Þröngur kostur í búi

Logo

Kolbeinn Hólmar Stefánsson

Kolbeinn Hólmar Stefánsson sat í ritstjórn Skoðunar frá mars 2000 til febrúar 2001.

18/01/2001

18. 1. 2001

Eftir langt tímabil óendanlegra valmöguleika er loks farið að þrengja að okkur vesturlandabúum. Sykur er eitur, salmonella í káli, kamfíló í kjúklingi og riða í kjöti. Það eina sem við eigum eftir til að éta er fiskurinn sem syndir í klóakinu sem við dælum í höfin, innan um sokkna kjarnorkukafbáta, uppétinn af hringormi og öðrum […]

Eftir langt tímabil óendanlegra valmöguleika er loks farið að þrengja að okkur vesturlandabúum. Sykur er eitur, salmonella í káli, kamfíló í kjúklingi og riða í kjöti. Það eina sem við eigum eftir til að éta er fiskurinn sem syndir í klóakinu sem við dælum í höfin, innan um sokkna kjarnorkukafbáta, uppétinn af hringormi og öðrum sníkjudýrum. Ég get ekki neitað því að þetta er farið að hafa veruleg áhrif á mataræði mitt. Ég er kominn í varanlega megrun, enda fátt sem ég get sett upp í mig sem ekki er mögulega banvænt.


Óðar beljur í hefndarhug
Kúariða ríður þökum í Evrópu. Þar reisa menn nú varnarmúra gegn erlendum kúm af ótta við að þeim takist að umbreyta heilum þegnanna í frauðkennda svampa. Þetta er sérstaklega ógeðfelld leið til að deyja og afar ósennilegt að margir muni kjósa að stytta líf sitt með kjötáti. Enda hefur sala á nautakjöti dregist verulega saman um alla Evrópu á undanförnum mánuðum.

Af einhverjum ástæðum virðist ógerlegt að fá íslensk stjórnvöld til að bregðast við þessum vanda. Líklega reiknast þeim til að svo fáir muni deyja af völdum nautakjöts í samanburði við aðrar matvörur að betra sé að einbeita sér að einhverju mikilvægara, s.s. hvernig eigi að halda niðri óhóflegum tekjum öryrkja.

Allt er greindara en íhaldið
Þingmenn Sjálfstæðisflokksins hafa gagnrýnt jafnaðarmenn fyrir að mæla með innflutningsbanni á nautakjöti frá svæðum þar sem kúariðan hefur greinst. Sumir þeirra telja jafnvel gamla krata komna í mótsögn við sjálfa sig enda hefðu þeir löngum mælt fyrir afnámi innflutningshafta á landbúnaðarvörur. Þessu fólki virðist vera fyrirmunað að átta sig á því um hvað málið snýst.

Það er grundvallarmunur á því að flytja inn vöru og því að flytja inn banvæna sýkla pökkuðum inn í nautalundir. Ég er til dæmis ákaflega hlynntur innflutningi á landbúnaðarvörum en mér finnst líka eðlilegt að grípa til tímabundinna innflutningshafta á vöru sé möguleiki á því að hún sé skaðleg. Koma til dæmis í ljós að einhver tegund leikfanga innihaldi geislavirkan úrgang tel ég að það eigi að banna innflutning á slíkum leikföngum. Það þýðir hinsvegar ekki að ég sé alfarið á móti innflutingi á leikföngum, eins og sjálfstæðismenn virðast halda.

Fátt er svo með öllu ill . . .
Um alla Evrópu hefur gripið um sig verulegur matvælaskjálfti. Fólki stendur stuggur af því sem er borið á borð fyrir það og matarboðum er tekið eins og morðtilraunum. Fátt er þó svo með öllu illt að ekki boði nokkuð gott. Undanfarna áratugi hefur offita rutt sér rúms sem eitt erfiðasta heilsufarsvandamál á Vesturlöndum. Ef fer sem horfir verðum við öll orðin tágrönn í lok ársins.

Deildu