Eineltisminningar 5: Veggurinn

Logo

Sigurður Hólm Gunnarsson

Sigurður Hólm Gunnarsson ritstjóri Skoðunar sem stofnað var þann 23. júní 1999.

26/03/2003

26. 3. 2003

,,Ég vildi óska þess að þeir myndu drepa mig“. Það er ljótt að segja það en þetta hugsaði ég stundum á grunnskólaárum mínum. Ég hef sagt það áður og ítreka það hér að það andlega ofbeldi sem ég upplifði í grunnskóla var margfalt verra og áhrifameira en það líkamlega. Sérstaklega þegar til lengri tíma er […]

,,Ég vildi óska þess að þeir myndu drepa mig“. Það er ljótt að segja það en þetta hugsaði ég stundum á grunnskólaárum mínum. Ég hef sagt það áður og ítreka það hér að það andlega ofbeldi sem ég upplifði í grunnskóla var margfalt verra og áhrifameira en það líkamlega. Sérstaklega þegar til lengri tíma er litið.

Það verður þó ekki litið fram hjá því að líkamlegur styrkur barna og getan til að berja frá sér hefur gríðarlega mikil áhrif á það hvort viðkomandi lendir í einelti eða ekki. Sérstaklega hjá strákum. Ef strákurinn er sterkur og á auðvelt með að berja frá sér eru minni líkur á því að honum verði strítt, því rétt eins og í alvöru styrjöld þá skiptir styrkur meira máli en réttlæti í þeim litlu styrjöldum sem eiga sér stað á skólalóðinni.

Ég var alltaf lítill og ræfilslegur og dauðhræddur við allt ofbeldi. Þó að ég teljist ágætlega hávaxinn í dag þá var ég þriðji eða fjórði minnsti strákurinn í bekknum þegar ég fermdist.

Líkamlegt ofbeldi átti sér oft stað og var mjög misjafnt. Stundum voru þetta bara einfaldar píningar þar sem nokkrir héldu manni og kitluðu eða tróðu einhverju óþægilegu ofan í hálsmálið á manni. Stundum fékk maður þó að finna fyrir kýlingum og spörkum. Það kom fyrir að manni var hrint niður stiga og einnig fékk maður af og til högg á viðkvæma staði.

Mér er t.d. minnisstætt þegar félagi minn, sem lenti í miklu einelti í gagnfræðiskóla, var einu sinni barinn af nokkrum ,,félögum“ okkar. Einn eða tveir héldu honum á meðan annar sparkaði af öllu afli í punginn á honum og síðan hrintu þeir honum niður harðar tröppur. Það þurfti að keyra hann upp á slysastofu. Ekki svo löngu síðar var sami vinur minn rekinn úr skólanum fyrir slæma mætingu…

Þó að ofbeldið hafi auðvitað í flestum tilfellum alls ekki verið lífshættulegt þá óttaðist maður samt reglulega um líf sitt, og stundum hafði maður ágætar ástæður til þess. Á tímabili var t.d. vinsælt að hóta okkur lúðunum að okkur skyldi hent niður af um tveggja metra háum vegg ef við hlýddum ekki í einu og öllu. Veggur af þessari hæð var sérstaklega skelfilegur þegar maður var krakki og augljóst er að ýmislegt hefði geta gerst ef hótanirnar hefðu orðið að veruleika. Ég átti það því til að vera hræddur um líf mitt, sem hlýtur að teljast fáránleg upplifun fyrir barn í grunnskóla. Þannig var það nú samt.

Samt sem áður var það ekki endilega líkamlega ofbeldið sem var verst heldur óttinn sem fylgdi því. Hræðslan við að verða laminn, niðurlægður og gerður að fífli.

Það var þessi ótti sem gerði það að verkum að það þurfti stundum nokkrar tilraunir til að komast heim úr skólanum. Nokkrar tilraunir til að finna útgönguleið sem ekkert hrekkjusvínið vaktaði. Nokkrar tilraunir til að komast heim án þess að sjást.

Eins og margir þeirra sem lent hafa í slæmu einelti vita þá líður fórnarlambinu stundum eins og að aðrir, foreldrar eða aðstandendur, geri sér ekki fyllilega grein fyrir því hvernig ástandið er. Það var held ég þess vegna sem ég vonaðist stundum til þess að ég yrði barinn það alvarlega að ég myndi lenda upp á sjúkrahúsi. Á slæmum dögum vonaðist ég jafnvel til að ég yrði drepinn. Þá loksins myndi fólk gera sér grein fyrir líðan minni, þá fyrst fengju ofbeldisseggirnir kannski makleg málagjöld…

Deildu