Heimspeki í heitum potti

Logo

Sigurður Hólm Gunnarsson

Sigurður Hólm Gunnarsson ritstjóri Skoðunar sem stofnað var þann 23. júní 1999.

16/05/2003

16. 5. 2003

Ég ákvað að skella mér í sund í líka þessu frábæra veðri í morgun. Það var hreint yndislegt að liggja í heita pottinum taka við ylnum frá lífsgjafanum okkar, sólinni. Ég var ekki einn í pottinum, þar voru líka tíu eldri konur á aldrinum 60-70+ sem ræddu saman um lífið og tilveruna. ,,María mey var […]

Ég ákvað að skella mér í sund í líka þessu frábæra veðri í morgun. Það var hreint yndislegt að liggja í heita pottinum taka við ylnum frá lífsgjafanum okkar, sólinni. Ég var ekki einn í pottinum, þar voru líka tíu eldri konur á aldrinum 60-70+ sem ræddu saman um lífið og tilveruna.

,,María mey var engin mey!“ sagði ein þeirra og spurði vinkonur sínar: ,,Trúir því einhver?“ Nei, engin þeirra sagðist trúa því. Ein sagði þetta augljóslega vera goðsögn á meðan önnur sagði að þetta hlyti að vera einhverskonar myndmál. Allar voru þær þó sammála því að ,,auðvitað“ hafi María ekki verið mey.

Það kom mér skemmtilega á óvart að heyra konur á þessum aldri tala svo gagnrýnið um trúarbrögð. Ég hef alltaf haft þá fordóma að flest ,,gamla“ fólkið sé afar trúað. Svo virtist ekki vera með þennan hóp. Þær fjölluðu áfram um trúarbrögð og hlógu að vitleysunni.

,,Ég held samt að það sé líf eftir dauðann,“ sagði ein þeirra. ,,…og ef svo er þá fer það bara eftir því hvernig þú hefur hagað þér hér á jörðinni hvernig líf þitt verður þar.“ Flestar tóku undir þessa speki. Enda mun fallegri heimsýn en sú kristna þar sem allir þeir sem trúa ekki blindni brenna í Helvíti.

Deildu