Staðlausir stafir um Siðmennt

Logo

Sigurður Hólm Gunnarsson

Sigurður Hólm Gunnarsson ritstjóri Skoðunar sem stofnað var þann 23. júní 1999.

03/02/2010

3. 2. 2010

[Þessi grein var birt í Morgunblaðinu 3. febrúar 2010] „Fordómar Siðmenntar gagnvart kristinni trú og fagmennsku kennara eru löngu orðnir augljósir og þegar rök þeirra eru úr lausu lofti gripin færi betur á að ritstjórar blaðanna stöðvuðu slíkar greinar. En í þessu sem öðru þurfa forsvarsmenn Siðmenntar ætíð að hafa síðasta orðið og því fróðlegt […]

[Þessi grein var birt í Morgunblaðinu 3. febrúar 2010]

„Fordómar Siðmenntar gagnvart kristinni trú og fagmennsku kennara eru löngu orðnir augljósir og þegar rök þeirra eru úr lausu lofti gripin færi betur á að ritstjórar blaðanna stöðvuðu slíkar greinar. En í þessu sem öðru þurfa forsvarsmenn Siðmenntar ætíð að hafa síðasta orðið og því fróðlegt að sjá hvenær næsta grein birtist.“

Með þessum orðum lýkur grunnskólakennarinn Fjalar Freyr Einarsson grein sem hann skrifar um Siðmennt. Grein sem ber titilinn „Staðlausir stafir Siðmenntar“.

Titillinn og lokaorðin eru áhugaverð af ýmsum ástæðum. Þó helst þeim að innihald greinarinnar er lítið annað en samansafn af staðlausum stöfum um Siðmennt og þeirri ótrúlegu tillögu grunnskólakennarans, uppfræðara barna, að greinar frá Siðmennt verði ritskoðaðar að hætti Google í Kína.

Afstaða kennarans til tjáningarfrelsis er að mörgu leyti skiljanleg þegar hún er sett í sögulegt samhengi. Ritskoðun hefur í gegnum tíðina verið helsta vopn þeirra sem hafa valdið og ekki síður þeirra sem hafa vondan málstað að verja. Ef ritstjórar Morgunblaðsins ákveða að hlýða kennaranum og ákveða að koma í veg fyrir birtingu þessarar greinar fá lesendur blaðsins seint að vita að fullyrðingar kennarans um Siðmennt eru rangar eða með öðrum orðum staðlausir stafir.

Í grein sinni fullyrðir Fjalar að Siðmennt sé á móti fræðslu um trúarbrögð. Þetta er vitleysa sem hefur svo oft verið leiðrétt að það eru aðeins til tvær líklegar ástæður fyrir því að kennarinn fer með þessa staðlausu stafi. Annað hvort er hann ótrúlega fáfróður um efnið sem hann skrifar um eða hann er beinlínis að segja ósatt málstað sínum til framdráttar. Hvorug skýringin ber vott um vönduð eða heiðarleg vinnubrögð af hálfu uppfræðara barna.

Sannleikurinn er auðvitað sá að Siðmennt styður eindregið öfluga kennslu um trúarbrögð, siðfræði og gagnrýna hugsun. Þetta hefur alltaf verið stefna félagsins og hefur það komið skýrt fram í opinberum stefnuskrám Siðmenntar, ótal blaðagreinum, opinberum erindum og fjölmiðlaumfjöllun. Það sem Siðmennt hefur gagnrýnt er trúboð og trúariðkun innan opinberra skóla. Slíkt er ekki það sama og fræðsla um trú og trúarbrögð. Fjölmörg dæmi um umkvartanir foreldra vegna trúboðs og trúariðkunar í skólum má finna á vef Siðmenntar, www.sidmennt.is. Þar má líka finna stefnuskrár, opinber erindi og blaðagreinar þar sem afstaða Siðmenntar kemur skýrt fram. Ég hvet kennarann til að kynna sér þar stefnu Siðmenntar áður en hann nýtir sér næst tjáningarfrelsið og hvetur til ritskoðunar.

Að lokum vil ég nota tækifærið og vitna í stefnuskrá Siðmenntar, sem væntanlega er til vitnis um „fordóma“ og „umburðarleysi“ félagsins:

„Siðmennt lítur svo á að sannfæringarfrelsi, trúfrelsi og tjáningarfrelsi teljist til almennra lýðréttinda. Þau skuli ná til allra og þau megi hvorki afnema né skerða undir neinum kringumstæðum. Félagið telur að hið opinbera (ríkið, stjórnkerfið, þingið, dómskerfið, mennta- og heilbrigðiskerfið) eigi að starfa eftir veraldlegum leikreglum og án merkimiða einstakra trúar- eða lífsskoðunarfélaga. Félagið fer því fram á aðskilnað ríkis og kirkju og berst fyrir breytingum á lagaákvæðum sem mismuna þeim er standa utan trúfélaga.“

Höfundur situr í stjórn Siðmenntar.

Deildu