Að nýta sér óréttlæti í pólitískum tilgangi

Logo

Sigurður Hólm Gunnarsson

Sigurður Hólm Gunnarsson ritstjóri Skoðunar sem stofnað var þann 23. júní 1999.

26/03/2002

26. 3. 2002

Sumir stjórnmálamenn eru gjörsamlega lausir við allar hugsjónir og alla réttlætiskennd. Davíð Oddsson lætur stundum eins og slíkur stjórnmálamaður. Hann hefur enga stefnu, enga hugsjón og réttlætiskennd hans er aldrei særð nema þegar hann þarf að skora pólitísk mörk. Dæmi um þetta er þegar forsætisráðherra bendir á hve ósanngjarnt það er að ríkisvaldið innheimti iðgjöld […]

Sumir stjórnmálamenn eru gjörsamlega lausir við allar hugsjónir og alla réttlætiskennd. Davíð Oddsson lætur stundum eins og slíkur stjórnmálamaður. Hann hefur enga stefnu, enga hugsjón og réttlætiskennd hans er aldrei særð nema þegar hann þarf að skora pólitísk mörk. Dæmi um þetta er þegar forsætisráðherra bendir á hve ósanngjarnt það er að ríkisvaldið innheimti iðgjöld af aðildarfélögum Samtaka iðnaðarins.

Nú er sá sem þetta skrifar sammála því sem Davíð segir. Það er ósanngjarnt að ríkisvaldið sjái um að rukka iðgjöld af aðildarfélögum SI, og það sem er enn ósanngjarnara er að menn eru neyddir til þess að greiða þetta gjald, jafnvel þó þeir séu ósammála stefnu og baráttumálum félagsins. Þetta er að mínu viti mannréttindabrot. Menn eiga aldrei að þurfa að greiða fyrir það sem þeir trúa ekki á eða stríðir gegn samvisku þeirra. Ekki nema að rík almannahagsmunarök liggi þar að baki.

Samtök Iðnaðarins og Þjóðkirkjan
Það særir réttlætiskennd Davíðs að menn þurfi að borga til SI þó þeir vilji það ekki og séu ósammála starfsemi þeirra og markmiðum. Gott og vel. Þá hlýtur forsætisráðherrann að liggja andvaka á næturnar yfir því að hér á landi sé starfrækt Þjóðkirkja, sem kostar hundruð milljóna að reka á ári hverju. Milljónir sem hinn almenni skattgreiðandi þarf greiða hvort sem hann vill það eða ekki. Athyglisvert er að Sjálfstæðisflokkur Davíðs er andvígur aðskilnaði ríkis og kirkju og hafa ráðherrar og þingmenn flokksins greitt atkvæði gegn þess háttar tillögum á samkundum Sjálfstæðisflokksins og á þingi. (1)

Svo virðist því sem Davíð (2) sé sama þótt menn séu neyddir til að standa undir kostnaði á starfsemi sem stríðir gegn trúarskoðunum þeirra og jafnvel siðferðiskennd en finnst það brjóta í bága við lög ef menn þurfa að greiða til samtaka sem láta gera skoðanakannanir um viðhorf Íslendinga til ESB. Ég verð að viðurkenna að ég skil ekki slík þversagnakennd viðhorf.

Valdatafl forsætisráðherra
Ef það er eitthvað sem kemur óorði á stjórnmál þá eru það stjórnmálamennirnir sjálfir. Menn eins og Davíð sem nýta sér óréttlætið í samfélaginu og eymd annarra til þess að koma sjálfum sér á framfæri. Davíð er búinn að vera forsætisráðherra og valdamesti maður innan stærsta stjórnmálaflokks landsins í rúman áratug og hefur því haft meira en nægan tíma til að berjast gegn því óréttlæti sem ríkir í þessu þjóðfélagi. Hann hefur hins vegar kosið að gera það ekki. Eitt er að fjalla ekki um óréttlæti og mannréttindi vegna þess að manni er sama. Annað er að fjalla um slík mál einungis til þess að koma höggi á andstæðinga sína og koma sjálfum sér á framfæri.

Það er sorglegt til þess að hugsa að réttlæti, hugsjón og sanngirni séu einungis peð í valdatafli forsætisráðherra. Peð sem hann teflir fram þegar honum hentar og fórnar svo þegar honum sýnist.

Nú er bara að vona að biskup Íslands sendi ríkistjórninni nokkrar kjarnyrtar glósur og reiti Davíð almennilega til reiði. Þá fyrst getum við kannski átt von á því að forsætisráðherra leggi til að ríki og kirkja verði aðskilin.

___________

(1)
Frumvarp til laga um breytingu á kirkjuskipan ríkisins.

Frumvarp til laga um afnám gjalds á menn utan trúfélaga.

___________

(2)
Undirritaður gerði heiðarlega tilraun til að fá það á hreint hver persónuleg skoðun forsætisráðherra er á aðskilnaði ríkis og kirkju. Talað var við þingmenn, a.m.k. 10 virka sjálfstæðismenn (sem sóttu landsfund flokksins), fréttamenn og ýmsa aðra sem tengjast pólitík. Skemmst er frá því að segja að enginn gat staðfest hver skoðun forsætisráðherra væri á þessu máli. Það hlýtur að teljast nokkuð merkilegt. Stefna flokksins er hins vegar ljós: ,,Sjálfstæðisflokkurinn leggur áherslu á mikilvægi kristinnar trúar fyrir íslenskt samfélag og vill að trúarleg og siðfræðileg gildi hennar verði kjölfestan í andlegu lífi þjóðarinnar.“.

Deildu