Jafnrétti eða óréttlæti?

Logo

Sigurður Hólm Gunnarsson

Sigurður Hólm Gunnarsson ritstjóri Skoðunar sem stofnað var þann 23. júní 1999.

21/04/2004

21. 4. 2004

Mikil umræða hefur átt sér stað síðustu daga um jafnrétti kynjanna. Sem betur fer eru nánast allir í dag hlynntir jafnrétti kynjanna en menn hafa þó afar ólíkar skoðanir á hvort ríkisvaldið eigi að beita sértækum aðgerðum til að ná fram jafnrétti og þá til hvaða aðgerða eigi að grípa til að ná settu markmiði. […]

Mikil umræða hefur átt sér stað síðustu daga um jafnrétti kynjanna. Sem betur fer eru nánast allir í dag hlynntir jafnrétti kynjanna en menn hafa þó afar ólíkar skoðanir á hvort ríkisvaldið eigi að beita sértækum aðgerðum til að ná fram jafnrétti og þá til hvaða aðgerða eigi að grípa til að ná settu markmiði. Hægri íhaldsmenn hafa sagt jafnréttislögin úrelt, jafnvel „barn síns tíma“ og aðrir segja að það sé rangt að koma á réttlæti (jafnrétti) með óréttlæti (jákvæðri mismunun).

Er jákvæð mismunun alltaf óréttlát?
Auðvitað er það óréttlátt að hæfur karlmaður sé látinn víkja fyrir jafnhæfri konu bara vegna þess hann er af „röngu“ kyni. Þetta sjá allir. Það þýðir samt ekki að jákvæð mismunun sé alltaf siðferðilega röng. Góð og gild rök eru til fyrir ákveðinni tegund af jákvæðri mismunun. Málið er ekki eins svart-hvítt eins og talsmenn andstæðra fylkinga láta stundum eins og það sé.

Það virðist oft gleymast að konur hafa þurft að sæta óréttlæti svo öldum skiptir. Nánast frá upphafi samfélaga hafa konur verið kúgaðar af karlmönnum. Í sögulegu samhengi er í raun örstutt síðan hætt var að fara með konur eins og eignir, útungunarvélar eða eins og þræla. Þetta verðum við að hafa hugfast þegar rætt er um aðgerðir til að koma á jafnrétti. Konur búa vissulega við lagalegt jafnrétti í dag en er það nóg? Hægt er að svara þessari spurningu bæði játandi og neitandi með fullri samvisku.

Er lagalegt jafnrétti það sama og raunverulegt jafnrétti?
Menn geta rökstutt að þar sem lagalegt jafnrétti sé til staðar sé í raun ekkert sem beinlínis banni konum að ná sömu stöðu í samfélaginu og karlar. Það er rétt, en með sömu rökum má segja að það er ekkert sem bannar manni í hjólastól að ganga upp stiga. Það eru engin lög sem banna honum það en af einhverjum ástæðum getur hann það samt ekki, eða á í það minnsta afar erfitt með það. Svo undarlega vill nefnilega til að stigar eru smíðaðir með fullfrískt fólk í huga og því eiga fatlaðir afar erfitt með að nota þá.

Sama má segja um stöðu konurnar. Vegna sögulegs ójafnréttis er ótal margt í umhverfi okkar sem gerir konum erfiðara að klifra upp metorðastigann en körlum. Hvort sem við viljum vita það eða ekki þá er samfélag okkar afar karllægt. Stjórnkerfið, og þar með valdastöður, er mikið til byggt upp af körlum fyrir karla. Þó að engin lög beinlínis banni konum í dag að taka þátt í samfélaginu af fullum krafti þá eiga þær, meðal annars af ofangreindum ástæðum, erfiðara með það.

Ef engin lög eru sett um jöfn laun karla og kvenna og ef engar sértækar aðgerðir eru notaðar til að auka hlut kvenna í stjórnunarstöðum eða í stjórnmálum má búast við að þróunin í átt að raunverulegu jafnrétti muni taka afar langan tíma.

Þá er hægt að spyrja: Er það sanngjarnt að dætur okkar þurfi að alast upp við þá framtíðarsýn að litlar líkur séu á því að þær verði metnar til jafns við karla vegna sögulegra aðstæðna? Ég held ekki.

Auðvitað er þá líka hægt að spyrja: Er rétt að notast við jákvæða mismunun sem kemur niður á saklausum körlum? Ég held að svarið við þessari spurningu geti einmitt verið já!

Yfirburðir karla í launum, hvað varðar stjórnunarstöður og hvað varðar áhrif hafa nefnilega ekkert að gera með eðlislæga yfirburði karlkynsins. Ástæðan fyrir ofangreindum yfirburðum karla er nefnilega sú sama og ástæðan fyrir stöðu konunnar. Ástæðan er söguleg. Þegar verið er að „brjóta rétt“ karla með jákvæðri mismunun er einfaldlega verið að reyna að flýta fyrir því að raunverulegt jafnrétti náist á milli kynjanna. Höfum það hugfast.

Tímabundnar aðgerðir
Ef réttlæta á aðgerðir yfirvalda sem byggjast á jákvæðri mismunun verður að hafa það í huga að slíkar aðgerðir eiga alltaf að vera tímabundnar. Ég viðurkenni þó að sértækar aðgerðir sem þessar geta verið ansi snúnar. Hvenær á að hætta jákvæðri mismunun? Hvenær hefur raunverulegu jafnrétti verið náð? Hver ákveður það?

Tímabundnar aðgerðir eiga það til að verða ansi langlífar, sumar jafnvel eilífar. Þess vegna er bæði hollt og skynsamlegt að fara varlega út í slíkar aðgerðir. Það þarf að skilgreina markmiðin vel, tilgangur laganna þarf að vera skýr og helst ætti að fylgja öllum slíkum lögum ákvæði sem segir til um hvenær lögin eru orðin óþörf og það megi því þau niður.

Deildu