ekki langt í að Framsóknarflokkurinn og Samfylkingin taki af skarið og lýsi yfir stuðningi við aðildarumsókn, Sjálfstæðisflokkurinn mun þá að öllum líkindum fylgja í kjölfarið. Þegar að því kemur er skammt í að Ísland verði aðili að Evrópusambandinu, þó fyrr hefði mátt vera.

Deildu