Ranghugmyndir um borgaralegar fermingar

Logo

Sigurður Hólm Gunnarsson

Sigurður Hólm Gunnarsson ritstjóri Skoðunar sem stofnað var þann 23. júní 1999.

11/08/2003

11. 8. 2003

Margir hafa gagnrýnt Siðmennt fyrir að reyna að stela fermingunni frá kirkjunni. Byggist þessi ranghugmynd á því að margir halda að ferming sé sérstaklega kristilegt fyrirbæri, sem er rangt. Einnig eru þeir sem kjósa að fermast borgaralega stundum sakaðir um að vera hræsnarar. Sem einnig er alrangt. Þeir sem kjósa borgaralega fermingu* gera það þvert […]

Margir hafa gagnrýnt Siðmennt fyrir að reyna að stela fermingunni frá kirkjunni. Byggist þessi ranghugmynd á því að margir halda að ferming sé sérstaklega kristilegt fyrirbæri, sem er rangt. Einnig eru þeir sem kjósa að fermast borgaralega stundum sakaðir um að vera hræsnarar. Sem einnig er alrangt. Þeir sem kjósa borgaralega fermingu* gera það þvert á móti oftast af mjög virðingarverðum ástæðum.

Hvað er ferming?
Áhugavert er að lesa svar á Vísindavefnum við spurningunni ,,Hver er uppruni fermingarinnar?“ Þar segir m.a.:

,,Fermingin er eins konar ungmennavígsla og sem slík er hún sennilega jafn gömul mannlegu samfélagi. Félagshópar, fjölskyldur og þjóðfélög aðgreina stöðu og hlutverk einstaklinga á margvíslegan hátt með siðum og venjum til þess að tryggja félagslega reglu og samhæfða verkaskiptingu.

Unglingavígslan tengist kynþroskatímabilinu og táknar það að einstaklingurinn er ekki lengur barn heldur ungmenni sem mætir í alvöru viðfangsefnum hinna fullorðnu og öðlast bæði réttindi og skyldur.

Það er eins og það sé innbyggt í samfélög manna að þessi tímamót verði eftirminnileg. Alvaran sem fylgir vígslunum undirstrikar félagslegt mikilvægi þeirra en þeim fylgir einnig hátíð og samfagnaður sem fjölskyldan og samfélagið sem slíkt á aðild að. Í samfélögum þar sem einhæf verkaskipting ríkir er vígsluatferlið (fr. rites de passage) auðþekkt og vel skilgreint og í samfélögum þar sem miklar breytingar eiga sér stað getur það þróast og fengið nýtt hlutverk.“

Aðstandendur borgaralegra ferminga eru því ekki að reyna að líkja eftir kirkjulegri fermingu eins og ýmsir gagnrýnendur Siðmenntar hafa haldið fram. Kirkjuleg ferming er þvert á móti athöfn sem kristnir trúarhópar hafa búið til í kringum ævaforna og alþjóðlega vígsluathöfn þar sem börn eru tekin í fullorðinna manna tölu. Í raun er það því kirkjan sem hefur stolið fermingunni, en ekki öfugt.

Hræsni eða heiðarleiki?
Grátlegasta og jafnframt ómálefnalegasta gagnrýnin sem heyrist um borgaralegar fermingar er þegar þeir sem kjósa hana fram yfir þá kirkjulegu eru sakaðir um hræsni. Ósjaldan hafa aðstandendur Siðmenntar heyrt fólk segja: ,,Hvers vegna er fólk sem trúir ekki að fermast?“; ,,Hvað er þetta fólk að staðfesta í borgaralegri fermingu?“; ,,Þeir sem kjósa borgaralega fermingu eru bara að gera það fyrir pakkana“.

Staðreyndin er hins vegar sú að flestir þeir sem taka þátt í borgaralegri fermingu gera það til að koma í veg fyrir hræsni. Yfirleitt eru þetta krakkar sem vilja taka þátt í manndómsvígslu eins og allir aðrir en án þess þó að ljúga til um trú sína á guð og önnur æðri máttarvöld. Það er aðeins tvennt sem er krafist af börnum sem taka þátt í borgaralegri fermingu: Það er að þau virði rétt annarra til að vera öðruvísi og að þau verða að vera heiðarleg.

Hve oft ætli prestar ítreki það við börn í fermingafræðslu að þau eigi alls ekki að fermast nema þau séu viss um að þau trúi á hinn þríeina Guð og að Jesús sé sonur Guðs sem hafi verið krossfestur til að þeir sem trúa á hann geti öðlast eilíft líf?

Hve oft ætli prestar segi við börnin ,,Ef þið trúið þessu ekki ættuð þið alls ekki að fermast.“? Ef marka má frásagnir fermingarbarna gerist það ekki oft. Þrátt fyrir þetta eru menn almennt sammála um að það sé ósiðlegt að ljúga, að sjálfum sér og öðrum. Auk þess hefði maður haldið að ekki væri hægt að ljúga að guði. Hins vegar eru mörg dæmi um að börn séu beinlínis hvött til þess að fermast kirkjulega, þrátt fyrir að þau hafi lýst því yfir að þau séu ekki trúuð. Samfélagið þrýstir mjög á að allir fermist, hvort sem trú er til staðar eða ekki. Því miður eru börn stundum neydd, með samfélagslegum þrýstingi, til að ljúga að sjálfum sér og öðrum. Það er afar sorglegt.

Þau börn sem hafa kosið að fermast hjá Siðmennt telja sig fæst vera trúlaus. Sum þeirra eru einfaldlega ekki kristinnar trúar en hafa jafn mikla þörf og aðrir til að taka þátt í þessari ævafornu manndómsvígslu. Mörg þeirra eru til dæmis búddistar eða annarar trúar. Önnur eru ekki viss um hverju þau trúa. Til að mynda hafa börn presta fermst borgaralega, sérstaklega í þeim tilgangi að losna við að þurfa að ljúga að sjálfum sér og öðrum. Það að ungt fólk skuli taka svo ábyrga afstöðu er aðdáunarvert og því sorglegt þegar fólk gerir lítið úr þessari afstöðu þeirra.

Það er mikilvægt að eiga val. Þess vegna er tilvist borgaralegra ferminga mikilvæg fyrir íslenskt samfélag.

*Orðið ferming er dregið að latneska orðinu ,,confirmare“ sem táknar m.a. ,,að styrkjast“ eða ,,að styðja“.

Deildu