Kosningavaka kanamangarans

Logo

Kolbeinn Hólmar Stefánsson

Kolbeinn Hólmar Stefánsson sat í ritstjórn Skoðunar frá mars 2000 til febrúar 2001.

08/11/2000

8. 11. 2000

Við vorum ófá sem vöktum fram á morgun til að fylgjast með því hver yrði úrskurðaður næsti forseti Bandaríkjanna. Nóttin var eins æsispennandi og miðaldra fréttamenn erlendra fréttastöðva gátu gert þær og minntu um margt á fornar lýsingar af glæstum ósigrum íslenska knattspyrnulandsliðsins sem alltaf voru magnþrungnar fram á síðustu mínútu. Framlag RÚV Engin var […]

Við vorum ófá sem vöktum fram á morgun til að fylgjast með því hver yrði úrskurðaður næsti forseti Bandaríkjanna. Nóttin var eins æsispennandi og miðaldra fréttamenn erlendra fréttastöðva gátu gert þær og minntu um margt á fornar lýsingar af glæstum ósigrum íslenska knattspyrnulandsliðsins sem alltaf voru magnþrungnar fram á síðustu mínútu.


Framlag RÚV
Engin var þó fremri Gísla Marteini, fréttaálfinum glaðlega, sem hreinlega frussaði af kæti yfir því að hafa loks fengið alvöru verkefni. Ekki það að ég ætli að gera grín að Gísla Marteini enda er hann að jafnaði áhugasamasti fréttamaður íslensks sjónvarps. Einlægur áhugi hans og leikræn tilþrif hámörkuðu spennuna og endurspegluðu þær miklu sviptingar sem áttu sér stað yfir nóttina.

Öllu athygliverðara var framlag Ólafs Sigurðssonar, þess þaulreynda fréttahauks. Það var snemma ljóst að Ólafur gekk ekki heill til skógar. Rödd hans var brostin og augun vot en af alkunnri fórnarlund ábyrgra fréttamanna lét hann sig hafa að sitja yfir mis leiðinlegum viðmælendum sem töldust hafa sérfræðiþekkingu á bandarískum stjórnmálum eftir skamma dvöl í hinum og þessum sólskinsparadísum. Áður en útsendingin var hálfnuð hvarf Ólafur hinsvegar af vettvangi og dró þannig töluvert úr trúverðugleika þessarar útsendingar.

Brotthvarf Ólafs olli mér nokkrum áhyggjum enda ósennilegt að jafn ágætur fréttamaður og hann gæfist upp fyrir einhverri pest nema þá að hann væri verulega illa haldin. RÚV skuldar okkur aðdáendum Ólafs skýringu á brotthvarfi hans. Hvert fór hann? Af hverju fór hann? Er hann ekki örugglega enn á lífi?

Kalt mat?
Þessi útsending olli vonbrigðum. Eftir sviptingasama nótt ákvað RÚV að enda útsendingu sína þegar spennan var að ná hámarki. Eftir sat ég með þá afarkosti að horfa á dagskrárlýsingu dagsins eða útsendingu Stöðvar 2. Það kom þó ekki að sök enda liggja niðurstöður kosninganna ekki fyrir fyrr en annað kvöld, aðallega vegna þess að Flórídabúar kunna ekki að telja.

Deildu