Biskupinn og aðskilnaður ríkis og kirkju

Logo

Sigurður Hólm Gunnarsson

Sigurður Hólm Gunnarsson ritstjóri Skoðunar sem stofnað var þann 23. júní 1999.

24/10/2002

24. 10. 2002

Fátt skiptir meira máli en hugsana- og tjáningarfrelsi manna. Réttur manna til að lifa eftir þeirri lífsskoðun sem þeir sjálfir kjósa, en ekki eftir lífsskoðunum annarra er það sem, að mati undirritaðs, skilur einna helst á milli frelsis og þrældóms, lýðræðis og einræðis. Á okkar ágæta landi, Íslandi, er frelsi manna mun meira en víðast […]

Fátt skiptir meira máli en hugsana- og tjáningarfrelsi manna. Réttur manna til að lifa eftir þeirri lífsskoðun sem þeir sjálfir kjósa, en ekki eftir lífsskoðunum annarra er það sem, að mati undirritaðs, skilur einna helst á milli frelsis og þrældóms, lýðræðis og einræðis.

Á okkar ágæta landi, Íslandi, er frelsi manna mun meira en víðast hvar annars staðar og óeðlileg afskipti ríkisvaldsins af lífi almennings ekki mjög mikil. Á þessu eru þó hrópandi undantekningar eins og samband ríkis og svokallaðrar þjóðkirkju er skýrt dæmi um. Sérstakur stuðningur og verndun ríkisvaldsins við eina lífsskoðun umfram aðra er mótsagnarkenndur í meira lagi fyrir þjóðfélag sem kennir sig við frelsi og lýðræði og er beinlínis hættulegur í ljósi sögunar.

Biskupi svarað
Oft er árangursríkasta leiðin til að koma auga á nauðsyn þess að aðskilja ríki og kirkju sú að lesa málflutning þeirra sem eru mótfallnir slíkum aðskilnaði. Biskupinn yfir þeirri trúarstofnun sem ómaklega hefur verið kennd við alla íslensku þjóðina, Karl Sigurbjörnsson, hefur margsinnis lýst efasemdum sínum um aðskilnað ríkis og kirkju. Hér hef ég ákveðið að svara nokkrum efasemdarhugleiðingum hans er varða aðskilnað ríkis og kirkju:

,,Hvað merkir aðskilnaður ríkis og kirkju með þjóð þar sem níu af hverjum tíu tilheyra kirkjunni, níu af hverjum tíu börnum eru skírð í þjóðkirkjunni, ámóta mörg eru fermd og nánast allir kvaddir hinstu kveðju innan vébanda hennar?“

Það merkir einfaldlega að borin er virðing fyrir þeim sem eru í minnihluta, algjörlega óháð því hve fjölmennur eða fámennur sá minnihluti er. Það þýðir að tíu prósent þeirra manna sem hér búa þurfa ekki að líða eins og þeir séu annars flokks borgarar vegna lífsskoðana sinna. Hvernig skildi hákristnum biskupinum t.d. líða ef önnur trúarbrögð en kristni nytu þeirrar sérstöku verndar hér á landi sem hin lúterska trú hans nýtur nú? Myndi biskupinn og trúbræður hans sætta sig við að búa á Íslandi ef Allah sæti í því hásæti sem Guð situr í nú? Einhvernvegin á ég erfitt með að trúa því. Stundum er besta leiðin til að átta sig á nauðsyn aðskilnaðar ríkis og trúar sú að setja sig í spor annarra og tileinka sér hina Gullnu reglu sem eitt sinn var tileinkuð Jesú.

,,Merkir aðskilnaður ríkis og kirkju að krossinn verði afmáður úr fána okkar[?]“

Nei, að öllum líkindum ekki. Enginn eða í það minnsta mjög fáir líta á krossinn í fána okkar sem kristið tákn. Enda er krossinn sem slíkur langt frá því að vera sérstakt kristið tákn. Ef á fánanum stæði „Guð blessi þjóðina“ eða eitthvað álíka væri það allt annað mál. Krossinn í fánanum er því enginn hindrun fyrir aðskilnaði ríkis og kirkju.

,,[Merkir aðskilnaður ríkis og kirkju] að við hættum að syngja „Ó, Guð vors lands“[?]“

Nei, að mínu mati er það ekki nauðsynlegt skilyrði að við skiptum um þjóðsöng um leið og við aðskiljum ríki og kirkju. Hins vegar er það mjög óviðeigandi, eins og biskupinn virðist gera sér grein fyrir fyrst hann spyr, að sameiningarsöngur þjóðarinnar skuli vera kristinn sálmur. Það getur augljóslega verið erfitt fyrir þá fjölmörgu Íslendinga sem ekki eru kristnir að syngja þennan þjóðsöng „sinn“ án þess að líða undarlega og, í sumum tilfellum, án þess að fremja guðlast. Það er því ljóst að skipta verður um þjóðsöng einhvertímann í náinni framtíð. (sjá nánar grein eftir Sif Sigamarsdóttur þann 6. febrúar 2001 á Pólitík.is)

,,[Merkir aðskilnaður ríkis og kirkju] að kristnifræðikennsla í skólum verði bönnuð[?]“

Já og nei. Almenn fræðsla um helstu trúarbrögð heimsins á vissulega heima í skólastofum. Enda hafa trúarbrögð haft geypilega mikil áhrif á líf manna í gegnum tíðina. Að því leiti á kennsla um kristni heima í skólum. En sérstök kristinfræðikennsla og trúaráróður, eins og sá sem stundum á sér stað í skólum nú, á að sjálfsögðu að vera bönnuð. Stranglega bönnuð. Ef biskupinn skilur ekki af hverju bendi ég honum aftur á Gullnu regluna og á að setja sig í spor Íslendings sem er ekki kristinn.

,,[Merkir aðskilnaður ríkis og kirkju að] helgidagalöggjöfin [verði felld] úr gildi, [að] verslanir og skólar [verði] opnir á jóladag og bíóin á aðfangadagskvöld, því öllum dögum er gert jafnhátt undir höfði?“

Já, því það er í hæsta máta óeðlilegt að nokkrir bókstafstrúarmenn ákveði hvenær borgarar þessa lands megi vinna og hvenær ekki. Við skulum ekki gleyma því að ef kirkjan fengi að ráða þá væri einnig stranglega bannað að vinna á sunnudögum, enda er sunnudagur heilagur dagur í kristinni trú. Réttur manna til frídaga er bundinn í kjarasamninga og myndi ekki skerðast þó aðskilnaður og ríkis og kirkju ætti sér stað. Hvenær fólk ákveður að taka sitt frí ætti að vera samningsatriði milli launþega og vinnuveitanda en ekki milli launþega og kirkjuyfirvalda. Í Bandaríkjunum var hin svokallaða sunnudagslöggjöf, sem bannaði mönnum að vinna á sunnudögum, felld úr gildi vegna þrýstings þeirra sem ekki voru kristnir, einna helst gyðinga. Bókstafstrúaðir gyðingar gátu ekki, trúar sinnar vegna, unnið á laugardögum (sem er helgidagur þeirra) og var bannað af ríkinu að vinna á sunnudögum (helgidegi kristinna). Gyðingar og aðrir þeir sem héldu laugardaginn heilagan voru því neyddir til að taka sér frí í tvo daga í staðinn fyrir einn. Þetta þýddi augljóslega mikið óréttlátt fjárhagslegt tap sem menn gátu ekki sætt sig við til lengdar. Sama gildir um íslensk lög sem banna mönnum að vinna á jólum og páskum. Hvers vegna ætti þeim sem ekki taka helgidaga kristinna alvarlega að vera bannað samkvæmt lögum að vinna fyrir sér og veita þjónustu á þessum dögum? Sérhver maður hlýtur að sjá óréttlætið í slíku fyrirkomulagi.

,,Merkir aðskilnaður ríkis og kirkju að trúfélög og sóknir þjóðkirkjunnar innheimti sín meðlimagjöld sjálf? Þá myndu hinir sterku og ríku halda velli, svo og þeir sem geta þegið styrki frá erlendum trúboðum. Kirkjan í dreifbýlinu myndi vart lifa það af.“

Já að sjálfsögðu eiga trúfélög að sjá sjálf um að innheimta sín meðlimagjöld, rétt eins og öll þau áhuga- lífsskoðana félög sem starfrækt eru hér á landi. Ef menn geta starfrækt, bridgeklúbba, matvöruverslanir og myndbandaleigur í dreifbýli þá hljóta menn einnig að geta sinnt trú sinni og starfrækt trúfélög og kirkjur. Svo einfalt er það nú. Ef biskupi þykir ósanngjarnt að trúfélög rukki fyrir starfsemi sína sjálf þá hlýt ég að spyrja hvort honum þyki núverandi fyrirkomulag á einhvern hátt sanngjarnt. Í dag er lagður sérstakur trúskattur, ca. 6000 krónur [nú um 7200 krónur*], á alla landsmenn sem rennur í það trúfélag sem viðkomandi er skráður í. Ef einstaklingur stendur hins vegar utan trúfélaga rennur þessi peningur óskertur til Háskóla Íslands. Hér er því um sérstakan refsiskatt að ræða á þá sem ekki vilja tilheyra skráðu trúfélagi. Vegna tengsla ríkis og trúarbragða er trúleysingjum því gert skylt að greiða meira til menntunar en aðrir landsmenn þurfa að greiða. Hér er um raunverulegt óréttlæti að ræða.

Fjölmargt annað má týna til sem sýnir fram á það óréttlæti sem fylgir tengslum ríkis og kirkju en læt ég þetta nægja í bili. Af ofantöldu hlýtur mönnum þó að vera ljóst að aðskilnaður ríkis og kirkju er löngu orðinn tímabær.

Hvað getum við gert?
Að lokum langar mig til þess að benda lesendum á nokkrar leiðir til að taka þátt í baráttunni fyrir trúfrelsi á Íslandi:

Vekið athygli á mikilvægi trúfrelsis hvenær sem þið getið í fjölmenni og fjölmiðlum og bendið á það óréttlæti sem getur fylgt tengslum ríkis og kirkju. Verið dugleg að spyrja þá sem vilja stuðning okkar til að komast á þing hver afstaða þeirra til aðskilnaðar ríkis og kirkju sé. EKKI kjósa þá sem eru mótfallnir aðskilnaði. Skráið ykkur og takið þátt í grasrótarsamtökum sem berjast fyrir aðskilnaði (t.d. í SARK – Samtök um aðskilnað ríkis og kirkju, www.sark.is eða Siðmennt – Félag um borgaralegar athafnir).

Styttri útgáfa af þessari grein birtist í Morgunblaðinu 24. október 2002.

 

*Mars 2005

Deildu