Hvaða áhrif mun ný stjórnarskrá hafa á stöðu Þjóðkirkjunnar?

Logo

Sigurður Hólm Gunnarsson

Sigurður Hólm Gunnarsson ritstjóri Skoðunar sem stofnað var þann 23. júní 1999.

11/10/2012

11. 10. 2012

Það er hvorki sjálfsagt eða eðlilegt að ein kirkja, eitt trúfélag, njóti sérstakra forréttinda eða verndar í stjórnarskrá.Stjórnarskráin okkar á að tryggja fullt trúfrelsi og jafnræði borgaranna óháð lífsskoðun þeirra.Hlutverk stjórnarskráa almennt er einmitt að tryggja almannahagsmuni en ekki sérhagsmuni.Því er mikilvægt að fólk svari spurningu þrjú:„Vilt þú að í nýrri stjórnarskrá verði ákvæði um þjóðkirkju á Íslandi?“ með því að merkja við NEI.

Grein byggð á ræðu sem flutt var á fundi Stjórnarskrárfélagsins 10. október 2012

Hér má sjá glærurnar sem sýndar voru með fyrirlestrinum

Á fundi Stjórnarskrárfélagsins í gær var spurt: „Hvaða áhrif mun ný stjórnarskrá hafa á stöðu Þjóðkirkjunnar?“

Mín skoðun er sú að ef tillaga stjórnlagaráðs verður samþykkt og almenningur segir nei við spurningunni „Vilt þú að í nýrri stjórnarskrá verði ákvæði um þjóðkirkju á Íslandi?“ að þá sé í það minnsta tekið stórt skref í átt að aðskilnaði ríkis og kirkju.

Krafan um fullt trúfrelsi er krafa um frelsi, jafnrétti og umburðarlyndi. Ef stjórnvöld og lögin eiga að hafa eitthvað hlutverk þegar kemur að trúmálum þá er það þetta:

Stjórnvöld eiga að tryggja tryggja frelsi einstaklingsins. Vernda rétt allra til að lifa samkvæmt eigin lífsskoðunum. Vera hlutlaus og vera óháð einstaka trúarbrögðum.

Í þessu felst að aðskilja þarf ríki og kirkju, lagalega, fjárhagslega og félagslega.

Mikilvægt að afnema vernd í stjórnarskrá
Öll þau ár sem ég hef barist fyrir aðskilnaði ríkis og kirkju hafa flestir verið sammála um eitt. Og það er að mikilvægast af öllu sé að afnema stjórnarskrárbundna vernd Þjóðkirkjunnar.

Alltaf þegar fjallað er um önnur atriði sem tengjast fullum aðskilnaði er bent á stjórnarskránna. Ég hef ekki tölu á því hversu oft ég hef fengið svarið: „Já en hér er þjóðkirkja á Íslandi samkvæmt stjórnarskrá, þú verður að virða það!“ og þar með er umræðunni yfirleitt lokið. Reyndar er því oft bætt við að „við séum Kristin þjóð“ og þá aftur vísað í stjórnarskránna því til staðfestingar.

Því má segja að þó ekki sé spurt um aðskilnað ríkis og núverandi þjóðkirkju beint. Þá er verið að fjalla um eitt mikilvægasta, ef ekki mikilvægasta skrefið í áttinni að aðskilnaði ríkis og kirkju.

Að þessu sögðu þá snýst aðskilnaður ríkis og kirkju um meira en afnám stjórnarskrárverndar.

Fjárhagsleg- og lagaleg mismunun milli trúar- og lífsskoðana skiptir miklu máli. Einnig má nefna lög um guðlast, sjálfkrafa skráningu barna í trúfélög, trúboð og áróður í opinberum stofnunum og hina úreltu hefð að setja Alþingi ár hvert með predikun í Dómkirkjunni.


Í 62. gr. núverandi stjórnarskrár segir:

„Hin evangelíska lúterska kirkja skal vera þjóðkirkja á Íslandi, og skal ríkisvaldið að því leyti styðja hana og vernda.”

Í tillögum stjórnlagaráðs er þessi grein felld í burtu en þess í stað fjallað almennt um „Kirkjuskipan ríkisins“.

Þó ég sé þeirrar skoðunar að ekki eigi að fjalla um „Kirkjuskipan ríkisins“ í stjórnarskrá þá tel ég tillögu stjórnlagaráðs þó vera mikilvægt skref í rétta átt.

Mér þykir að sama skapi mikilvægt að þann 20. október fáum við, almenningur, að svara því beint hvort við viljum hafa sérstakt ákvæði um þjóðkirkju í stjórnarskrá.  

Svar mitt og Siðmenntar er augljóslega nei.

Meirihluti styður aðskilnað ríkis og kirkju
Áður en lengra er haldið vil ég benda á að mikill meirihluti almennings styður aðskilnað ríkis og kirkju. Og hefur sá stuðningur verið mikill síðan mælingar hófust. Síðustu ár hafa milli 72 til 74% þeirra sem spurðir eru í skoðanakönnunum verið hlynntir aðskilnaði ríkis og kirkju.

Þegar aðeins er litið til þeirra sem taka afstöðu þá eru um 60% allra landsmanna hlynnt aðskilnaði en einungis 20% á móti.

Það að vera fylgjandi aðskilnaði ríki og kirkju er því langt frá því að vera einhver minnihlutaskoðun eins og stundum er gefið í skyn.

Markvert er að um 70% þeirra sem tilheyra sjálfri Þjóðkirkjunni vilja aðskilnað ríkis og kirkju. Nánast allir þeir sem standa utan trúfélaga vilja aðskilnað. Skiljanlega þar sem sá hópur verður fyrir hvað mestri mismunun samkvæmt núverandi kerfi.


Rök með áframhaldandi stjórnarskrárvernd?
Nauðsynlegt er að svara nokkrum rökum þeirra sem vilja að Þjóðkirkjan njóti áfram sérstakrar verndar í stjórnarskrá.

Agnes M. Sigurðardóttir, biskup Íslands, sagði í Silfri Egils síðastliðinn sunnudag að Þjóðkirkjan legði ekki „áherslu á það að hafa nafn sitt í stjórnarskránni sín vegna heldur þjóðarinnar vegna.“

Hvað er hægt að segja við þessum málflutningi annað en að þjóðin virðist henni ósammála, eins og kannanir hafa sýnt frá upphafi mælinga. Ég endurtek að mikill meirihluti fólks í þjóðkirkjunni styður aðskilnað ríkis og kirkju.
Biskup og aðrir hafa einnig sagt að Þjóðkirkjan gegni ákveðnum skyldum í „íslensku samfélagi …gagnvart öllum almenningi en ekki aðeins þeim sem eru í söfnuði hennar.“ Skyldur umfram önnur trúfélög.

Óljóst er hvaða skyldur er átt við, en ef biskup er að fjalla um athafnir eins og nafngjafir, fermingar, giftingar og greftranir er ljóst að flest lífsskoðanafélög vilja sjá um slíka þjónustu og gera það nú þegar. Jafnvel án nokkurs stuðnings hins opinbera.  Á það til að mynda við um Siðmennt.

Á upplýsingavef Þjóðkirkjunnar um komandi stjórnarskrárkosningu er einnig minnst á Hjálparstarf kirkjunnar og Fjölskylduhjálp kirkjunnar sem veitir „öllum félagsráðgjöf og sálfræðiþjónustu ókeypis“.

Í fyrsta lagi. Leikur nokkur vafi á því að gott fólk innan kirkjunnar muni halda áfram hjálparstarfi ef ríki og kirkja verða aðskilin að einhverju eða öllu leyti? Auðvitað ekki. Það væri í það minnsta aumt hjálparstarf ef það er háð sérstökum stuðningi hins opinbera og verndar í stjórnarskrá.

Í öðru lagi er ágætt að Þjóðkirkjan veiti skjólstæðingum sínum ókeypis félagsráðgjöf og sálfræðiþjónustu. En mín bjargfasta skoðun er þó sú að hið opinbera, ríkið og sveitarfélögin, eigi að tryggja okkur öllum nauðsynlega velferðarþjónustu, ekki einstaka trúfélög. Því af skiljanlegum ástæðum vilja ekki allir nýta sér þjónustu kirkjunnar og aðrir geta það ekki.


Þjóðkirkjan er ekki fyrir alla
Hafa ber í huga að Þjóðkirkjan er ekki fyrir alla þó talsmenn hennar tali þannig á tyllidögum.  Það er til dæmis ekki sjálfsagt að samkynhneigt fólk fái þá þjónustu sem það vill frá kirkjunni. Einstaka prestar ráða því þannig hvort þeir vilja blessa samband samkynhneigðra eða ekki.

Ég veit svo til þess að fólki hefur verið vísað frá kirkjunni með athafnir vegna þess að það vildi ekki að athöfnin hefði trúarlegt inntak.

Þjóðkirkjan þjónar ekki öllum og hún á ekki að gera það. Trúfélög eiga að hafa frelsi til að mismuna fólki eftir trúarskoðunum. En slíkt frelsi er ekki viðeigandi á meðan Þjóðkirkjan nýtur sérstakrar verndar í stjórnarskrá og stjórnendur hennar tala eins og Þjóðkirkjan sé fyrir alla landsmenn.

Svo má ekki gleyma því að sumir þjónar hinnar íslensku Þjóðkirkju, sem fá laun sín frá ríkinu, hafa ekki verið feimnir við að gera lítið úr lífsskoðunum annarra. Þannig er mér minnisstætt þegar prestur einn, og reyndar fulltrúi í stjórnlagaráði, sagði við mig í útvarpsviðtali að mín lífsskoðun, húmanisminn, eða trúin á manninn eins og hann orðaði það, væri aumasta trú sem til væri. Og ég man líka eftir því þegar fyrrverandi biskup líkti trúleysingjum við siðleysingja, oftar en einu sinni.

Svona talar ekki fólk sem þjónar öllum almenningi.

Kjarni málsins
Það er hvorki sjálfsagt eða eðlilegt að ein kirkja, eitt trúfélag, njóti sérstakra forréttinda eða verndar í stjórnarskrá.

Stjórnarskráin okkar á að tryggja fullt trúfrelsi og jafnræði borgaranna óháð lífsskoðun þeirra.

Hlutverk stjórnarskráa almennt er einmitt að tryggja almannahagsmuni en ekki sérhagsmuni.

Því er mikilvægt að fólk svari spurningu þrjú:

„Vilt þú að í nýrri stjórnarskrá verði ákvæði um þjóðkirkju á Íslandi?“ með því að merkja við NEI.

 

Deildu