Með tárin í augunum

Logo

Sigurður Hólm Gunnarsson

Sigurður Hólm Gunnarsson ritstjóri Skoðunar sem stofnað var þann 23. júní 1999.

08/09/2005

8. 9. 2005

Það er hálf kómískt að sjá hvern sjálfstæðismanninn á eftir öðrum með tárin í augunum þessa dagana. Foringinn er hættur og viðbrögðin jafnast á við smækkaða útgáfu af þeirri einræðisherralotningu sem er svo algeng í ríkjum þar sem kommúnisminn blómstrar. Hafið þið til dæmis ekki séð fréttamyndir frá Norður-Kóreu þar sem borgarar landsins keppast við […]

Það er hálf kómískt að sjá hvern sjálfstæðismanninn á eftir öðrum með tárin í augunum þessa dagana. Foringinn er hættur og viðbrögðin jafnast á við smækkaða útgáfu af þeirri einræðisherralotningu sem er svo algeng í ríkjum þar sem kommúnisminn blómstrar. Hafið þið til dæmis ekki séð fréttamyndir frá Norður-Kóreu þar sem borgarar landsins keppast við að mæra foringjann og þakka honum fyrir allt hið góða í lífi þeirra? Oft með tárin í augunum.

Nú er Davíð eflaust ágætis kall. Ég þekki hann ekki persónulega en hann virðist vera skemmtilegur karakter og örugglega vinur vina sinna. En er hann (eða á maður að segja var?) sérstaklega merkilegur stjórnmálamaður? Það hefur mér ekki fundist. Ég hef aldrei náð því fyrir hvaða hugmyndafræði maðurinn berst og mér hefur nánast aldrei þótt hann segja neitt sérstaklega merkilegt. Hann hefur sagt margt fyndið og krassandi, en sjaldan eitthvað merkilegt.

Auðvitað hafa lífskjörin batnað í tíð Davíðs Oddssonar. Þó það nú væri. En ætlar fólk virkilega að vera svo barnalegt að það sé allt (eða að mestum hluta) honum að þakka? Hvað með þjóðarsáttina, þátttöku Íslands í EES og hina almennu þróun í Vestur Evrópu í átt til aukins frelsis?

Ég ætla ekki að reyna að halda því fram að Davíð hafi ekki gert neitt gott, hann hefur átt nokkra ágæta spretti. Það breytir því ekki að mér þykir hann einfaldlega ekkert stórmerkilegur stjórnmálamaður.

Annars óska ég Davíð velgengni og hamingju á nýjum starfsvettvangi.

Deildu