3436 – Hugleiðingar um stjórnlagaþing og persónukjör

Logo

Sigurður Hólm Gunnarsson

Sigurður Hólm Gunnarsson ritstjóri Skoðunar sem stofnað var þann 23. júní 1999.

31/10/2010

31. 10. 2010

Vinsamlegast smellið á „Like“ til að styðja framboð mitt: Þá er maður búinn að fá auðkennisnúmerið 3436 vegna framboðs til stjórnlagaþings. Nú er næsta skref að bíða eftir kynningarbæklingnum sem yfirvöld ætla að senda á öll heimili. Það eru 523 frambjóðendur þannig að þetta verður eins og að lesa símaskránna. Persónukjör til stjórnlagaþings er afar […]

Vinsamlegast smellið á „Like“ til að styðja framboð mitt:

Þá er maður búinn að fá auðkennisnúmerið 3436 vegna framboðs til stjórnlagaþings. Nú er næsta skref að bíða eftir kynningarbæklingnum sem yfirvöld ætla að senda á öll heimili. Það eru 523 frambjóðendur þannig að þetta verður eins og að lesa símaskránna. Persónukjör til stjórnlagaþings er afar mikilvæg tilraun sem verður spennandi að sjá hvernig fer.

Persónukjör er augljóslega ekki gallalaus aðferð eins og þessar kosningar sýna. Þannig efast ég um að stór hluti kjósenda hafi tíma til að kynna sér alla 523 frambjóðendurnar og mynda sér skoðun á þeim. Nú er ég sjálfur í framboði og hef mikinn áhuga en ég hef ekki enn getað kynnt mér alla frambjóðendur svo eitthvað vit sé í. Ég óttast því að kosningin muni fara fram einhvern veginn svona:

Kjósandi veit um nokkra frambjóðendur sem honum lýst vel á (bæði vegna málefna en líka vegna vinar- og ættartengsla). Þá er búið að velja kannski fimm til tíu frambjóðendur. En þá á eftir að velja um 20 manns til viðbótar því ég hygg að margir kjósendur vilji fylla út í sinn kjörseðil.

Mestu líkurnar eru á því að kjósendur kjósi þá „þekkta“ Íslendinga til að fylla upp í kjörseðilinn. Þetta er eðlilegt og skiljanlegt. Bara það að kannast við nöfn eða vita eitthvað um frambjóðanda er betra en að vita ekki neitt um hann. Sama þó það eina sem kjósandinn viti er að frambjóðandi er „þekktur leikari“ eða hann hafi „einu sinni verið í sjónvarpinu“. Það er einhvern veginn öruggara að kjósa slíkan einstakling en einhvern sem maður veit nánast ekkert um. Ég hygg að einhverjar rannsóknir hafi verið gerðar á þessari skiljanlegu hegðun, þó ég kunni ekki að vísa til þeirra hér.

Ég tel því líkur á því að „þekktir“ Íslendingar fái langflest atkvæði í þessum kosningum því þeir munu fá svo mörg „uppfyllingaratkvæði“ og niðurstaðan verður því einhvers konar vinsældarkosning.

Vonandi ekki en þetta verður að teljast ansi líklegt. Hvernig er hægt að kynna 523 frambjóðendur á innan við mánuði? Ekki getur RÚV gert það. Slíkur kynningarþáttur tæki marga daga og yrði ansi leiðinlegt dagskrárefni (og má RÚV ekki við því segja sumir).

Búið er að stofna Facebook síðu þar sem hálfgerðar fangamyndir eru birtar af frambjóðendum sem hafa varið peningum í auglýsingar (líka af þeim sem hafa varið fimm til tíu þúsund krónum í vefauglýsingar). Það er því orðið í raun bannað að auglýsa. Þekktu frambjóðendurnir þurfa ekki að hafa áhyggjur, enda þekktir. En aðrir sem eru minna eða ekkert þekktir geta þá lítið gert til að koma stefnumálum sínum á framfæri.

Hættan er því eins og áður segir að á stjórnlagaþing verða líklegast kosnir einstaklingar sem voru þekktir fyrir framboð og skiptir þá litlu máli fyrir hvað.

Sigurður Hólm á stjórnlagaþing:
Facebook: http://www.facebook.com/sigurd.holm.a.stjornlagathing

Framboðið á Skoðun: https://skodun.is/tag/stjornlagathing/

Vinsamlegast smellið á „Like“ til að styðja framboð mitt:

Deildu