Færri afkastaminni þingmenn?

Logo

Brynjólfur Þór Guðmundsson

Brynjólfur Þór Guðmundsson sat í ritstjórn Skoðunar frá júlí 1999 til júní 2001.

13/09/2000

13. 9. 2000

Það hefur verið vinsæl klisja ýmissa hægrimanna að hvetja til þess að þingmönnum verði fækkað og helst valdir til setu þeir þingmenn sem gera sem minnst. Þetta telja sumir talsmenn lítilla ríkisafskipta bestu leiðina til að draga úr útþenslu ríkisvaldsins. En er ekki hætt við að báknið þenjist út þegar enginn er til að hemja […]

Það hefur verið vinsæl klisja ýmissa hægrimanna að hvetja til þess að þingmönnum verði fækkað og helst valdir til setu þeir þingmenn sem gera sem minnst. Þetta telja sumir talsmenn lítilla ríkisafskipta bestu leiðina til að draga úr útþenslu ríkisvaldsins. En er ekki hætt við að báknið þenjist út þegar enginn er til að hemja það?


Því verður seint neitað að ríkisvaldið fæst við margt og eru ófá verkefna þess óþörf og jafnvel skaðleg. Sú von ýmissa hægrimanna að fækka þingmönnum og velja helst lötustu og afkastaminnstu einstaklingana til starfans er hins vegar ekki líklegt til árangurs ef ætlunin er að draga úr ríkisumsvifum. Það þarf jú einhvern til að ákveða að draga úr þeim, en eins og oft hefur komið fram er útþensla ríkisvaldsins oft á tíðum næsta sjálfvirk. Þetta á ef til vill sérstaklega við þegar þeir halda um valdataumana sem hæst hafa um takmörkuð ríkisafskipti.

Auðvitað er það smámunasemi að fara að ræða þetta núna. Væntanlega er það hugsun þeirra sem halda þessari gömlu klisju fram að þingmenn eru gjarnir á að samþykkja einhver útgjöld sem þeim þykja nauðsynleg eða vinsæl og því fleiri þingmenn þýða því meiri útgjöld. En eins og er svo gjarnt með klisjagjarnt fólk (og ég tilheyri að sjálfsögðu þeim hópi) verður það oft fangar eigin málflutnings. Það segir margt og gerir fátt. Eða hversu margir núverandi ráðherra og þingmanna hafa ekki á einum tíma eða öðrum galað hátt: Báknið burt, en gera svo minna í því en margur hefði viljað þegar þeir loksins hafa tækifæri til þess. Eða höfum við séð stórkostlegar breytingar á ríkisútgjöldum til ýmissa óþarfra og jafnvel skaðlegra málaflokka svo sem trúmála og landbúnaðarmála? Þær breytingar hafa svo sem ekki orðið til að draga úr þeim útgjöldum.

Það er ágætt að kalla á niðurskurð í ríkisútgjöldum. Það er ennþá betra að gera eitthvað í því. (Þó er rétt að setja fram þann fyrirvara að ekki er allur niðurskurður góður en það á ekki að vera mikið mál að skera niður ríkisútgjöld um nokkra milljarða á ári hverju ef menn setjast niður og setja sér raunhæf markmið.)

Aulaskapur
Rétt áðan heyrði ég óminn af sjónvarpsauglýsingu þar sem sagði að Icelandair og einhverjir fleiri aðilar væru að gera eitthvað. Ég man ekki hvað og mér er alveg sama. Það sem mér fannst hins vegar asnalegt við auglýsinguna var notkunin á enska nafni Flugleiða. Í fyrsta lagi var þetta auglýsing á íslensku, í íslensku sjónvarpi og að öllum líkindum beint að íslenskumælandi viðskiptavinum (í það minnsta teldi ég afskaplega heimskulegt að reyna að ná til þeirra sem ekki skilja íslensku í íslensku sjónvarpi með auglýsingu á íslensku). Hvers vegna í ósköpunum menn eru að nota Icelandair í stað Flugleiða í innlendum auglýsingum skil ég ekki. Ég get svo sem skilið að það sé svarað Icelandair þegar maður hringir í Flugleiðir, erlendir viðskiptavinir kynnu að leita sér upplýsinga í síma þó ég viti ekki hvort og hversu algengt það er. Þó veit ég að mér finnst fátt bjánalegra en fyrirtæki sem finna þörf hjá sér að uppnefna sig á ensku til að höfða til íslenskra viðskiptavina. En eins og félagi minn einn segir svo oft: Það er ekki allur aulaskapur eins. (Ef til vill eru tök hans á íslensku ekki svo mikið betri en auglýsinga- og markaðsfræðinga Flugleiða?)

Af skemmtilegra efni
Það þýðir ekki alltaf að vera neikvæður þó það geti verið afskaplega auðvelt. Ein af skemmtilegri uppgötvunum mínum síðustu daga er grafíska tímaritið Zeta sem nýlega hóf göngu sína. Ég veit að það er skoðun margra að teiknimyndasögur séu fyrir börn og einn félaga minna í ritstjórn minnti mig óspart á það þegar hann sá mig kaupa 2. tölublað ritsins. Því ætla ég að pirra hann og mæla með því að lesendur hleypi barninu innra með sér úr felum og skoði afurðina. Það er hægt að gera margt vitlausara.

Deildu