Jón Steinar hefur rangt fyrir sér

Logo

Sigurður Hólm Gunnarsson

Sigurður Hólm Gunnarsson ritstjóri Skoðunar sem stofnað var þann 23. júní 1999.

18/09/2000

18. 9. 2000

Sá þjóðfélagsgagnrýnandi sem er í hvað mestu uppáhaldi hjá mér er án efa hinn umdeildi hæstaréttarlögmaður Jón Steinar Gunnlaugsson. Jón Steinar er gáfaður, vel máli farinn og hittir oft naglann á höfuðið með óvægnum málflutningi sínum. Stundum á Jón Steinar það þó til að missa stjórn á réttlætiskennd sinni og fjalla um málefni sem hann […]

Sá þjóðfélagsgagnrýnandi sem er í hvað mestu uppáhaldi hjá mér er án efa hinn umdeildi hæstaréttarlögmaður Jón Steinar Gunnlaugsson. Jón Steinar er gáfaður, vel máli farinn og hittir oft naglann á höfuðið með óvægnum málflutningi sínum. Stundum á Jón Steinar það þó til að missa stjórn á réttlætiskennd sinni og fjalla um málefni sem hann hefur ekki, eða í það minnsta virðist ekki hafa, hundsvit á. Andstaða Jóns Steinars við notkun Barnahússins til að taka viðtöl við börn er talið að hafi verið misnotuð kynferðislega er ágætt dæmi um rökfræðilegt feilskot þessa ágæta hæstaréttarlögmanns.


Hlutleysi ógnað?
Jón Steinar hefur haldið því fram í fjölmiðlum að notkun Barnahússins ógni nauðsynlegu hlutleysi réttarins. Hann telur að starfsmenn Barnahússins séu eðlilega hliðhollir meintum ofbeldisþola að því leyti að þeir séu líklegri en dómari til að gera ráð fyrir því fyrirfram að meint kynferðisafbrot hafi í raun átt sér stað. Þessi málflutningur Jóns Steinars er undarlegur því hann veit fullvel, rétt eins undirritaður, að dómari stjórnar öllum þeim viðtölum sem tekin eru við börn í Barnahúsi rétt eins og þegar börnin eru yfirheyrð í Hæstarétti.

Það er vissulega stór munur á því hvernig yfirheyrslur eru framkvæmdar eftir því hvort sú starfsemi fer fram í Hæstarétti eða í Barnahúsi. Í Hæstarétti sér dómari í flestum tilvikum um að yfirheyra meintan ofbeldisþola á meðan sérþjálfaður sálfræðingur sér um yfirheyrslur í Barnahúsi. Það þýðir þó alls ekki að starfsmenn Barnahússins stjórni þeim yfirheyrslum sem þar fara fram. Þvert á móti stjórnar dómari auðvitað yfirheyrslunni og er sá sálfræðingur sem sér um viðtalið hverju sinni í beinu sambandi við dómara í gegn um lítið heyrnartæki. Þannig getur dómari jafnt sem sækjandi og verjandi beðið sálfræðinginn um að spyrja barnið um það sem þeim dettur í hug. Sálfræðingurinn sér svo um að endurorða spurningarnar þannig að þær hæfi vitsmunum og hugtakaforða barnsins. Hvernig þessi aðferð ógnar hlutleysi réttarins er mér hulin ráðgáta?

Áreiðanleiki vitna
Í langflestum af þeim málum þar sem menn eru sakaðir um að misnota börn kynferðislega er vitnisburður barnanna einu sönnunargögnin. Sjaldan finnast líkamlegir áverkar á börnunum sem hægt er að nota sem sönnunargögn og oftar en ekki eru ekki nein vitni að meintum verknaði. Því er það ljóst að vitnisburður meintra ofbeldisþola er lykilatriði þegar kemur að því að sanna sekt eða sakleysi sakbornings.

Það er fyrir löngu vitað að minni manna er afar götótt og að það er frekar auðvelt að fá fólk til að „muna“ eftir atburðum sem aldrei áttu sér stað ef röngum aðferðum við yfirheyrslu er beitt. Þetta vita flestir dómarar, lögmenn, lögreglumenn og aðrir þeir sem fást við yfirheyrslur og gera ráð fyrir í störfum sínum. Það er töluvert auðveldara að klúðra yfirheyrslum yfir börnum en fullorðnum af ýmsum ástæðum. Börn eru, eins og menn vita, óþroskaðari en fullorðnir í margvíslegum skilningi. Börn hafa til dæmis takmarkaðari orðaforða en fullorðnir sem er ein ástæðan fyrir því að ekki er hægt að gera ráð fyrir að þau skilji allt sem við þau er sagt. Jafnvel þó þau gefi það í skyn.

Hér kemur mikilvægi Barnahússins og stafsmanna þess glögglega í ljós. Barnahúsið var ekki, eins og margir vilja gefa í skyn, bara hannað til þess að draga úr þjáningum barna þó það sé auðvitað mikilvæg ástæða. Einn aðaltilgangurinn með stofnun Barnahússins var einmitt sá að auka áreiðnaleikann í vitnisburði barna. Sérþekking starfsmanna Barnahússins gerir þeim kleift að athuga þroskastig og hugtakanotkun barna áður en þau eru spurð spurninga sem tengjast meintu kynferðisafbroti. Starfsemi Barnahússins hlýtur því að auka réttaröryggi almennt, bæði ofbeldisþola og sakbornings.

Illa rökstudd afstaða Jóns Steinars Gunnlaugssonar til Barnahússins virðist því ekki byggjast á margrómaðri réttlætiskennd hans heldur frekar á þeirri staðreynd að hann starfar stundum sem verjandi meintra barnaníðinga. Jón Steinar getur því varla talist hlutlaus í þessum efnum? Sem verjandi meintra barnaníðinga hefur Jón Steinar nefnilega beinan hag af því að vitnisburður barna sé óáreiðanlegur og að auðvelt sé að gagnrýna hann. Ég er ekki að væna Jón Steinar um óheiðarleika en ég efast stórlega um að hann geti, aðstöðu sinnar vegna, tekið hlutlausa afstöðu til starfsemi Barnahússins.

Deildu