Virkur líknardauði

Logo

Brynjólfur Þór Guðmundsson

Brynjólfur Þór Guðmundsson sat í ritstjórn Skoðunar frá júlí 1999 til júní 2001.

11/04/2001

11. 4. 2001

Holland varð í gær fyrsta ríki heims til að samþykkja lög sem heimila læknum að binda endi á líf sárþjáðra sjúklinga. Þetta kemur í kjölfar talsverðrar umræðu þar í landi og eins þess að litið hefur verið framhjá virkum líknardauða eða líknardrápi um margra ára skeið. Sjálfur er ég hlynntur virkum líknardauða. Þeir eru ófáir […]

Holland varð í gær fyrsta ríki heims til að samþykkja lög sem heimila læknum að binda endi á líf sárþjáðra sjúklinga. Þetta kemur í kjölfar talsverðrar umræðu þar í landi og eins þess að litið hefur verið framhjá virkum líknardauða eða líknardrápi um margra ára skeið.


Sjálfur er ég hlynntur virkum líknardauða. Þeir eru ófáir sem hafa þjáðst mikið og lengi af völdum ólækandi sjúkdóma. Fólk sem barðist lengi og kröftuglega en gaf á endanum upp alla von og þráði að þjáningunum lyki. Fólk sem hefur óskað þess að deyja til að sleppa við þjáningar sínar þegar engar aðrar leiðir voru opnar. Ég verð að viðurkenna að sjálfum finnst mér við ekki þess um komin að neita fólki um þá ósk sína þegar svo er komið.

Nú ætla ég að biðja fólk um að misskilja mig ekki. Mér finnst lífið alltof dýrmætt til að sóa því. Mér finnst afar sorglegt þegar fólk kýs að binda endi á líf sitt. Sá fjöldi sjálfsmorða sem við verðum vitni að er til marks um að það er ýmislegt að, hvoru tveggja í einkalífi þeirra sem taka líf sitt og samfélagsins sem svarar ekki neyðarköllum þeirra. Mér finnst það hörmulegt þegar fólk, sokkið í þunglyndi og vonleysi, ákveður að binda endi á líf sitt þó það geti horft fram á að lifa lengi enn og geta bætt líf sitt og aðstæður.

Mér finnst hins vegar öðru gegna þegar langþjáðir sjúklingar sem eiga sér enga von um lækningu óska þess að endir verði bundinn á líf þeirra. Það er vissulega mjög sorglegt og mjög erfitt fyrir viðkomandi og alla sem honum tengjast. Samt sem áður get ég ekki annað en viðurkennt að undir slíkum kringumstæðum finnst mér að fólk eigi að fá að velja að binda endi á líf sitt. Hversu sársaukafullt sem það er fyrir okkur hin finnst mér við verða að virða vilja fólks til að binda endi á þjáningar sínar þegar öll önnur von er úti.

es
Það er rétt að benda á það að þessi grein er að miklu leyti samstofna grein sem birtist á Skoðun 29. nóvember síðast liðinn. Þyki mönnum skrifin kunnugleg er það væntanlega ástæðan.

Deildu