Hverjum er ekki sama?

Logo

Sigurður Hólm Gunnarsson

Sigurður Hólm Gunnarsson ritstjóri Skoðunar sem stofnað var þann 23. júní 1999.

15/09/2000

15. 9. 2000

Þrátt fyrir að það sé samdómaálit sérfræðinga að Barnahúsið sé langbesti kosturinn þegar kemur að því að rannsaka og taka viðtöl við börn sem sætt hafa kynferðisofbeldi kemur sífellt oftar fyrir að hæstaréttardómarar neita að nota Barnahúsið. Þess í stað nota þeir aðstöðu sem þeir hafa í húsi Hæstaréttar. Ástæðan fyrir þessari sérvisku hæstaréttardómara er […]

Þrátt fyrir að það sé samdómaálit sérfræðinga að Barnahúsið sé langbesti kosturinn þegar kemur að því að rannsaka og taka viðtöl við börn sem sætt hafa kynferðisofbeldi kemur sífellt oftar fyrir að hæstaréttardómarar neita að nota Barnahúsið. Þess í stað nota þeir aðstöðu sem þeir hafa í húsi Hæstaréttar. Ástæðan fyrir þessari sérvisku hæstaréttardómara er afar óljós og sakar undirritaður fjölmiðla um að kryfja þetta mál ekki nægjanlega til mergjar.

Kjarni málsins
Fréttamenn og þáttastjórnendur virðast sumir hverjir algjörlega ófærir um að fjalla um kjarna málsins. Í fréttum og þjóðmálaumræðum komast hæstaréttarlögmenn og talsmenn yfirvalda sí ofan í æ hjá því að svara einföldum en mikilvægum spurningum um málefni Barnahússins.

Telja hæstaréttardómarar að þeir séu færari við að yfirheyra börn en sérþjálfaðir sálfræðingar? Telja hæstaréttardómarar að hagsmunum barna sé betur gætt með því að yfirheyra börn í Hæstarétti en í Barnahúsi? Telja dómarar eitthvað neikvætt við aðstöðuna í Barnahúsi? Er aðstaðan í Hæstarétti á einhvern hátt betri og ef svo er að hvaða leiti?

Það er að mínu mati nokkuð ljóst að hæstaréttardómarar geta engan vegin rökstutt að þeir séu betur undir það búnir að taka viðtöl við ung börn sem hugsanlega hafa lent í kynferðisofbeldi en þeir sérþjálfuðu sálfræðingar sem vinna í Barnahúsi. Ég efast reyndar um dómgreind þeirra sem halda slíku fram. Það er einnig á hreinu að hagsmunum barna er betur gætt í Barnahúsi en í Hæstarétti. Engin hefur, svo best sem ég veit, haldið því fram að aðstaðan í Hæstarétti sé betri en aðstaðan í Barnahúsi.

Barnahúsið var, eins og margir vita, sérhannað í þeim tilgangi að taka viðtöl og rannsaka börn sem talið er að hafi lent kynferðislegu ofbeldi. Barnahúsið hefur verið lofað af sérfræðingum um allan heim og hafa menn í raun sagt að Barnahúsið sé eitt mesta framfaraskref í barnavernd í ALLRI EVRÓPU.

Athyglisbrestur fjölmiðla
Það er óþolandi hve málefni barna fá oft litla athygli í fjölmiðlum. Einstaka sinnum grípa fréttamenn til æsifréttamennsku þegar þeir sjá tilefni til en þess á milli er umræðan nánast engin. Ástæðurnar eru auðvitað þær að börn eru afskaplega lélegur þrýstihópur og talsmenn barna, þ.e. foreldrar, sálfræðingar og félagsfræðingar, virðast einfaldlega ekki hafa sömu vigt í íslenskri þjóðmálaumræðu og hagfræðingar og innrammaðir hæstaréttarlögmenn.

Ég er sannfærður um að ef málefni barna fengju jafnmikla athygli frá rannsóknarblaðamönnum og hrossagaukurinn eða veiðibrestur laxveiðimanna væri von til þess almenningur fengi skýrari svör frá yfirvöldum. Skýr svör um hvers vegna meiri áhersla er lögð á að spara hæstaréttardómurum sporin en að tryggja velferð barna sem hafa verið misnotuð kynferðislega.

Deildu