Trúarbrögð og siðferði á Bylgjunni

Logo

Sigurður Hólm Gunnarsson

Sigurður Hólm Gunnarsson ritstjóri Skoðunar sem stofnað var þann 23. júní 1999.

05/06/2003

5. 6. 2003

Þáttastjórnendur þáttarins Reykjavík síðdegis á Bylgjunni höfðu samband við mig í dag og báðu mig um að mæta í þáttinn til að fjalla um trúarbrögð, siðferði og réttindi almennings. Ástæðan er sú ég hafði samband við þá í gær með tölvupósti þar sem ég gerði athugasemd við umfjöllun þeirra um Íslam. Nýlega kom út íslensk […]

Þáttastjórnendur þáttarins Reykjavík síðdegis á Bylgjunni höfðu samband við mig í dag og báðu mig um að mæta í þáttinn til að fjalla um trúarbrögð, siðferði og réttindi almennings. Ástæðan er sú ég hafði samband við þá í gær með tölvupósti þar sem ég gerði athugasemd við umfjöllun þeirra um Íslam.

Nýlega kom út íslensk þýðing á Kóraninum, trúarbók múslima, og í tilefni af því spunnust upp umræður um þá trú og meintan ofbeldisboðskap og kvenfyrirlitningu sem Íslam boðar, að minnsta kosti ef marka má umfjöllun fjölmiðla.

Ég vildi benda þeim á að boðskapur Íslam er lítið frábrugðin þeim boðskap sem er að finna í Biblíunni, trúarbók kristinna, og það færi fremur eftir því samfélagi sem trúin er iðkuð hve ofstækið og ofbeldið væri mikið. Ofbeldi og fordóma er víða að finna í Biblíunni, rétt eins og í Kóraninum, en munurinn er sá að í hinum ,,kristna heimi“ ríkir tiltöluleg hófsemi í dag á meðan bókstafstrú ríkir víðs vegar í löndum múslima. Þetta hefur ekki alltaf verið svona. Það voru tímar þegar hófsemi ríkti í sumum löndum múslima á meðan ofstæki var allsráðandi í hinum kristna heimi. Áhugasamir getað hlustað á viðtalið á Bylgjunni hér.

Hér fyrir neðan birti ég bréfið sem ég sendi þáttastjórnendum Bylgjunnar:

______________
Sælir félagar,

Alltaf gaman að hlusta á þáttinn ykkar. Ég hlustaði á ykkur áðan þar sem þið voruð meðal annars að fjalla um Kóraninn og hvort að í þeirri bók væri að finna réttlætingar á hinum og þessum grimmdarverkum.

Sannleikurinn er sá að Kóraninn er uppfullur af réttlætingu á ýmiskonar ofbeldi. Það er ekki uppfinning bókstafstrúarmanna eins og margir vilja halda. Bókstafstrúarmenn, ólíkt hinum hófsömu, kjósa hins vegar að fara eftir boðum bókarinnar með hryllilegum afleiðingum. Það ku þó vera rétt að hvergi í Kóraninum er að finna boð um að konur hylji andlit sitt, svo best sem ég veit. Sama má segja um umskurð kvenna. Það er ekki múslímsk hefð, heldur hefð sem var útbreidd í þeim löndum þar sem Íslam náði fótfestu.

Það er mjög mikilvægt að gæta jafnræðis þegar rætt er um trúarbrögð og meintan boðskap þeirra. Menn hneykslast á því opinberlega hvað mikil ofbeldisdýrkun sé í Kóraninum en gleyma alveg að samskonar dýrkun er síst minni í Biblíunni, trúarbók kristinna. Það verður að minnast á þetta einnig. Annars er hætta á því að almenningur fyllist óþarfa fordómum gagnvart múslimum.

Það er beinlínis rangt að Íslam sé ,,verri” trúarbrögð en t.d. kristni. Fjölmiðlar og þar með almenningur hafa einfaldlega ákveðið að túlka það þannig. Líklegast vegna þess að þeir vita ekki betur.

Gleymum ekki að þrælahald, kúgun kvenna, dauðarefsingar við minnstu afbrotum (og ekki afbrotum) og margt annað ofbeldi var og er réttlætt með vísun í Biblíuna.

Sem dæmi sendi ég hér úrdrátt úr grein minni ,,Siðferði, trú og trúleysi”


,, 1. Áhrif trúarbragða
Ég tek það skýrt fram að ég er alls ekki þeirrar skoðunar að trúarbrögð hafi ekki haft áhrif á menningu, siðferði og líf manna. Þvert á móti hafa trúarbrögð haft gífurlega mikil áhrif á siðmenningu þjóða. Ég er hins vegar þeirrar skoðunar að sú siðmenning sem við búum við í dag sé ekki kristni að þakka, heldur tel ég þvert á móti að það tiltölulega umburðalynda lýðræðisþjóðfélag sem við búum við hafi orðið til þrátt fyrir áhrifa kristni en ekki vegna trúarbragðanna. Nokkur dæmi:

a) Frelsi – þrælaeign
Baráttumenn gegn þrælahaldi voru þeir sem trúðu ekki á heilagleika Biblíunnar eða voru trúleysingjar. Gott dæmi um þetta er Thomas Paine (1737-1809) sem var einn af þeim fyrstu sem barðist opinberlega gegn þrælahaldi í Bandaríkjunum og var hataður af klerkum, trúmönnum og þrælahöldurum fyrir vikið. Kirkjan var eitt helsta og öflugasta aflið sem barðist gegn því að þrælar yrðu frjálsir. Ekki af því þeir misskildu trúarbrögð sín heldur einfaldlega vegna þess að trúarbrögð kristinna réttlæta og mæla með þrælahaldi (sjá t.d.: Ex.21:2, Ex.21:7, Ex.21:20-21 ,Ex.22:3, Lev.22:11, Lev.25:39, Lev.25:44-46, Eph.6:5, Col.3:22, 1 Tim.6:1, Tit.2:9-10, 1 Pet.2:18)

b) Jafnrétti
Það nokkuð ágæta jafnrétti sem hinn vestræni heimur býr við í dag er heldur ekki kristni að þakka. Alls ekki. Það tók hinn kristna heim næstum því 2000 ár viðurkenna rétt kvenna til jafns við karla. Fyrir 50 árum síðan var staða konunnar mun verri en hún er í dag og fyrir ca. 200 árum var farið með kvenfólk nánast eins og búfénað í sumum tilvikum. Sorglegt en því miður satt. Meðal deilumála á frægum kirkjuþingum fram eftir öldum var hvort konur hefðu yfirleitt sálir. Kirkjan hefur aldrei verið fremst í baráttu fyrir jafnrétti og er það í raun mjög stutt síðan að konur fengu þann heiður að fá að starfa á jafnréttisgrundvelli í kirkjum. Taka ber þó fram að staða konunnar er enn slæm í mörgum svokölluðum bókstafstrúar samtökum. Réttlæting fyrir valdi karlmannsins yfir konunni er að finna á mörgum stöðum í Biblíunni. (sjá t.d.: 1 Cor.11:3, 1 Cor.14:34-36, Eph.5:22-24, Col.3:18, 1 Tim.2:11-15, 1 Pet.3:1)

c)Umburðarlyndi
Umburðarlyndi manna almennt hefur stóraukist á undanförnum árum, sem betur fer. Nú þarf fólk t.a.m. ekki að skammast sín eins mikið fyrir kynhneigð sína og minni líkur eru á því að samkynhneigðu fólki sé beinlínis beitt líkamlegu ofbeldi. Afstaða kirkjunnar og hinna trúuðu þekkjum við öll. Samkynhneigð er synd og allt samkynhneigða fólkið mun brenna í Helvíti. Eins og alltaf er kirkjan síðust til að aðlaga sig að breyttri heimsmynd þar sem frelsi, jafnrétti og umburðalyndi er meira áberandi en áður var. Rétt eins og var með réttindi kvenna eða þrælahald þá mun kirkjan verða síðust til að bera virðingu fyrir samkynhneigðum. Við búum á nokkuð merkum tímamótum því fjölmargir kristnir fordæma enn samkynhneigð með tilvísunum í Biblíuna rétt eins og félagar þeirra gerðu til forna til að réttlæta þrælahald. (sjá t.d.: 1. Mós.13:13, 19:4-5, 24-25, 3. Mós. 18:22, 20:13, 1 Sam.18:1-4, 19:1-7, 20:30-42, 2 Sam.1:26. 1 Konungsbók: 14:24, 22:43, 46, 15:11-12. Jóskuab. 23:7, Jesaja.3:9, 3:3 Róm., 1 Tím., Rom.1:26-27, 1 Tim.1:10, 1 Kor.6:9-10, Dómarabókin 7,Opinb.22:15)

d) Þekking, vísindi, framþróun
Þekking var litin hornauga á miðöldum undir stjórn kirkjunnar. Bækur voru brenndar og höfundar þeirra oft einnig. Öll þekking sem ekki var að finna í Biblíunni var frá djöflinum komin o.s.frv. Þið þekkið þessar staðreyndir líklegast sjálf. Fáfræði vegna trúarbragða hefur því haft geypileg mikil áhrif á menningu þjóða.

Þetta er orðin ágæt upptalning. Hún er alls ekki tæmandi en ætti að gefa þér innsýn í það sem ég er að reyna að segja. Kristni ber alls ekki ábyrgð á því velferðarsamfélagi (siðmenningu) sem við búum við í dag. Siðfræði okkar er ekki heldur trúnni að þakka.

2. Hvaðan kemur siðferði?
Siðferði manna varð vitaskuld ekki til af sjálfsdáðum. Það spratt ekki úr engu. Í stuttu máli má segja siðferðisreglur verði til vegna reynslu og skilnings manna á því hvernig best sé að lifa. Góðar siðferðisreglur gera líf okkar hamingjusamara og lengra. Siðferði byggist því fyrst og fremst á skynsemi en ekki boðum og bönnum. Gullna reglan er t.d. ágæt því hún segir að maður eigi að koma fram við aðra eins og maður vill að aðrir komi fram við mann sjálfan. Þessi regla á mjög oft við vegna þess einmitt að hún er byggð á skynsemi. (Enda sagði Confúsíus þetta u.þ.b. 500 árum fyrir okkar tímatal).”


Nánari upplýsingar um þessi málefni er hægt að finna á www.skodun.is t.d. í eftirfarandi greinum:

Ítarefni
Áhugaverð síða um ofbeldi og fordóma í Biblíunni:
http://skepticsannotatedbible.com/

Áhugaverð síða um umburðarlyndi gagnvart ólíkum trú- og lífsskoðunum:
http://www.religioustolerance.org/

______________

Sjá nánar viðtalið á Bylgjunni 4. júní 2003.

Deildu