Skapaði Guð heiminn?

Logo

Sigurður Hólm Gunnarsson

Sigurður Hólm Gunnarsson ritstjóri Skoðunar sem stofnað var þann 23. júní 1999.

01/02/2006

1. 2. 2006

Opið bréf sem ég sendi þáttastjórnendum í Íslandi í bítið vegna umræðu sem var í þættinum í morgun. Sælir kæru þáttarstjórnendur. Mig langar til að benda ykkur á nokkrar staðreynda- og rökvillur sem komu fram i umræðum ykkar um hvort Guð hafi skapað heiminn. Ef markmiðið með umræðunum í dag var að fræða áhorfendur þá […]

Opið bréf sem ég sendi þáttastjórnendum í Íslandi í bítið vegna umræðu sem var í þættinum í morgun.

Sælir kæru þáttarstjórnendur.

Mig langar til að benda ykkur á nokkrar staðreynda- og rökvillur sem komu fram i umræðum ykkar um hvort Guð hafi skapað heiminn. Ef markmiðið með umræðunum í dag var að fræða áhorfendur þá tel ég að þið eigið að gefa ykkur tíma til að fjalla um þessar athugasemdir.

Fullyrðing: Það eru svo litlar líkur á því að líf orðið til fyrir tilviljun að Guð hlýtur að hafa skapað heiminn!

Svar 1a:
Líf þróast alls ekki fyrir tilviljun. Enginn líffræðingur heldur því fram. Lífið eins og við þekkjum það í dag þróaðist með náttúruvali (natural selection) og náttúruval er andstæðan við tilviljun. Ég mæli með því að þið fáið líffræðing til ykkar til að útskýra þróunarkenninguna fyrir ykkur á áhorfendum á stuttum tíma.

Svar 1b:
Í sumum happadrættum eru líkurnar á því að vinna 1 á móti “ótrúlega hárri tölu” (milljón, milljarði, ad infinitum…). Ef einstaklingur vinnur í happadrætti getur hann sagt “líkurnar á því að ég hafi unnið í þessu happadrætti eru svo litlar að það hlýtur að vera einhver vilji á bak við vinninginn. Hvers vegna vann ég þegar líkurnar á að einhver annar, eða enginn, hafi unnið eru miklu meiri? Einhver skynsöm vera, happadrættisskapari, hlýtur að hafa ákveðið og séð til þess að ég hafi unnið!”

Þetta er klassísk rökvilla sem fjallar um það þegar menn hugsa um líkur á að eitthvað gerist, eftir að það gerist. Tökum dæmi af ykkur. Líkurnar á því að þið, kæru þáttarstjórnendur, skulið vera í þeirri stöðu sem þið eruð í núna (þáttastjórnendur á Stöð 2) eru svo litlar að ég efast um að ég kunni nógu háa tölu til að fjalla um líkurnar. Til dæmis eru þið bæði háð því að foreldrar ykkar hafi hitt hvort annað og átt náin samskipti. Þið eruð svo háð því að af um 300 milljón sáðfruma sem urðu til við þessi nánu samskipti hafi sú eina sáðfruma sem innihélt ykkar erfðaefni orðið fyrir “valinu”. Svona mætti halda áfram nánast endalaust með því að minnast á ótal atvik sem hafa haft áhrif á líf ykkar fram til dagsins í dag. Allt atvik sem voru nauðsynlegar forsendur þess að þið eruð þáttarstjórnendur í Íslandi í bítið í dag. Við getum líka farið aftur í tímann og fjallað um kynni ömmu ykkar og afa, langömmu og langafa ad infinitum. Líkurnar á tilveru ykkar í dag eru því miklu, miklu, minni en líkurnar á því að ég vinni í víkingalottó í næstu viku. Eins og þið sjáið hefur svona líkindareikningur því ekkert að segja um það hvort Guð skapaði heiminn (eða skipulagði starfsferil ykkar í Íslandi í bítið).

Sama má segja um lífið í alheiminum. Líkurnar eru litlar, en í risastórum alheimi* og á óralöngum tíma** er alls ekki svo ólíklegt að líf hafi kviknað. Það að við höfum unnið í lottói lífsins og erum því með þeim fáu sem hafa meðvitund og getum hugsað um tilurð heimsins segir ekkert til um það að einhver skapari hafi skapað okkur.

Svar 1c:
Ef lífið er svo flókið og magnað að eina útskýringin sé sú að einhver Guð hafi skapað lífið þá hlýtur einhver að hafa skapað Guð líka. Guð, samkvæmt öllum skilgreiningum, er flóknari og merkilegri en heimurinn og lífið sem hann á að hafa skapað. Því er enn meiri ástæða til þess að ætla að Guð eigi sér skapara en að heimurinn eigi sér skapara.

Með því að útskýra lífið og heiminn með Guði er því eins og að reyna útskýra ráðgátu (tilurð heimsins og lífsins) með enn stærri ráðgátu (Guði). Ég get orðað þetta aðeins öðruvísi. Með því að útskýra lífið með Guði er verið að útskýra eitthvað sem við vitum lítið*** um með einhverju sem við vitum ekkert**** um.

*Það eru fleiri stjörnur (sólir) í heiminum en sandkorn á öllum ströndum Jarðarinnar. Talið er að fjöldi vetrarbrauta í alheiminum sé um hundrað þúsund milljónir og í hverri að finna um 100 milljarða stjarna (sóla).

**Heimurinn varð til fyrir um 10 til 20 milljörðum ára og sólkerfi okkar formaðist fyrir um 4.5 milljörðum ára.

***Þrátt fyrir alla okkar þekkingu, sem hefur vaxið ótrúlega hratt á stuttum tíma, vitum við líklegast afar lítið um lífið.

****Guð er bara þriggja stafa orð sem menn skilgreina misjafnt eftir hentugleika og menningarsvæðum.

Vonandi takið þið þessum athugasemdum vel! 🙂

Deildu