Þegar viðskiptavinirnir eru rændir

Logo

Brynjólfur Þór Guðmundsson

Brynjólfur Þór Guðmundsson sat í ritstjórn Skoðunar frá júlí 1999 til júní 2001.

04/04/2001

4. 4. 2001

Þó aðstandendur Skoðunar séu með eindæmum sveitafælnir menn hafa þeir gaman af að ræða um eitt og annað sem sveitum tengist. Sérstaklega ef það blandast saman við neytendamál. Nýjasta málið úr þessum ranni er auðvitað úrskurður Samkeppnisráðs um að Fengur, Sölufélag garðyrkjumanna og Mata hafi náð samkomulagi um víðtækt, ólöglegt verðsamráð og markaðsskiptingu í viðskiptum […]

Þó aðstandendur Skoðunar séu með eindæmum sveitafælnir menn hafa þeir gaman af að ræða um eitt og annað sem sveitum tengist. Sérstaklega ef það blandast saman við neytendamál.


Nýjasta málið úr þessum ranni er auðvitað úrskurður Samkeppnisráðs um að Fengur, Sölufélag garðyrkjumanna og Mata hafi náð samkomulagi um víðtækt, ólöglegt verðsamráð og markaðsskiptingu í viðskiptum með grænmeti, kartöflur og ávexti. Með öðrum orðum að fyrirtækin hafi híft upp verð með því að semja um að keppa ekki sín á milli um markaði. Því hafi neytendur, viðskiptavinir fyrirtækjanna, í raun verið rændir. Allt fyrirtækjunum til hagsbóta og viðgengist frá 1995.

Auðvitað kannast fyrirtækin ekki við neitt. Þannig furðar lögfræðingur þeirra sig á vinnubrögðum Samkeppnisráðs og úrskurði þess. Skilur ekki hvernig því detti í hug að sekta fyrirtækin vegna þess að nokkrir menn hafi spjallað saman um málefni sinna fyrirtækja. Þetta spjall sárasaklausra manna var þó ekki saklausara en svo að það rataði í fundargerðir og minnismiða, eða eins og segir í fréttatilkynningu frá Samkeppnisráði:

,,…kemur m.a. fram að rétt fyrir upphaf samstarfsins taldi framkvæmdastjóri Ágætis „einu færu leiðina til verðhækkana að ná samningum“. Þá var bókað í fundargerð SFG að „beita yrði öllum ráðum til að hysja verðin upp.“ Á stjórnarfundi Ágætis í janúar 1995 var bókað að aðal markmið með samstarfi við Sölufélagið „yrði að vera að ná hærri verðum og minnka spennuna á markaðnum vonandi til hagsbóta fyrir fyrirtækin og ekki síður framleiðendur.“ Á grundvelli þessa gengu fyrirtækin til samstarfs skv. þeim sönnunargögnum sem liggja fyrir í málinu. Stjórnarformaður SFG útskýrði inntak samstarfsins við Ágæti á þann hátt á aðalfundi í mars 1995 „að samstarfið fælist í því að samráð yrði haft í öllum verðum og ýmsu öðru.“ Þá var bókað að SFG og Ágæti hefðu „bundist trúnaðarböndum“. Í málinu liggur einnig fyrir að framkvæmdastjórar keppinautanna SFG og Mata náðu samkomulagi um að „Mata drægi sig út af Suðurnesjum með banana.“ Einnig hefur komið fram að Mata þáði greiðslur af SFG gegn því að Mata byði ekki banana í tilteknar verslanir í samkeppni við SFG. SFG greiddi einnig Ágæti fé fyrir að hefja ekki samkeppni í innflutningi og þroskun á banönum.“

Þetta er ekki afrakstur saklauss spjalls. Þetta er einfaldlega sönnun þess að fyrirtæki hafa beitt glæpsamlegum aðferðum til að koma í veg fyrir að samkeppni á markaði kostaði þau fé eða markaðshlutdeild. Þetta er í raun samkomulag forsvarsmanna nokkurra fyrirtækja um að ræna viðskiptavini sína.

Reyndar ætti þetta mál að vera helsta sönnun þess að við þurfum á öflugri samkeppnislöggjöf að halda. Reynslan hefur sýnt og sannað að fyrirtæki geta hæglega náð samkomulagi um að koma í veg fyrir samkeppni sín á milli og komast upp með það árum saman. Gegn þessu verður að sporna. Því án leikreglna og eftirlits er hætt við að samkeppni nái ekki að ríkja á markaði. Og ég held að jafnvel hörðustu ríkisafskiptaleysissinnar geti verið sammála mér um að markaður án samkeppni er lítils virði.

Deildu