Umfjöllun Viðskiptablaðsins um trúleysi svarað

Logo

Sigurður Hólm Gunnarsson

Sigurður Hólm Gunnarsson ritstjóri Skoðunar sem stofnað var þann 23. júní 1999.

15/07/2007

15. 7. 2007

Eftir að hafa lesið nokkrum sinnum í gegnum grein Viðskiptablaðsins um trúleysi (sem birt var í blaðinu á föstudaginn) kemst ég ekki hjá því að gera nokkrar athugasemdir. Umfjöllunin var oft á tíðum villandi og í æsifréttastíl. Með þessum athugasemdum vil ég ekki endilega meina að blaðamaðurinn hafi gefið viljandi villandi mynd af trúleysingjum. Mér […]

Eftir að hafa lesið nokkrum sinnum í gegnum grein Viðskiptablaðsins um trúleysi (sem birt var í blaðinu á föstudaginn) kemst ég ekki hjá því að gera nokkrar athugasemdir. Umfjöllunin var oft á tíðum villandi og í æsifréttastíl. Með þessum athugasemdum vil ég ekki endilega meina að blaðamaðurinn hafi gefið viljandi villandi mynd af trúleysingjum. Mér þykir það frekar ólíklegt. Ýmislegt var þó villandi í umfjölluninni og hef ég því ákveðið að birta helstu athugasemdir mínar hér:

1. Fyrirsögn greinarinnar er kjánaleg og afar villandi
Eftir að hafa átt um klukkutíma langt samtal við blaðamanninn um afstöðu húmanista almennt (Siðmennt, SAMT) og afstöðu mína sérstaklega til trúleysis er ótrúlegt að sjá fyrirsögnina: „Trú, von og kærleikur – geðsýkislegar ranghugmyndir“. Ekkert sem ég sagði bendir til þess að ég telji að trú sé „geðsýkisleg ranghugmynd“. Þar sem ég er fyrsti viðmælandinn undir þessari fyrirsögn geta eflaust margir dregið þá vondu ályktun að ég sé þessarar skoðunar. Þetta þykir mér beinlínis meiðandi.

Birgir Baldursson, sem er einn af aðstandendum Vantrúar, segir reyndar í viðtalinu að honum þyki sumar ranghugmyndir trúarbragðanna „geðsýkislegar“. Fyrirsögnin er engu að síður villandi því Birgir er að tala um „ódæði sem hafa framin verið í nafni trúarbragðanna, svo sem galdraofsóknir og krossferðir kristinna manna“. Fyrirsögnin gefur til kynna að Birgi þyki „von og kærleikur“ vera „geðsýkislegar ranghugmyndir“. Þetta er auðvitað fáránleg túlkun.

2. Undirfyrirsögnin er ekki síður villandi
„Íslendingar sem trúa ekki á guð hafa stofnað félög og fara mikinn gegn trúarbrögðunum, sem þeir kalla hindurvitni og saka um að bera ábyrgð á eymd heimsins.“

Aftur sagði ég aldrei að trúarbrögð væru „hindurvitni“ og enn síður að þau bæru ábyrgð á allri „eymd heimsins“ eins og gefið er í skyn. Aðrir trúleysingjar nota orðalag af þessu tagi en óþarfi er að eigna öllum trúleysingjum þessa skoðun. Þar að auki veit ég að harðorðustu trúleysingjar hér á landi eru alls ekki þeirrar skoðunar að trúarbrögðin beri ábyrgð á allri eymd heimsins. Að halda slíku fram er þvættingur. Það getur þó hvaða manneskja sem er (óháð trúarafstöðu) séð að bókstafstrú hefur valdið, og veldur enn, mikilli eymd víðs vegar um heiminn. Þegar trúleysingjar svo leyfa sér að gagnrýna þessi augljósu áhrif bókstafstrúar er snúið út úr orðum þeirra þeir gerðir sjálfkrafa að ofstækismönnum sem kenna trúarbrögðum um allt illt.

3. Guðsteiknimyndir í skopmyndastíl
Ég hef svosem ekkert á móti skopmyndum en mér þykir undarlegt að ætla að ræða um trúmál, eins viðkvæm og slík umræða oft er, og skreyta greinina með barnalegum skopmyndum af guðum og trúartáknum. Þetta er ekki alvarlegt atriði en ég leyfi mér engu að síður að gera athugasemd við slíka framsetningu. Sérstaklega í ljósi þess að innihald greinarinnar er ekkert grín.

4. Snúið út úr lýsingu á starfsemi SAMT og Siðmenntar
Í viðtalinu (þeim hluta sem ekki er birtur í Viðskiptablaðinu) berst tal okkar að þeirri skoðun margra að trúleysi sé í raun álíka mikil trú og guðstrú. Ég svara þessu á þann hátt að það sé orðaleikur að segja að vantrú á eitthvað fyrirbæri sé í raun trú. Ég bendi á að það geti varla kallast trú að trúa ekki á álfa og huldufólk. Ég bæti svo við að það að trúa ekki á Guð geti ekki verið trú frekar en það að safna ekki frímerkjum er áhugamál. Augljóst og einfalt. Blaðamaðurinn notar svo þessa samlíkingu til þess að gefa í skyn (viljandi eða óviljandi) að það séu þversagnir í málflutningi mínum:

„En engu að síður er þessi svokallaða ekki-frímerkjasöfnun nokkuð sem Sigurður hefur gert að veigamiklum þætti í félagslíf sínu og raunar snúið upp í réttindabaráttu.“

Blaðamaðurinn veit að það er ekki trúleysið (ekki-frímerkjasöfnunin) sem er áhugamál hjá mér heldur réttindabaráttan og ánægjan sem fylgir því að hitta fólk með svipaðar lífsskoðanir. Eins og greinin er sett upp álykta eflaust margir að þar sem ég hafi áhuga á starfi Siðmenntar sé trúleysi mitt í raun orðið að trú. Ég ítreka það því hér að vísun mín í „ekki-frímerkjasöfnun“ á við um trúleysið sem slíkt, ekki starfsemi félagasamtaka sem byggja á húmanískum lífsskoðunum.

5. Trúleysingjar og barnaleg vísindahyggja
Eftir lestur greinarinnar fæ ég þá tilfinningu að trúleysingjar séu almennt með óbilandi trú á vísindum og telji nútímavísindi upphaf og endir alls. Ergo: trúleysingjar aðhyllast barnalega vísindahyggju.

Þetta er ekki rétt, í það minnsta ekki hvað mig sjálfan varðar. Þetta tók ég reyndar skýrt fram í viðtalinu (sem ekki var birt). Þetta er nokkurn veginn það sem ég sagði við blaðamanninn: „Heimurinn er margbrotinn og undarlegur og það er ótalmargt í eðli hans sem við skiljum ekki. Þannig getur vel verið að allskyns fyrirbrigði sem við teljum yfirnáttúruleg í dag séu til án þess að við vitum af því. Trúleysi gengur út á það að geta gefið svarið „ég veit ekki“ við erfiðum spurningum um lífið og tilveruna. Trúaðir einstaklingar eiga það til að svara erfiðum spurningum án nokkurra gagnreyndra raka á meðan trúleysingjar viðurkenna fávisku sína og segja „ég veit það ekki“ þegar það á við. Trúleysingjar (sem ég þekki til) eru þó almennt þeirrar skoðunar vísindaleg vinnubrögð og gagnrýnin hugsun reynist best til að reyna að skilja heiminn. Þegar þessi tól geta ekki veitt okkur nein haldbær svör höldum við áfram að leita en vörumst ótímabærar ályktanir“

Með öðrum orðum tók ég skýrt fram að ég tel vísindin ekki hafa fært okkur neinn stórasannleik um lífið og tilveruna. Vísindalegar aðferðir eru einungis þau bestu tæki sem við höfum til að afla upplýsingar um alheiminn.

6. Richard Dawkins er ókrýndur leiðtogi trúleysishreyfingarinnar
Því er haldið fram í grein Viðskiptablaðsins að þróunarlíffræðingurinn Richard Dawkins sé einhver leiðtogi lífs allra trúleysingja. Þetta er auðvitað alrangt. Margoft hef ég til að mynda átt í misheitum umræðum um kosti og galla á málflutningi Dawkins. Ef ég mætti velja mér einhverjar fyrirmyndir væru þær menn á borð við Carl Sagan (húmanisti og vísindamaður) og Thomas Paine (pólitískur penni og Deisti). Ég er sammála mörgu sem Dawkins segir en ekki öllu. Þar sem ég var aldrei spurður álits á Dawkins með beinum hætti er undarlegt að hægt sé að halda því fram að hann sé einhver leiðtogi minn.

7. Trúlausir ofstækismenn vs. trúaðir vísindamenn.
Gefið er í skyn í greininni að trú stangist alls ekkert á við vísindi og að vísindamenn séu almennt trúaðir. Sannleikurinn er sá að samkvæmt þeim tölum sem ég hef kynnt mér þá eykst tíðni trúleysi meðal manna samfara því að menntun þeirra eykst (undantekning væntanlega guðfræði). Margar fullyrðingar trúarbragða stangast svo sannarlega á við þá þekkingu sem vísindin hafa veitt okkur. En eins og ég sagði við blaðamanninn (heldur ekki birt) þá eru auðvitað til fjölmargir trúaðir vísindamenn. Þetta fólk virðist skipta reynsluheimi sínum í tvo aðskilda parta. Þannig geta trúaðir vísindamenn verið afar vandvirkir og gagnrýnir vísindamenn en þegar þeir fara i kirkju til bæna skipta þeir um karakter og sleppa allri gagnrýnni hugsun. Þannig verður að gagnrýna ítarlega nýjustu rannsóknir um uppbyggingu DNA á meðan „vegir Guðs eru órannsakanlegir“.

Ég benti blaðamanninum á að ég reyndi að skoða alla hluti út frá gagnrýnu sjónarhorni. Hvort sem um væri að ræða vísindakenningar, tilgátur um tilvist Guðs eða fullyrðingar um virkni fæðubótaefnis sem auglýst er í sjónvarpinu.

8. Trúleysingjar eru reiðir
Eru trúleysingjar sérstaklega reiðir út í trúarbrögð? Þetta segir Guðmundur Eggertsson, doktor í örverufræðum, um meinta reiði trúleysingja:

„Ég held að vísindamenn upp til hópa deili ekki þessari reiði út í trúarbrögðin sem við sjáum hjá Dawkins og trúleysingjum.“

Hvað er átt við hér? Eru vísindamenn almennt ekki reiðir út í bókstafstrúaröfl sem vilja banna rannsóknir á stofnfrumum, banna getnaðarvarnir og fordæma allar fóstureyðingar? Eru vísindamenn ekki reiðir út í bókstafstrúaröfl sem vilja banna þekkingu, brenna bækur og stundum höfundana með þeim? Ætlar Guðmundur að halda því fram að vísindamenn séu ekki bálreiðir út í trúarofstækismenn sem sprengja sjálfa sig og aðra í loft upp í nafni guðs síns?

Auðvitað eru flestir vísindamenn bálreiðir út í þessar afleiðingar trúarbragðanna. Kemur annað til greina nema siðferðiskennd þeirra sé brengluð?

Kannski á Guðmundur við að vísindamenn séu almennt ekki reiðir út í venjulegt trúað fólk. Vitið menn, ekki trúleysingjar heldur. Í það minnsta ekki ég. Ég starfa til að mynda í félagi (Siðmennt) sem berst fyrir rétti allra til að stunda sína lífsskoðun (þar með trú) óáreittur, svo lengi sem þeir hinir sömu skaði ekki aðra beint með atferli sínu. Það er engin reiði í mér gagnvart trú almennt, þó ég viðurkenni að ég geti oft verið ansi reiður út í eldklerka og aðra bókstafstrúarmenn sem vilja banna og/eða brenna allt sem stangast á við trú þeirra.

9. Erfðafræðin útskýrir siðfræðileg lögmál
Sami Guðmundur segir svo réttilega að ekki sé hægt að nota erfðafræðina eina og sér til að útskýra öll siðfræðileg lögmál. Hver heldur því annars fram? Ekki ég, ekki Dawkins og í raun ekki neinn trúleysingi sem ég þekki vel til. Það er líklegt að erfðafræðin hafi áhrif á siðferðiskennd manna (það virðast t.a.m. vera ákveðin innbyggð tabú hjá öllum mönnum) en það er fjarri lagi að hægt sé að útskýra siðferði með erfðafræðilögmálum einum saman. Eins og svo oft áður er hér um að ræða flókið samspil erfða og umhverfis.

Að lokum
Það er margt áhugavert í grein Viðskiptablaðsins og allt er haft rétt eftir mér. Framsetningin er þó vafasöm og ýmislegt villandi að mínu mati. Lokaorðin eru reyndar ansi góð. Sérstaklega þar sem vitnað er í Douglas Adams sem spurði eitt sinn hvort garðurinn gæti ekki verið fallegur þó engir væru álfarnir í honum. Þetta rímar vel við mína skoðun. Heimurinn er undarlegur og stórkostlegur í senn, og það þrátt fyrir og jafnvel vegna þess, að engan Guð er að í honum að finna.

Deildu