Ríkis-Mörður

Logo

Kolbeinn Hólmar Stefánsson

Kolbeinn Hólmar Stefánsson sat í ritstjórn Skoðunar frá mars 2000 til febrúar 2001.

04/10/2000

4. 10. 2000

Fátt vekur eins mikið furðu mína og þegar vel hugsandi menn afhjúpa blinda fornaldarhyggju. Nýverið ákvað málverndarfrömuðurinn og menningarspekúlantinn Mörður Árnason að afhjúpa það sem býr í rykföllnum kytrum sálarteturs síns. Kinnroðalaust játaði hann menningarlega stórveldishyggju varðandi rekstur ríkisfjölmiðla og útlistaði hamslausa útvíkkunarstefnu sem honum langar að hrinda í framkvæmd fái hann að á einhvern […]

Fátt vekur eins mikið furðu mína og þegar vel hugsandi menn afhjúpa blinda fornaldarhyggju. Nýverið ákvað málverndarfrömuðurinn og menningarspekúlantinn Mörður Árnason að afhjúpa það sem býr í rykföllnum kytrum sálarteturs síns. Kinnroðalaust játaði hann menningarlega stórveldishyggju varðandi rekstur ríkisfjölmiðla og útlistaði hamslausa útvíkkunarstefnu sem honum langar að hrinda í framkvæmd fái hann að á einhvern hátt umboð til þess.


Hvernig er hægt að verja ríkisrekstur fjölmiðla?
Sjálfur er ég á móti ríkisreknum fjölmiðlum vegna þess að fjölmiðlar móta bæði smekk og skoðanir fólks. Smekkur og skoðanir fólks er nokkuð sem ríkisvaldinu kemur ekki við. Ennfremur er það óverjandi að ríkið standi í rekstri í samkeppni við einkaaðila, og á fjölmiðlamarkaðnum er nóg um frjálst framtak.

Helstu rök stuðningsmanna RÚV eru þau að það gegni mikilvægu menningarlegu hlutverki í baráttunni gegn útbreiðslu hverskyns lágmenningar og síbylju. Enn fremur sé hópur fólks í samfélaginu sem geðjast illa að þeirri dagskrá sem frjálsu fjölmiðlarnir bjóða uppá og það sé nauðsynlegt að þetta fólk fái útvarpsefni við sitt hæfi.

Hvað varðar fyrri rökin þá falla þau á sömu forsendum og afskipti ríkisins af smekk og skoðunum fólks. Ríkisvaldið á ekki að hafa afskipti af menningarlífinu. Sé menningarlíf þjóðar heilbrigt þróast menning þess af sjálfu sér sem óhjákvæmileg afleiðing allrar mannlegrar virkni. Þó sú menning falli ekki öllum í geð er það í hæsta máta óeðlilegt að hluti samfélagsins beiti ríkisvaldinu til að vinna að því að hugðarefni þeirra verði á einhvern hátt ríkjandi þáttur menningarinnar. Auk þess eru slíkar tilraunir dæmdar til að mistakast þar sem slík dagskrárgerð mun aldrei ná nægjanlegri útbreiðslu til að sporna við smekk þorra almennings.

Fáránleiki seinni rakanna er óþægilega augljós. Sé hlustendahópur RÚV nægilega stór til að nauðsynlegt sé að halda úti þeirri dagskrá sem þeir bjóða upp á hljóta að vera forsendur fyrir því að einkaaðilar reki slíka útvarpsstöð. Sé það ekki tilfellið er það réttlætismál að almenningur standi ekki undir kostnaði af sérsmekk lítils hóps.

Miðað við sjónarmið Marðar kemur ekki á óvart að hann sé dæmdur til að verma varamannabekki þingliða allra þeirra flokka sem hafa boðið hann fram. Tilhugsunin um afleiðingar þess að hann nái að slæma klónum í menntamálaráðuneytið nægir til þess að fylgissöfnun flokka hans staðnæmist við það sæti sem hann vermir á framboðslista.

Deildu