Margir fyrir einn

Logo

Kolbeinn Hólmar Stefánsson

Kolbeinn Hólmar Stefánsson sat í ritstjórn Skoðunar frá mars 2000 til febrúar 2001.

03/01/2001

3. 1. 2001

Þó Davíð Oddsson hafi setið á stóli forsætisráðherra síðustu tíu ár fer því fjærri að við höfum aðeins haft einn forsætisráðherra allan þennan tíma. Það er nefnilega þannig að Davíð er ekki bara einn heldur margir. Þannig höfum við haft drykkfellda Davíð, skoplega Davíð, landsföðurlega Davíð, pirraða Davíð, hrokafulla Davíð og nú síðast ósýnilega Davíð. […]

Þó Davíð Oddsson hafi setið á stóli forsætisráðherra síðustu tíu ár fer því fjærri að við höfum aðeins haft einn forsætisráðherra allan þennan tíma. Það er nefnilega þannig að Davíð er ekki bara einn heldur margir. Þannig höfum við haft drykkfellda Davíð, skoplega Davíð, landsföðurlega Davíð, pirraða Davíð, hrokafulla Davíð og nú síðast ósýnilega Davíð.


Fjölbreytni í forsætisráðuneytinu
En nú er ósýnilegi Davíð horfinn og í hans stað er komin sá versti þeirra hingað til. Mjúki Davíð. Mjúki Davíð getur ekki sofið á nóttinni því hann er að skrifa, ekki bara eina bók heldur tvær. Mjúki Davíð notar ekki hátíðarræður til að vega að pólitískum andstæðingum sínum. Mjúki Davíð er fullur af vinsemd og væntumþykju, skynsemi og föðurlegri ábyrgð. Mjúki Davíð er vemmilegur og óspennandi.

Óhjákvæmileg þróun
Auðvitað hlaut Davíð að þurfa að breytast. Eftir að hafa unnið merkan kosningasigur með því að láta sig hverfa stóð hann skyndilega frammi fyrir því að einn af sendiboðum hans naut umtalsvert meira fylgis en hann í vinsældakönnunum. Því þurfti hann að afturkalla umboð sendisveinsins og birtast þjóðinni í eigin persónu ella gæti þjóðin gleymt honum og sendiboðinn dregið undan honum forsætisráðherrastólinn. Nýi Davíð er þannig tilraun til að sýna Sjálfstæðisflokkunum fram á að hann sé enn til svo flokkurinn gerist ekki sekur um einhvers konar uppreisn.

Mjúki maðurinn
En hvers vegna mjúkur Davíð? Af hverju ekki að endurvekja einn þeirra gömlu, eða ganga alla leið og gerast bilaði Davíð? Davíð er að hengja sig í þróun erlendra stjórnmála. Líkt og jafnaðarmenn heimsins hoppuðu á þriðju leiðina er Davíð að færa sér brjóstgóðu íhaldsstefnuna, þriðju leið hægrimanna, í nyt. Þetta er auðvitað eðlilegt í kjölfar sigurs George W. Bush í bandarísku forsetakosningunum.

Hver á að flengja okkur núna?
Ég er samt ekki viss um að þetta muni ganga hjá Davíð, ekki frekar en það gerir fyrir William Hague. Staðreyndin er einfaldlega sú að fólk er orðið leitt á sama nafninu í forsætisráðuneytinu og margir farnir að renna hýru auga til fjármálaráðherrans sem vænlegs arftaka. Auk þess var það einmitt hinn barbaríski, hrokafulli Davíð sem fólk fílaði og því ólíklegt að þessi vatnsþynnti mannvinur eigi eftir að heilla alþýðuna. Sá Davíð sem flutti áramótaávarp síðasta sunnudag er sá eini Davíð sem ég hef nokkurn tíma slökkt á. Eftir að hafa hatað þennan mann í fjölda ára get ég ekki varist þeirri hugsun að ég sé þegar farinn að sakna hans og vona að hann nái sér á strik áður en hann týnir sér í þessum nýja leik.

Deildu