Ríkisskipuð nefnd segir trúfélagi fyrir verkum

Logo

Sigurður Hólm Gunnarsson

Sigurður Hólm Gunnarsson ritstjóri Skoðunar sem stofnað var þann 23. júní 1999.

06/09/2004

6. 9. 2004

“Nefnd um réttarstöðu samkynhneigðra sem forsætisráðherra skipaði fyrir ári hvetur þjóðkirkjuna til að breyta afstöðu sinni gagnvart hjónaböndum samkynhneigðra þannig að samkynhneigðir geti fengið kirkjulega vígslu eins og annað fólk.” * Það er eitthvað kjánalegt, og um leið afar óviðeigandi, við að nefnd á vegum ríkisins skuli taka upp á því að segja hinni Evangelísku […]

“Nefnd um réttarstöðu samkynhneigðra sem forsætisráðherra skipaði fyrir ári hvetur þjóðkirkjuna til að breyta afstöðu sinni gagnvart hjónaböndum samkynhneigðra þannig að samkynhneigðir geti fengið kirkjulega vígslu eins og annað fólk.” *

Það er eitthvað kjánalegt, og um leið afar óviðeigandi, við að nefnd á vegum ríkisins skuli taka upp á því að segja hinni Evangelísku lútersku kirkju fyrir verkum. Samkvæmt Biblíunni er samkynhneigð synd og það er út í hött að ríkið skipti sér af því hvernig lúterstrúarmenn iðka og boða trú sína.

Verksvið hins opinbera á að vera að tryggja að allir séu jafnir fyrir lögum. Þess vegna er ólíðandi að kynhneigð fólks hafi áhrif á lagaleg réttindi þess. Einkalíf og fjölskylduform einstaklinga kemur stjórnvöldum ekki við. Hjónaband er samningur tveggja (eða fleiri?) fullorðinna einstaklinga og hafa stjórnvöld engan rétt á því mismuna fólki eftir því hvernig fjölskylduform það kýs að búa við.

Hér áður tíðkaðist það að banna einstaklingum af ólíkum uppruna að ganga í hjónaband og núna er réttarstaða fólks mismunandi eftir því hvaða kynhneigðar það er. Í gamla daga var það “ógn við samfélagið” og “kristilegt siðferði” ef “hvítur” maður giftist “svartri” konu eða öfugt. Í dag vilja sumir meina að heimsendir sé í nánd ef samkynhneigðir fá sömu lagalegu stöðu og “venjulegt” gagnkynhneigt fólk.

Í réttlátu samfélagi eiga ekki að vera til sérlög fyrir svarta, hvíta, gula, ljósbrúna, freknótta, gagnkynhneigða, samkynhneigða eða konur og karla. Enda skulu allir “vera jafnir fyrir lögum og njóta mannréttinda án tillits til kynferðis, trúarbragða, skoðana, þjóðernisuppruna, kynþáttar, litarháttar, efnahags, ætternis og stöðu að öðru leyti.” **

Jafnrétti = aðskilnaður ríkis og kirkju
Vegna þess að við búum ennþá við það miðaldarfyrirkomulag að hafa sérstaka ríkiskirkju gera margir ráð fyrir því að yfirvöld hafi einhvern rétt á því að skipa Þjóðkirkjunni fyrir. Þetta er misskilningur. Ef stjórnmálamenn vilja berjast fyrir jafnrétti og réttlæti er eðlilegast að aðskilja ríki og kirkju, tryggja öllum jafnan lagalegan rétt (m.a. til sambúðar, ættleiðingar o.s.frv). og um leið tryggja rétt trúfélaga til að boða hvaða trú sem þeim sýnist.

Hin Evangelíska lúterska kirkja hlýtur að hafa fullan rétt á því að mismuna fólki eins og henni sýnist. Ef einstaka meðlimir lútersku kirkjunnar eru eitthvað ósáttir við þær trúarkenningar sem kirkjan stendur fyrir geta þeir hinir sömu einfaldlega sagt sig úr kirkjunni og endurskoðað trúarsannfæringu sína.

*Samkynhneigðir fái vígslu prests – Bylgjan 6. september 2004
**Stjórnarskrá lýðveldisins Íslands

Deildu