Eineltisfrásögn 3: Niðurlægingin var alger

Höfundur:

15. 8. 2002

Ég fæddist á landsbyggðinni. Foreldrar mínir skildu þegar ég var átta ára og þá skipti ég um skóla. Næstu tvo vetur var ég í þremur skólum. Við vorum alltaf að flytja og ég alltaf að skipta um skóla. Ég var lögð í einelti í öllum þessum skólum, í einu eða öðru formi. Ég man reyndar […]

Ég fæddist á landsbyggðinni. Foreldrar mínir skildu þegar ég var átta ára og þá skipti ég um skóla. Næstu tvo vetur var ég í þremur skólum. Við vorum alltaf að flytja og ég alltaf að skipta um skóla. Ég var lögð í einelti í öllum þessum skólum, í einu eða öðru formi. Ég man reyndar ekkert sérstaklega eftir þessum tíma. Enda smámunir miðað við það sem síðar átti sér stað.

Við fluttum til Reykjavíkur þegar ég var tíu ára gömul og ég byrjaði þá í nýjum skóla, í borginni, í 5. bekk. Fékk líka að kenna á því þar. Aðallega útskúfun, man ekki mikið eftir því.

Ég átti fáa vini í grunnskóla og engan innan skólans. Svo skipti ég aftur um skóla og nú í síðasta sinn. Byrjaði í nýjum skóla, miðsvæðis í Reykjavík, í 6. bekk. Þá var þar stelpa sem var í sama bekk og ég í síðasta skóla. Við vorum m.ö.o. báðar nýjar og okkur varð vel til vina. Hún hafði kynnst ýmsu eins og ég svo við áttum ýmislegt sameiginlegt. Sú vinátta slitnaði í unglingadeild. Stelpan klifraði upp metorðastigann, en ég var sama nördið.

Ég var snemma tekin fyrir í nýja skólanum. Ég man ekki hvernig það byrjaði, man bara eftir einstökum atriðum. Ég held að sum málin séu bara falin fyrir mér, og muni rifjast smátt og smátt upp fyrir mér þegar ég les og heyri um svona mál. Eins og saga Þórdísar, ég er með hnút í maganum eftir þann lestur.

Það var ýmislegt sem stóð með mér í mínu einelti, t.d. fjölskyldan mín og gott skólastarfsfólk. Ég hef alltaf verið mikil námsmanneskja og hef haft gott sjálfsálit á því sviði. En það kemur því miður ekki í veg fyrir hlutina, en er þó sárabót.

Ég ætla að draga fram nokkrar minningar:

Ég held að þetta hafi undir lok 6. eða 7. bekkjar. Það var síðasti kennslutími dagsins og ég var eitthvað að slóra. Var seinust út úr stofunni eða svo hélt ég. Við útganginn á stofunni var snyrting, Þar lágu í leyni tveir bekkjabræður mínir. Annar alræmdur ,,óþokki” og hinn vinur hans sem fylgdi honum bara. Reyndar á ég bágt með að skilja hvernig þessi vinur fékkst í þetta, en það er nú önnur saga. Þeir kipptu mér inná klósett og ætluðu að gera eitthvað við mig, girða niður um mig eða eitthvað. Sem betur fer komst ég aldrei að því hvað þeir höfðu í hyggju því ég gersamlega sturlaðist. Ég öskraði, beit sparkaði og barðist um á hæl og hnakka. Ég komst einhvern veginn ofan á óþokkann og beit hann í bakið og á meðan var vinurinn út í horni eins og hrædd mús. Það var ekki fyrr en mörgum árum seinna að ég fattaði hversu heppin ég var að hafa brugðist svona við. Þá frétti ég að þessi strákur hafi nauðgað jafnöldru minni. Ég á ekki mjög erfitt með að trúa því. Hann var alltaf að angra stelpurnar sem minna máttu sín og það var alltaf eitthvað kynferðislegt. Hann lék sér að því að ýta okkur út í horn og klípa í klofið á okkur. Eftir að ég lauk grunnskóla og maður hefur talað við hinar og þessar stelpur er alveg ljóst að þessi strákur er eitthvað meir en lítið skrítinn í hausnum. Hann lét mig í stórum dráttum í friði eftir þetta.

Ég man óljóst eftir því þegar Þorgeir* og co tóku skólatöskuna mína í 7. bekk og sturtuðu öllu úr henni í drullupoll. Ég er rosalega vandvirk með mína (skóla) -vinnu og hef alltaf verið það og þeir eyðilögðu það allt, það var mjög sárt. Mig minnir að ég hafi reynt að flýja þá en þeir náðu töskunni og ég komst undan, hljóp og faldi mig og horfði á þá eyðileggja fínu verkefnin mín. Samt er stundum eins og mig hafi bara dreymt þetta, en nei, þetta situr of mikið í mér til að þetta hafi ekki gerst í raun og veru.

Ofbeldið var aðallega andlegt og það mikið af því. Ég var alltaf kölluð flatfeis, þeim fannst það mjög fyndið. Á unglingsárunum var ég kölluð babyfeis vegna þess að ég var með mjög góða húð og fékk aldrei fílapensil, hvað þá meira. Það er undarlegt hvernig krökkum sem leggja í einelti, tekst að snúa öllu í sambandi við þolandann upp í neikvæða hluti, jafnvel það sem er mjög jákvætt. Á tímabili þoldi ég ekki hvað ég var samviskusöm og hætti því. Stóð samt ekki í langan tíma, hafði svo mikla ánægju af námi. Ég þoldi það ekki að ég fékk aldrei bólu, var babyfeis! Það var mín stærsta ósk að eignast vini, vera vinsæl og auðvitað fundu krakkakvikindin það.

Það var í 8. bekk að nokkrar stelpur sögðu mér að þær ætluðu að stofna klúbb. Stelpuklúbb. Og það ættu bara að vera flottustu stelpurnar í honum – og buðu mér inngöngu. Við fórum heim til einnar þeirra í hádeginu og þá sögðu þær mér að það þyrfti að vera inntökupróf. Ég þyrfti að svara nokkrum spurningum, ég hélt nú það. Ég hefði gert margt til að komast í þennan klúbb. Svo dró ein þeirra upp blað með spurningum sem þær höfðu ábyggilega skemmt sér mikið við að útbúa. Svo byrjaði ballið. Hefurðu verið á föstu? Hefurðu kysst strák? Hefurðu þetta, hefurðu hitt? Ég svaraði öllu samviskusamlega og laug til um þetta allt saman. Svo vorum við eitthvað meira hjá þeim og þær segja að þær þyrftu að ræða þetta í nefnd, seinna. Jæja, svo fórum við í skólasund seinna sama dag. Og við fórum að synda og eftir tímann flýttu allir krakkarnir sér upp úr og ég var síðust úr búningsklefanum. Þegar ég kem út standa þau öll í hnapp og ein stelpnanna les upp viðtalið við mig., allir vissu að ég laug öllu þarna og þetta svíður enn þegar ég hugsa um það. Hvað börn geta verið ógeðslega grimm. Ég var mjög auðtrúa og alltaf til í að treysta, var örvæntingafull í að eiga vini. Hvað var ekki hægt að plata mann í.

Það var í 9.bekk, nánar tiltekið daginn sem við fengum Bók Lífsins (Biblían á unglingamáli) – kaldhæðnislegt? Þegar allir voru farnir úr stofunni, nema ég, Þorgeir og KENNARINN, gengur Þorgeir að mér og útatar mig alla í krítardufti. Ég fraus og sat bara stillt og prúð meðan hann gerði þetta. Svo slær hann mig tvisvar með bókinni, man ekki hvort það gerðist eitthvað fleira. Þetta er sem frosin mynd í hausnum á mér. Kennarinn læddist út úr stofunni á meðan. Ég klagaði fyrir hvatningu einnar bekkjasystur minnar. Þorgeir var sendur heim í viku. Þetta breyttist eitthvað þá, varð duldara og ég átti auðveldara með að leiða hlutina frá mér. Kennarinn sór og sárt við lagði að ég lygi, hann hefði alls ekki verið viðstaddur. Æ greyið, ábyggilega gamalt eineltisbarn sjálfur, aldrei vaxið uppúr því…

Seint í áttunda bekk kynntist ég stelpu sem er ári yngri en ég. Við urðum góðar vinkonur og erum enn. Hún átti líka undir högg að sækja í þessum skóla.

Einu sinni þegar ég var að djamma með kærastanum mínum, sautján ára gömul, rúmlega 2 ár síðan grunnskólanum lauk, hitti ég Þorgeir og félaga. Þeir voru enn í sama farinu og byrjuðu að æpa að mér. Fyrst ,,lippaðist” ég niður, síðan varð ég brjáluð. Þá voru þeir auðvitað á bak og burt. Flash-bakkið var svakalegt og ég var nokkra daga að ná mér. Ég var vonsvikin að þeir væru enn svona mikil börn!

Ég hef unnið í mínum málum og hugsað mikið út í þetta. Mér hefur tekist að snúa þessari lífreynslu frá því að vera niðurrífandi í að vera uppbyggjandi. Ég er hlédræg, samt ekki svo. Er oftast algerlega ég sjálf. En eineltið hafði víðtæk áhrif á unglingsár mín. Félagshópurinn sem maður valdi var ekki góður, allt betra en ekkert. Margt sem gerðist, sem maður hefði kannski hefði sloppið við. En ég klifraði og er í góðum málum í dag, og það er allt sem máli skiptir.

Hulda Katrín

*Þorgeir er ekki rétt nafn stráksins

Deildu