Thomas Paine (1737-1809) – fjórði hluti – Aftur heim til Ameríku

Logo

Sigurður Hólm Gunnarsson

Sigurður Hólm Gunnarsson ritstjóri Skoðunar sem stofnað var þann 23. júní 1999.

17/11/2000

17. 11. 2000

Þegar Paine fluttist aftur til Ameríku árið 1802 varð hann strax var við að vinsældir hans höfðu vægast sagt dvínað. Thomas Jeffersson (1743-1826) þriðji og þáverandi forseti Bandaríkjanna hafði boðist til að senda skip til að ferja Paine til Ameríku en Paine hafnaði þessu tilboði vinar síns af ótta við að koma óorði á hann. […]

Þegar Paine fluttist aftur til Ameríku árið 1802 varð hann strax var við að vinsældir hans höfðu vægast sagt dvínað. Thomas Jeffersson (1743-1826) þriðji og þáverandi forseti Bandaríkjanna hafði boðist til að senda skip til að ferja Paine til Ameríku en Paine hafnaði þessu tilboði vinar síns af ótta við að koma óorði á hann.


Meirihluti Bandaríkjamanna virtist hafa gleymt öllu því sem Paine hafði gert fyrir land og þjóð. Paine sem eitt sinn var álitinn hetja og dáður af Ameríkönum var nú litinn hornauga og gamlir vinir hans snerust gegn honum. Í kirkjum landsins var Paine sakaður um guðlast og hatur manna á honum var í raun svo mikið að hann treysti sér ekki lengur til að ganga einn um götur að næturlagi.

Frelsi handa öllum
Þrátt fyrir óvinsældir hélt Paine áfram að berjast fyrir frelsi og réttlæti. Paine var einn af þeim allra fyrstu til að lýsa því yfir opinberlega í ræðu, riti og á pólitískum vettvangi að þrælahald væri siðlaust og að þrælar ættu tafarlaust að öðlast frelsi. Árið 1775 var Paine líklega fyrstur manna til að skrifa grein í blað þar sem hann lýsir andstyggð sinni á þrælahaldi. Þessi afstaða Paine varð síður en svo til að auka hróður hans því á þessum tíma voru flestir menn hlynntir þrælahaldi. Meira að segja hugsuðir á borð við Thomas Jefferson áttu fjölda þræla og töldu blökkumenn ekki jafningja hvítra. Bandaríkin voru í raun uppfull af frelsishetjum sem börðust fyrir frelsi og réttlæti, en ekki endilega handa öllum. Paine var þar mikilvæg undantekning.

Þrælahald var einnig stutt af kirkjunni og voru prestar duglegir við að benda sóknarbörnum sínum á að þrælahald væri ekki aðeins eðlilegt heldur einnig vilji Guðs (t.d.: „Þér þrælar, hlýðið yðar jarðnesku herrum með lotningu og ótta, í einlægni hjartans, eins og það væri Kristur“ Efesusbréfið 6; 5). Barátta Paine fyrir afnámi þrælahalds varð því eðlilega ekki til að styrkja samband hans við kirkjunnar menn og var hann úthúðaður sem aldrei fyrr í predikunarstólum landsins.

Paine var einnig einn af þeim fáu sem börðust fyrir réttindum kvenna og lagði Paine í raun til að konur fengju sama rétt og karlar. En á þessum tíma var farið með konur nokkurn veginn eins og sauðfé eða annan búfénað. Þær höfðu ekki fullan kosningarétt og voru í raun algjörlega háðar feðrum sínum og eiginmönnum.

Skynsemi í stað grimmdar
Það var ekkert sem Paine var óviðkomandi. Paine skipti sér af flestu því þar sem óréttlæti, heimska eða grimmd réði ríkjum. Hann skrifaði greinar þar sem hann gagnrýndi samlanda sína fyrir þá grimmd sem dýrum var sýnd og barðist fyrir því farið væri með dýr eins og þau væri lifandi og hefðu tilfinningar.

Paine barðist einnig gegn einvígum og benti á að færni manna í ofbeldisleikjum hefði ekkert með að gera hvort þeir hefðu rétt fyrir sér.

Hötuð hetja
Thomas Paine dó árið 1809, þá fátækur, vinafár og hataðar af stórum hluta þjóðarinnar. Þó að Paine hafi alla tíð verið fullur af réttlætiskennd og mannúð og barist fyrir frelsi og réttindum almennings þá framdi hann þann ófyrirgefanlega glæp að vera ekki kristinn. Það er ótrúlegt til þess að hugsa að almenningur hafi lagt meira uppúr trúarskoðunum hans en góðverkum en þannig var það og hefur verið allt til okkar tíma. Hundrað árum eftir andlát Paine kallaði Theodor Roosevelt (1858-1919), 26. forseti Bandaríkjanna, hann: „a filthy little atheist“ sem er lýsandi um þá afstöðu sem ýmsir málsmetandi menn hafa haft á einum merkasta mannréttindafrömuði allra tíma.

Arfleið Thomas Paine
Eins og ég minntist á í upphafi fyrstu greinar minna um Thomas Paine þá virðast afar fáir vita hver Paine var. Ástæðan er að öllum líkindum fyrst og fremst sú að eftir að hann gaf út Age of Reason var litið á hann sem útsendara djöfulsins. Paine á sér þó dygga aðdáendur í hinum ýmsu hópum. Fríþenkjarar, baráttumenn fyrir trúfrelsi, mannréttindafrömuðir og talsmenn frelsis og frjálslyndra stjórnmálaviðhorfa vitna reglulega í Paine og hafa hann að fyrirmynd.

Paine er verðug fyrirmynd. Hann var skynsamur, samúðarfullur, fullur réttlætiskenndar og sannur heimsborgari. Í bók sinni Rights of Man lýsti Thomas Paine lífsskoðun sinni mun betur en undirritaður hefur getað gert í fjórum greinum. Ég enda þessa frásögn því með uppáhalds tilvitnun minni í Thomas Paine:

Heimurinn er föðurland mitt og góðverk eru mín trúarbrögð.

Thomas Paine: 1. hluti2. hluti3. hluti4. hluti

Deildu