Í leit að friði

Logo

Sigurður Hólm Gunnarsson

Sigurður Hólm Gunnarsson ritstjóri Skoðunar sem stofnað var þann 23. júní 1999.

15/11/2001

15. 11. 2001

Þegar maður verður vitni af eins hræðilegum atburðum og þeim sem áttu sér stað í Bandaríkjunum síðastliðinn þriðjudag verður maður óhjákvæmilega sorgmæddur og um leið bálreiður. Því getur það verið vandasamt verk að horfa á þessa atburði í samhengi og komast að skynsamlegri niðurstöðu um hvernig hægt er að koma í veg fyrir álíka glæpi […]

Þegar maður verður vitni af eins hræðilegum atburðum og þeim sem áttu sér stað í Bandaríkjunum síðastliðinn þriðjudag verður maður óhjákvæmilega sorgmæddur og um leið bálreiður. Því getur það verið vandasamt verk að horfa á þessa atburði í samhengi og komast að skynsamlegri niðurstöðu um hvernig hægt er að koma í veg fyrir álíka glæpi gegn saklausu fólki í framtíðinni. Styrjaldir auka einar og sér sjaldan líkur á framtíðarfriði og hefndaraðgerðir gera það aldrei.

Hefndaraðgerðir gegn hryðjuverkamönnum munu ekki draga að neinu marki úr líkum þess að fleiri álíka grimmdarverk verði framin. Hernaðarárásir á Afganistan eða önnur ríki sem hýsa hryðjuverkamenn, þar sem óbreyttir og saklausir borgarar láta lífið, eru siðlausar og ekki líklegar til að sannfæra arabaheiminn, né undirritaðan, um gildi vestrænnar siðmenningar. Slíkar árásir munu einungis ala á tortryggni, hatri og fordómum milli þessara ólíku menningarheima.

Aukið öryggi
Skynsamlegt er að bregðast við ófremdarverkum hryðjuverkamanna með því að auka eftirlit með flugferðum og þannig tryggja betur öryggi almennings. Flestum má það þó vera ljóst að aukið eftirlit getur aldrei algerlega komið í veg fyrir að hryðjuverk verði framin á Vesturlöndum. Í það minnsta ekki án þess að svipta almenning um leið því sem verið er að vernda, þ.e.a.s. frelsinu.

Hvað er þá hægt að gera?
Bandaríkjamenn og aðrir íbúar hins vestræna heims þurfa að opna augu sín og sjá þær hræðilegu afleiðingar sem afskipti Bandaríkjanna og annarra Vesturlandaþjóða af Mið-Austurlöndum hafa haft í för með sér. Telja má víst að fimm til tíu þúsund manns hafi farist í sjálfsmorðsárásunum á þriðjudaginn og er það hræðilegt. En gerir fólk sér almennt grein fyrir að hundruð þúsunda manna í Mið-Austurlöndum, þar af stór hluti saklaus börn, hafa dáið og mátt þola óréttlæti og skort vegna afskipta og miskunnarlítilla hernaðarárása Vesturlanda? Ég held ekki. En því miður er þetta þó sannleikurinn. Hatur sumra íbúa Mið-Austurlanda á Bandaríkjunum getur því varla komið mönnum á óvart.

Þegar að málefnum Mið-Austurlanda kemur þurfa bandarísk yfirvöld að endurskoða utanríkisstefnu sína ef þeir vilja eiga von á varanlegum frið í heiminum. Í sífellt minnkandi heimi skiptir baráttan fyrir frelsi, lýðræði og réttlæti litlu máli ef íbúar alls heimsins fá ekki að njóta góðs af þeirri baráttu.

Deildu