Skottulækningar í boði Reykjavíkurborgar?

Logo

Sigurður Hólm Gunnarsson

Sigurður Hólm Gunnarsson ritstjóri Skoðunar sem stofnað var þann 23. júní 1999.

27/08/2010

27. 8. 2010

Ég rakst á undarlega frétt á vefsíðu Reykjavíkurborgar: „Ókeypis Bowen meðferð í Vesturbæjarlaug“. Í fréttinni kemur fram að Halla Himintungl*, „menntaður Bowentæknifræðingur“, ætli að bjóða upp á ókeypis Bowen meðferð fyrir gesti Veturbæjarlaugar. Í ítarefni sem fylgir fréttinni segir svo að Bowen tækni „virki vel“ á fólk sem „þjáist af bakverkjum, brjósklosi, mígreni, hnémeiðslum, liðagigt, […]

Ég rakst á undarlega frétt á vefsíðu Reykjavíkurborgar: „Ókeypis Bowen meðferð í Vesturbæjarlaug“. Í fréttinni kemur fram að Halla Himintungl*, „menntaður Bowentæknifræðingur“, ætli að bjóða upp á ókeypis Bowen meðferð fyrir gesti Veturbæjarlaugar. Í ítarefni sem fylgir fréttinni segir svo að Bowen tækni „virki vel“ á fólk sem „þjáist af bakverkjum, brjósklosi, mígreni, hnémeiðslum, liðagigt, háls- og herðaverkjum, astma, kvíða, ofvirkni, þunglyndi og svefnleysi.“ Enn fremur eru börn, unglingar og ófrískar konur sérstaklega hvattar til að nýta sér meðferðina.

Vandinn er sá að engar rannsóknir hafa verið birtar í ritrýndum fræðiritum sem sýna fram á þennan stórkostlega lækningarmátt Bowen tækninnar. Þetta er auðvitað ekki tekið fram í umræddri frétt. Enda kannski óþarfi?

Það er gagnrýnivert að skottulækningar séu auglýstar og kynntar með þessum hætti á opinberum vef Reykjavíkurborgar. Sérstaklega þegar börn og unglingar eru hvattir til að nýta sér þessa meðferð. Sem borgari hlýtur maður að geta gert ráð fyrir því að meðferð í boði borgarinnar sé byggð á einhverju öðru en sandi.

* Ég er ekki að grínast. Það skal tekið fram að Halla Himintungl er líka sérfræðingur í tarrotlestri, stjörnuspeki, reiki, tunglgöldrum og fleiri ósannreyndum aðferðum.

Tengt efni:
Óhefðbundinn fréttaflutningur (um gagnrýnislausa umfjöllun fjölmiðla um Bowen tækni)


Deildu