Afnám verðtryggingar er barbabrella

Logo

Sigurður Hólm Gunnarsson

Sigurður Hólm Gunnarsson ritstjóri Skoðunar sem stofnað var þann 23. júní 1999.

18/03/2013

18. 3. 2013

Þessar hugleiðingar fóru í taugarnar á hagfræðingnum Ólafi Arnarssyni, sem mér skilst að sé einn stofnandi hópsins. Hann kallaði mig rassálf og spammara á meðan aðrir sökuðu mig um að styðja auðvaldið, að vera skuldlaus (sem hljómaði eins og glæpur) og að hafa hagnast á rányrkjunni. Varla þarf að taka fram að ég er saklaus af þessu öllu. Ólafur tók sig svo til og eyddi spurningu minni og þeirri umræðu sem hafði skapast um hana. Þetta kalla ég ritskoðun á háu stigi.

Ein helsta krafa dagsins er að verðtrygging verði afnumin og jafnvel bönnuð. Ég óttast þessa umræðu því afnám verðtryggingar, að öllu öðru óbreyttu, er í besta falli barbabrella sem skiptir almenna skuldara tiltölulega litlu máli og í versta falli er verið að slá ryki í augu fólks með því að leiða umræðuna frá því sem raunverulega kom okkur á kaldan klaka. Eins og umræðan hefur þróast mætti halda að kreppan, skuldir heimilanna og dvínandi kaupmáttur þjóðarinnar sé verðtryggingunni að kenna.  Þetta er allt rangt.

Umræðan um verðtrygginguna er orðin svo heit að þeir sem efast um að afnám hennar sé einhver töfralausn eru sakaðir um að verja hagsmuni bankamanna og auðvaldsins. Þeir sem tala hæst segja að afnám verðtryggingar sé eitt mikilvægasta ef ekki mikilvægasta réttlætismál  nútímans og ljóst er að það verður mikill þrýstingur á stjórnmálamenn fyrir næstu kosningar að sjá til þess að verðtryggingin verði afnumin.

Ég fæ ekki betur séð en að umræðan um afnám verðtryggingar sé mikið til byggð á misskilningi og popúlisma. Misskilningurinn felst meðal annars í eftirfarandi fullyrðingum:

  1. Hrunið, skuldavandi þjóðarinnar og kaupmáttarrýrnun er verðtryggingunni að kenna.
  2. Með afnámi verðtryggingar verði skuldir sjálfkrafa felldar niður aftur í tímann.
  3. Íslendingar fá skyndilega aðgang að ódýrari lánum ef verðtrygging verður afnuminn.

Þetta er allt vitleysa. Orsök hrunsins má rekja til bóluhagkerfis sem myndaðist í kjölfar einkavæðingar bankanna, loforðum stjórnmálaflokka um 90% húsnæðislán (sem var glórulaus bóluhvetjandi aðgerð), skorti á reglum um bankaviðskipti , eftirlitsleysi og almenn frjálshyggjuvæðing samfélagsins.

Ekki er hægt, með valdboði, að afnema lán aftur í tímann án þess að brjóta eignarréttarákvæði stjórnarskrárinnar. Hugsanlega er sanngjarnt og jafnvel nauðsynlegt koma til móts við fólk í skuldavanda með einhverjum hætti (mun fjalla um það síðar) en afnám verðtryggingar hefur ekkert með niðurfellingu lána að gera.

Íslenskir peningar

Ef verðtryggð lán verða bönnuð munu Íslendingar ekki skyndilega fá ódýr óverðtryggð lán. Verðtryggingin er ekkert nema leið til að viðhalda verðmæti  peninga í verðbólgu. Enda vill enginn lána öðrum tíu þúsund krónur í dag og fá svo sömu upphæðina greidda  til baka eftir nokkur ár ef verðgildi upphæðarinnar hefur hrapað í millitíðinni vegna verðbólgu. Þetta segir sig sjálft. Ef lánveitendur geta ekki tryggt sig fyrir verðbólgu með verðtryggingu þá bjóða þeir í staðinn upp á lán með hærri breytilegum vöxtum. Afborganir af slíkum lánum geta hækkað gríðarlega á stuttum tíma í verðbólguskoti. Svo mikið að venjulegur launamaður getur ekki borgað af slíkum lánum.

Sama hversu menn tauta og raula þá er verðbólgan vandamálið og það skiptir máli að við erum að nota einn minnsta gjaldmiðil í heimi sem hefur verið misnotaður af stjórnvöldum alltof lengi.

Afnám verðtryggingar, popúlismi og ritskoðun
Á Facebook má finna hópinn „Nú er nóg komið – Réttlæti strax og verðtrygginguna burt!“ þar sem birtar eru greinar og færslur gegn vondu verðtryggingunni. Um tólf þúsund manns eru skráðir í hópinn þegar þetta er skrifað. Á síðunni er nánast eingöngu neikvæð umræða um verðtrygginguna og skýlaus krafa um að hún verði afnuminn. Þar sem ég, aumur iðjuþjálfinn, skil ekki hvernig afnám verðtryggingar, eitt og sér,  getur bætt lífskjör á Íslandi ákvað ég að senda inn einfalda spurningu inn á þennan hóp (sem ég var skráður í að mér forspurðum). Spurningin hljóðaði einhvern veginn svona:

„Getur einhver útskýrt fyrir mér hvernig einstaklingar yrðu betur settir ef verðtrygging yrði afnumin eða jafnvel bönnuð, að öllu öðru óbreyttu?“

Ljóst var á þeim svörum sem ég fékk að sumir sem þarna skrifuðu vissu lítið um hvað verðtrygging snýst og töluðu einfaldlega um að afnám hennar væri réttlætismál. Flestir sem svöruðu sögðu þó að það þyrfti að gera ýmislegt annað en að afnema verðtrygginguna. Hvað þetta annað á að vera var mjög mismunandi eftir því hver svaraði. Sumir tala um að það þurfi að umbylta peningakerfinu og fá góðar undirtektir. Aðrir neita því staðfastlega að hækkun verðtryggðra lána hafi nokkuð að gera með þá staðreynd að við erum með einn minnsta gjaldmiðil í heimi.

Flestir sem reyndu að svara spurningu minni virtust sammála um að afnám verðtryggingar („með einu pennastriki“) myndi ekki leysa neitt sem er laukrétt. Ég spurði því hvort það væri ekki ákveðinn blekkingarleikur að krefjast þess að afnema verðtrygginguna eins og  afnámið  eitt og sér hefði einhverjar góðar afleiðingar fyrir íslenska þjóð? Ég spurði hvort ekki væri mikilvægt að hópur sem þessi hefði þá einhverjar skýrar og raunhæfar leiðir um hvað annað þyrfti að gera?

Ritskoðaður af hagfræðingi og uppnefndur rassálfur í leiðinni
Þessar hugleiðingar fóru í taugarnar á hagfræðingnum Ólafi Arnarsyni, sem mér skilst að sé einn stofnandi hópsins. Hann kallaði mig rassálf og spammara á meðan aðrir sökuðu mig um að styðja auðvaldið, að vera skuldlaus (sem hljómaði eins og glæpur) og að hafa hagnast á rányrkjunni. Varla þarf að taka fram að ég er saklaus af þessu öllu. Ólafur tók sig svo til og eyddi spurningu minni og þeirri umræðu sem hafði skapast um hana. Þetta kalla ég ritskoðun á háu stigi.

Auðvitað má gagnrýna verðtryggð lán með ýmsum hætti. Lánveitendur hafa ekki lagt mikið á sig til að útskýra fyrir lántakendum hversu mikið lánin geta hækkað ef krónan fellur skyndilega og færa má rök fyrir því að bankar séu tvítryggðri með verðtryggingu.

Það sem eftir stendur er að afnám verðtryggingar er engin töfralausn og getur beinlínis reynst stórhættulegt að banna þessa tegund lána að öllu öðru óbreyttu. Skuldavandi heimilanna og kaupmáttarrýrnun er til komin vegna þess að hér varð hrun og hér varð hrun vegna þess að hér fékk að blása út bóluhagkerfi.

Þar bera glórulausar aðgerðir frjálshyggjumanna mikla ábyrgð. Frjálshyggjumenn úr ýmsum flokkum einkavæddu bankana í flýti um leið og þeir hötuðust út í allt eftirlit með fjármálakerfinu. Síðast en ekki síst myndaðist bóluhakerfið út af fáránlegum kosningaloforðum þeirra sem vildu bjóða upp á 90% húsnæðislán  sem án efa er ein helsta ástæða þess að hér varð gríðarleg húsnæðisbóla sem að lokum sprakk.

Dásamlegt er svo að sömu flokkar, og nokkrir fylgihnettir þeirra, lofa nú að bjarga heimilunum með nýjum  glórulausum kosningaloforðum. Töfralausnum sem auðveldlega geta valdið nýju hruni.

Deildu